26.11.1987
Sameinað þing: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (909)

118. mál, veiting útflutningsleyfa á frystum sjávarafurðum til Bandaríkjanna

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka upp þetta mál. Ég tel fulla ástæðu til að ræða nokkuð svo sérkennileg vinnubrögð hæstv. viðskrh. í þessu máli. Ég vil sérstaklega gagnrýna og það mjög harðlega að hæstv. ráðherra sat hér hljóður og þegjandi undir umræðum um frv. sem snerti nákvæmlega þetta mál og er til umfjöllunar á hinu háa Alþingi, frv. til l. um breytingar á útgáfu útflutningsleyfa. Ég innti hæstv. viðskrh. hvað eftir annað eftir afstöðu hans í því máli, en lítil svör komu þegar hæstv. utanrrh. mælti fyrir því máli. Nú megum við hins vegar ræða þetta stórpólitíska mál í símskeytastíl í fyrirspurnatíma.

Efnislega vil ég segja örfá orð um þetta, herra forseti, og þau eru að ég tel að hér sé full ástæða til að fara með gát. Ég er ekki uppnæmur fyrir ræðuhöldum um frelsisvaðal þegar verið er að fjalla um lífsafkomu íslensku þjóðarinnar. Hvert er markmiðið með útflutningi vöru héðan? Það er væntanlega að fá sem hæst verð, bæði þegar vel gengur og eins þegar miður gengur að selja okkar vörur. Ég held að það sýni sig að aukin samkeppni felur í sér fyrst og fremst eina hættu, þá hættu að hún skili lægra verði til kaupandans. Það er varla markmiðið með útflutningi vöru hér að reyna að skapa kaupendunum, þeim sem við eigum viðskipti við, sem lægst vöruverð. Þvert á móti hið gagnstæða, að reyna að halda uppi sem jafnhæstu verði fyrir íslenskar útflutningsvörur, bæði þegar vel gengur og eins þegar miður gengur að koma okkar vörum í verð. Þess vegna þurfa menn ekki bara að huga að stundargróðanum og þeim möguleikum sem margir hafa þegar sæmilega vel árar á þessu sviði heldur líka hinu að tryggja stöðugleika og sem jafnhæst verð í gegnum tíðina. Þar hafa stóru sölusamtökin og heildarsamtök eins og Sölusamband ísl. fiskframleiðenda og Sölumiðstöð og Samband sýnt og sannað gildi sitt um áratuga skeið.