26.11.1987
Sameinað þing: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1310 í B-deild Alþingistíðinda. (910)

118. mál, veiting útflutningsleyfa á frystum sjávarafurðum til Bandaríkjanna

Fyrirspyrjandi (Guðmundur H. Garðarsson):

Hæstv. forseti. Ég get ekki annað en brosað. Það vill svo til að sá sem hér stendur er fæddur í bæ sem heitir Hafnarfjörður og lifði það að vera ungur maður og unglingur í Hafnarfirði þegar veldi kratanna var sem mest. Þegar þessir ágætu menn fara að tala um frelsi get ég ekki annað en brosað.

Það er svo mikil hræsni og sýndarmennska í því tali sem hér hefur farið fram af hálfu fulltrúa Alþfl. að það þyrfti langt mál og mikinn tíma til að fjalla um það og fara yfir þeirra sögu í sambandi við frelsi og samkeppni. Ég kannast ekki við að Alþfl. hafi verið flokkur samkeppninnar eða frelsisins í íslensku atvinnulífi eða viðskiptalífi. Það getur vel verið að það henti þeim í dag því að flokkur sem á sér engan grundvöll leitar á öll mið, góð og vond. En það eru líka til skítfiskar, sem menn veiða, en ekki góðfiskar eins og aðrir hafa veitt í gegnum árin. Og verði þeim að góðu! En ég segi vegna íslensku þjóðarinnar: Hér er verið að fjalla um lífshagsmuni og miklu alvarlegri en hv. þm. Alþfi. hafa gert sér grein fyrir og tek undir orð hv. þm. Steingríms Sigfússonar áðan um það. Við erum að tala um hvað endanlega kemur í hlut Íslendinga við sölu þeirra afurða sem við erum að fjalla um.

Að tala um einkasölu og einokun er ósæmilegt af hæstv. viðskrh. Að tala þannig um samtök framleiðenda, sem eru samsett af þúsundum manna, bæði í samvinnufélögum og einkafyrirtækjum, er ósæmilegt. Hvorki Sölumiðstöðin né Sambandið eru í þeirri merkingu sem hér er um fjallað einokunarfyrirtæki. Þetta eru fyrirtæki sem hafa barist fyrir Íslendinga við erfiðar aðstæður við að tryggja sölu afurða á mjög erfiðum erlendum mörkuðum. Að tala um frelsi frá hinum útvöldu, að það hafi verið útvaldir menn sem hafi staðið að sölumálum Íslendinga í gegnum árin, er fáránlegt og ósæmilegt. Það er ekki að vera útvalinn sérstaklega að þurfa að standa í því að selja íslenskar afurðir á erlendum mörkuðum, en það er e.t.v. að vera útvalinn að afhenda þetta í hendur erlendum mönnum til meðferðar í framtíðinni og minnka þar með hlutdeild Íslendinga í þeirri arðsemi sem fæst af sölu og markaðssetningu. Það er annað mál.

Ég ætla ekki að ræða þetta frekar. Það gefst vonandi tími til þess síðar. En ég minni hv. þm. Alþfl. á að meðal þeirra manna sem stóðu að þessum svokölluðu einokunarsamtökum á sínum tíma voru fyrrv. þm. þess flokks. Guðmundur Í. Guðmundsson samdi lög Sölumiðstöðvarinnar og tók þátt í stofnun fyrirtækisins og meðal annarra stuðningsmanna og baráttumanna fyrir þessu fyrirkomulagi voru fyrrv. ráðherrar Emil Jónsson og Gylfi Þ. Gíslason. Ég líki ekki saman störfum og mati þessara manna á fyrirkomulagi útflutningsmála og því sem núv. þm. Alþfl. leggja á borðið í þessum efnum fyrir íslensku þjóðina á hv. Alþingi.