26.11.1987
Sameinað þing: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1311 í B-deild Alþingistíðinda. (911)

118. mál, veiting útflutningsleyfa á frystum sjávarafurðum til Bandaríkjanna

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Þau orðaskipti sem hér hafa farið fram um veitingu útflutningsleyfa á frystum fiski til Bandaríkjanna hafa óneitanlega á sér býsna kynduga hlið. Hér hafa ýmsir þeir, og þá fyrst og fremst hv. fyrirspyrjandi, sem telja sig boðbera frjálsræðis og frelsis, nánast rétthafa þess hugtaks, hamast gegn frjálsræði og jafnræði þegnanna. Hvar hefðu þeir staðið í deilunum um afnám konungsverslunar hér á landi fyrir 200 árum eða þegar víðtækt verslunarfrelsi var innleitt hér fyrir rúmri öld? Ég spyr. Menn hljóta nú að vera í vafa um það. Það er eins og þessir menn séu ekki enn búnir að læra það sem Jón Sigurðsson forseti sagði fyrir meira en 140 árum, með leyfi hæstv. forseta, en hann sagði:

„Versluninni er eins háttað á Íslandi eins og annars staðar að því frjálsari sem hún er, því hagsælli verður hún landinu.“

Berum þetta saman við það sem hv, fyrirspyrjandi, 14. þm. Reykv., sagði hér áðan. Þetta er öll verslun, mínir kæru þm.

Við skulum nú segja sem svo að ég vitni þá í Þjóðviljann, með leyfi hæstv. forseta, frá 11. þ.m. þar sem hv. fyrirspyrjandi sagði að kratar mundu axla mikla ábyrgð ef þeir haldi svona áfram eða er það kannski stefna þeirra að rífa allt íslenskt þjóðfélag upp með rótum? Það er ekki spurt um lítið. En ég hygg að þm., sem barist hefur fyrir auknu frelsi á ýmsum sviðum, hafi steingleymt því hugtaki þegar hróflað var við hagsmunum þess fyrirtækis sem hann hefur lengi við starfað. Hann vill greinilega halda ríkisforsjánni og óttast að jafnaðarmenn vilji afnema hana. Afnám ríkisforsjár á jafnræði fyrirtækja virðist vera það sem þm. kallar að rífa allt íslenskt þjóðfélag upp með rótum. (GHG: Hvað hefur ríkið gert?) Fyrirgefðu, hv. 14. þm. Reykv., en ég hef nú orðið.

Alþfl. er ekki aðeins flokkur jafnréttis. Hann er líka flokkur frelsis og framfara og það er grundvallaratriði í hans stefnuskrá að allir séu jafnir gagnvart lögum og reglum. Af orðum fyrirspyrjanda má hins vegar álykta að hann telji ríkisforsjána forsendu þjóðfélagsins og þar nái frelsið aðeins til hinna útvöldu. Frelsishugtakið virðist einskorðast við einkasölufyrirtækin. Ég held reyndar að hv. 14. þm. Reykv. hafi dottið eitthvað út af línunni og ég sting upp á því að hann leiti til hins lærða heimspekings síns flokks, Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar.

Ég vil út af þeim ummælum sem hér komu fram frá hv. 4. þm. Norðurl. e. minna á að í umræðum um frv. um útflutningsleyfi hér á Alþingi 2. nóv. sl. tók ég til máls að áskorun hans og sagði reyndar í þeirri ræðu, eins og ræðupartur þingtíðindanna ber vitni, að það væri sérstök ástæða til þess að huga að auknu frjálsræði í útflutningsversluninni.

Umræða þessi er næsta fróðleg. Hún hefur fært okkur heim sanninn um að það fara ekki alltaf saman orð og gerðir. Það er t.d. næsta undarlegt að hlusta á hv. 14. þm. Reykv., sem á undanförnum árum hefur talið sig sérstakan málsvara frjálsra viðskipta, nú í því hlutverki að fordæma að reynt er að koma á eðlilegri samkeppni í útflutningsverslun. Hann hefur talið sér það helst til gildis að hafa barist fyrir frjálsum útvarpsrekstri í landinu, að lífeyrissjóðirnir eigi sjálfir og án nokkurra afskipta ríkisvaldsins að ráðstafa sínu fé og að frelsi og lýðræði væru sín pólitíska hugsjón. En þegar verið er að aflétta af útflutningsversluninni einokun og höftum á frelsið ekki lengur við, einungis af því að það snertir hagsmuni þess fyrirtækis sem hann hefur lengi við starfað og verið talsmaður fyrir. Þá fylgja verslunarstefnunni, verslunarfrelsinu hætturnar við hvert fótmál.

Sannleikurinn er sá að þeir einu sem eru raunverulega á móti frjálsum viðskiptum eru stórfyrirtæki sem í skjóli sinnar einkaaðstöðu og oft undir verndarvæng ríkisins búa við algera yfirburðaaðstöðu á markaði. Um þetta eru mörg dæmi, ekki bara hér á landi heldur um víða veröld.

Ég hef áður rifjað upp að í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar er sérstaklega kveðið á um að afskipti ríkisins af einstökum atvinnugreinum og fyrirtækjum verði sem minnst og með almennum aðgerðum verði skapaðar aðstæður fyrir tækniþróun, aukinn útflutning og fjölbreytni í atvinnulífinu. Ég fæ ekki séð annað en á stærsta neytendamarkaði heims í Bandaríkjunum séu allar aðstæður til þess að fullt frelsi geti ríkt í viðskiptum. En svo er ekki að heyra á ræðu hv. 14. þm. Reykv. Er þetta e.t.v. stefna Sjálfstfl. sem hann er að túlka? Ég veit ekki betur en hv. fyrirspyrjandi hafi samþykkt stjórnarsáttmálann, sem ég vitnaði til, og eigi því eins og aðrir stjórnarþm. að vera eindreginn stuðningsmaður þess sem ég hef nú framkvæmt.

Rödd hv. þm. í þessum umræðum hljómar ekki sannfærandi, ekki síst með tilliti til þess að það er að renna upp fyrir fleirum og fleirum að frelsi í viðskiptum bætir lífskjör þjóðarinnar og fjölbreyttur aðgangur Íslendinga að mörkuðum er undirstaða efnahagslegs sjálfstæðis okkar í framtíðinni. Ég vona að sú leyfisveiting sem framkvæmd var verði til að styrkja og auka samkeppni á milli íslenskra fyrirtækja og á þann hátt fáist sem hæst verð fyrir þessa þýðingarmiklu útflutningsvöru sem bæði hv. 14. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Norðurl. e. vitnuðu til að mikils væri um vert að fólkinu í landinu yrði sem allra mestur matur úr. Það er svo sannarlega tilgangurinn með þeim ákvörðunum sem ég hef tekið í málinu og ég vona að sú viðskiptaþekking, sem þessi fyrirtæki hafa yfir að ráða, verði þannig til þess að renna styrkari stoðum undir íslenskt efnahagslíf og að forustumenn verslunarmanna í landinu verði ekki til þess að hefta athafnafrelsi verslunar. Fyrir því máli mæla ekki nein almannarök. Við þurfum að halda vesturgluggunum opnum.