26.11.1987
Sameinað þing: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1314 í B-deild Alþingistíðinda. (913)

120. mál, löggæslumál

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Að gefnu tilefni vil ég þakka hæstv. forseta fyrir góða fundarstjórn á þessum fundi sem öllum öðrum fundum.

Í fsp. hv. þm. er spurst fyrir um tvennt. Í fyrsta lagi hvaða ráðstafanir séu fyrirhugaðar til að efla löggæslu í byggðarlögum sem heyra undir lögregluna í Hafnarfirði og í öðru lagi hvenær vænta megi að komið verði upp lögregluvarðstöð í Mosfellsbæ sem þjóni jafnframt Kjalarness- og Kjósarhreppum.

Hér er sannarlega hreyft þörfu máli. Á árinu 1985 voru uppi ráðagerðir af hálfu þáv. dómsmrh. að sameina löggæsluna a höfuðborgarsvæðinu undir stjórn lögreglustjórans í Reykjavík. Var þar byggt m.a. á skýrslu norskra ráðgjafa um lögreglumál sem fengnir voru til að fjalla um skipulag lögreglunnar í Reykjavík og tengsl hennar við löggæslu á öðrum stöðum. Í tillögum þeirra var fyrirhugað að löggæslan á Seltjarnarnesi, Mosfellssveit, Kjósar- og Kjalarneshreppum yrði felld undir lögreglustjórann í Reykjavík og sett yrði upp varðstofa, annars vegar í Mosfellssveit og hins vegar á Seltjarnarnesi. Það yrði svo haldið uppi löggæslu að deginum á varðstofum, en auk þess yrði haldið uppi löggæslu með eftirlitsbifreiðum allan sólarhringinn í þessum byggðarlögum.

Eins og mörgum alþm. er enn í minni var ætlunin árið 1985 að leggja fram frv. um sameiningu löggæslu á höfuðborgarsvæðinu, en af því varð ekki þá. Ráðuneytið hefur nú ákveðið að efla löggæslu í byggðarlögunum sem heyra undir lögregluna í Hafnarfirði á þann hátt að á Seltjarnarnesi verði löggæsla undir stjórn lögreglustjórans í Reykjavík frá því í byrjun næsta árs. Það er enn ekki búið ákveða nákvæmlega hvaða dag það verður. Þar verði tveir lögreglumenn áfram starfandi, en auk þess verði Seltjarnarnes eitt af þeim varðsvæðum þar sem haldið verði uppi skipulegu eftirliti með eftirlitsbílum.

Í Mosfellsbæ hefur frá 1. maí sl. verið aukin verulega löggæsla með dvöl tveggja lögreglumanna í bænum 10–18 klukkustundir á sólarhring. Í fjárlagafrv. 1988 er lagt til að heimilaðar verði tvær nýjar stöður lögreglumanna í lögregluliði Hafnarfjarðar, en þær eru ekki bundnar við tiltekinn stað. Ætlunin er að sett verði upp varðstofa en ekki lögreglustöð í Mosfellsbæ á næsta ári og þar verði starfandi 1–2 menn að deginum en þess utan verði þar eftirlitsbílar á ferli líkt og ætlunin er um Seltjarnarnes. En þetta ætti þá líka við um Kjósar- og Kjalarneshreppa á öllum tímum sólarhrings. Sú löggæsla yrði þá líka undir stjórn lögreglustjórans í Reykjavík og er ráðgert að þetta fyrirkomulag byrji næsta vor þegar hentugt húsnæði er tilbúið til notkunar, en núverandi aðstaða er ófullnægjandi.

Dómsmrn. hélt fund í þessari viku með sveitarstjórum Seltjarnarness- og Mosfellsbæja og voru þeim þar kynntar þessar fyrirhuguðu breytingar, en þar var tekið fram að heppilegast þætti að framkvæma þær í tveimur áföngum þar sem sá fyrri yrði nokkurs konar reynslutími í eitt ár en síðari áfanginn yrði þá væntanlega lagafrv. um sameiningu löggæslunnar á þessu svæði sem leggja þyrfti fyrir Alþingi að liðnum reynslutímanum.

Þegar lögreglan í Hafnarfirði hættir að sinna almennri löggæslu í Mosfellsbæ, Kjósarhreppi og Kjalarneshreppi og Seltjarnarnesi mun hún auðvitað hafa betri möguleika til að sinna vel þeim byggðarlögum sem þá verða í hennar umdæmi, þ.e. Hafnarfirði, Garðabæ og Bessastaðahreppi, og reyndar var á sl. vetri tekin í notkun ný lögreglustöð í Hafnarfirði sem er sérstaklega vel staðsett til að sinna útköllum í alla þessa hreppa, en hitt málið er þá ætlunin að reyna að leysa með því að sameina löggæsluna þar lögreglunni í Reykjavík.