26.11.1987
Sameinað þing: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1316 í B-deild Alþingistíðinda. (914)

120. mál, löggæslumál

Fyrirspyrjandi (Salome Þorkelsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja þennan fund, en ég vil aðeins þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þær upplýsingar sem hann gaf hér og fyrir það hve skjótt hann hefur nú brugðist við þegar þessu máli hefur verið hreyft hér og hefur rætt við bæjarstjórana, sem hann tilgreindi hér, bæði í Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi. Ég fagna því ef það er stutt í að við sjáum fram á þær úrbætur sem byggðarlögin gera kröfu til. Þá hef ég ekki síst í huga Mosfellsbæ og þörfina fyrir sérstaka lögregluvarðstofu þar eins og hann nefndi það. En það er rétt, eins og ég sjálf nefndi í mínu máli, að löggæslan hefur verið aukin frá því á sl. sumri. Það hefur verið gert með því að bílarnir sjást meira upp frá en áður. Ég skal ekki segja hvort þeir eru 10–18 klukkutíma stöðugt í bænum, a.m.k. sjáum við þá ekki svo stöðugt þar upp frá, en það skiptir ekki máli. Meginmálið er að íbúarnir viti af því að það er löggæsla til staðar í byggðarlaginu til að tryggja öryggi þeirra.