30.11.1987
Sameinað þing: 24. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1336 í B-deild Alþingistíðinda. (932)

103. mál, samgöngur á Austurlandi

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég tek undir þá till. sem hér er til umræðu og bendi á að hér kemur nú hver tillagan á fætur annarri sem fjallar um það mikilsverða mál, þ.e. vegasamgöngur í þessu eða hinu kjördæminu. Þær eru komnar tvær frá Austurlandi. Það bendir einmitt á hvar skórinn kreppir frekast í byggðamálum.

Það sem kom mér til að koma upp í sambandi við þessa umræðu var þó ekki fyrst og fremst að taka undir þessa till. heldur að benda á að það var hverju orði sannara, sem hv. 2. þm. Austurl. sagði, að það hafa í síauknum mæli verið minnkaðar framkvæmdir í vegamálum. Mér datt í hug að flytja þingheimi þær upplýsingar frá hæstv. samgrh. sem hann upplýsti á sveitarstjórnarfundi í Stykkishólmi nú um helgina. Þær upplýsingar voru að á síðustu árum, á síðasta tímabili vegáætlunar hefði skerðing á beinu vegafé, miðað við áætlað framlag til vegamála skv. langtímavegáætlun, verið 1,6 milljarðar. Það væri rúmlega það sem ætlað er til framkvæmda á árinu í ár. Það er ekki nema eðlilegt að stjórnarsinnar vilji þá koma upp í ræðustól hæstv. Alþingis og lýsa því yfir að hér hafi allt gengið að óskum þegar ekki er staðið betur við áætlanir í vegamálum en þetta.

Hæstv. samgrh. kom ekki eingöngu vestur til að segja okkur frá því að allt væri á hinn verri veg þó hann væri ekkert að draga það undan, sbr. þessar upplýsingar hans. Hann sagði einnig að það hefði komið í ljós, og reyndar mun það hafa verið hv. 1. þm. Vesturl. sem upplýsti það, að það mundi vera til í sjóðum fé af sértekjum Vegagerðarinnar fyrir árið í ár á milli 150 og 200 milljónir sem væri óráðstafað. Þarna er sem sagt pínulítill ljós punktur í sambandi við þá umræðu að hlutirnir hafi allir farið á hinn verri veg. Við eigum í sjóði á milli 150 og 200 milljónir af sértekjum til vegagerðar frá árinu í ár til ráðstöfunar í vegagerðarframkvæmdir.