30.11.1987
Sameinað þing: 24. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1340 í B-deild Alþingistíðinda. (936)

139. mál, könnun á mikilvægi íþrótta

Flm. (Finnur Ingólfsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um könnun á mikilvægi íþrótta og efnahagslegum áhrifum þeirra sem er að finna á þskj. 147 og er 139. mál þingsins. Flm. með mér að till. þessari eru Páll Pétursson, Valgerður Sverrisdóttir, Stefán Guðmundsson og Guðni Ágústsson.

Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta Rannsóknarþjónustu Háskóla Íslands kanna efnahagsleg áhrif og mikilvægi íþrótta fyrir þjóðlífið. Með könnuninni skal stefnt að því að fá heildaryfirlit yfir íþróttastarfsemina og hvaða efnahagslegu, félagslegu og menningarlegu hlutverki hún gegnir með beinum og óbeinum hætti fyrir þjóðlífið. Allur kostnaður við könnunina greiðist úr ríkissjóði og skal henni lokið fyrir árslok 1990.“

Hæstv. forseti. Tilgangurinn með þáltill. þessari er sá að á grundvelli þeirrar niðurstöðu sem út úr þessari könnun mun koma verði hægt að móta í landinu heilsteypta íþróttastefnu. Íþróttahreyfingin geti notað könnunina til að móta sína stefnu, hagað störfum sínum eftir því sem út úr könnuninni kemur, geti metið hvaða áherslu hún á að leggja á einstaka þætti í sínu starfi, hvernig hún eigi að fara að því að laða unglinga til þátttöku í íþróttum, hvernig hún geti haldið unglingunum við íþróttaþátttöku fram yfir ákveðin aldursskeið og hvernig íþróttastarfsemin geti skilað sem mestu fyrir framtíðina, bæði fyrir íþróttahreyfinguna í heild og þjóðfélagið. Fyrir opinbera aðila á þessi könnun að geta orðið til þess að þeir geti metið hvaða aðstöðu þeir vilji skapa íþróttahreyfingunni og íþróttafólkinu í landinu og hvaða fjárstuðning þeir telji rétt að veita íþróttastarfseminni og um leið til hvers megi ætlast af íþróttahreyfingunni varðandi uppeldi barna og unglinga og í baráttunni fyrir fyrirbyggjandi heilsugæslu.

Í fjárlagafrv. því sem nú liggur fyrir Alþingi er um gríðarlegan niðurskurð að ræða á fjárveitingum til íþróttahreyfingarinnar í landinu. Sá niðurskurður er rökstuddur með því að íþróttahreyfingin hafi fengið svokallaðan lottógróða. Framsfl. hefur mótmælt þessum niðurskurði. Það hefur hæstv. utanrrh., formaður Framsfl., gert því þessi niðurskurður er til kominn vegna vanþekkingar á íþróttahreyfingunni og vanmati á störfum íþróttahreyfingarinnar. Það er staðreynd að íþróttastarf meðal barna og unglinga stuðlar að andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði sem er mikilvægur bandamaður heilbrigðisþjónustunnar í baráttunni gegn langvinnum sjúkdómum, svo sem hjarta- og æðasjúkdómum, krabbameini, sykursýki, tannskemmdum, geðsjúkdómum, beina- og vöðvasjúkdómum og slysum.

Erlendar rannsóknir sýna að unglingar sem stunda íþróttir neyta mun síður ávana- og fíkniefna en þeir sem engar íþróttir stunda. Í Iowa-fylki í Bandaríkjunum var gerð könnun á þessu árið 1977. Sú könnun sýnir sterka neikvæða fylgni milli reykinga og áfengisneyslu annars vegar og þátttöku í íþróttum hins vegar. M.ö.o.: það gætir sterkrar hneigðar í þá átt að því meiri sem þátttaka unglinga er í íþróttum, því minna reykja þeir og því minna drekka þeir.

Því miður hafa litlar rannsóknir farið fram á þessu hér á landi. Ég vil, með leyfi forseta, vitna í grein úr Samfélagstíðindum, blaði þjóðfélagsfræðinema við Háskóla Íslands, sem er rituð af Þórólfi Þórlindssyni. Þar greinir hann frá könnunum sem gerðar voru á árunum 1978–1983 og lutu að íþróttafélagslegu gildi íþrótta unglinga. Í könnuninni frá 1981 og 1983 kemur fram að því meiri sem íþróttaiðkun unglinga er, því minna reykja þeir og því minna drekka þeir.

Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að áhrifamáttur íþróttastarfsins í baráttunni gegn fíkniefnanotkun er breytilegur eftir því hvernig íþróttastarfið er skipulagt. Þjálfarar og leiðbeinendur barna og unglinga eru í lykilstöðu til að hafa áhrif á framgang mála. Leggi þeir mikla áherslu á skaðsemi ávana- og fíkniefna í daglegu starfi sínu við þjálfun íþrótta verður allt íþróttastarfið áhrifameira í baráttunni gegn þessum vágesti. Samanburður á íslensku og bandarísku könnununum segir okkur að það séu mjög sterk tengsl bæði hér og erlendis á milli þess að eftir því sem unglingar stunda íþróttir meira, því minna munu þeir reykja og því minna munu þeir drekka. Þannig, með leyfi forseta, kemst Þórólfur Þórlindsson að orði í fyrrnefndri grein:

„Þessi munur var einkum mikill hvað varðar áfengisneysluna. Er það hugsanlegt að íslenskir þjálfarar og leiðbeinendur leggi ekki jafnmikla áherslu á skaðsemi áfengis og tóbaks fyrir frammistöðu unglinga og bandarískir starfsbræður þeirra? Þegar á það er litið að íslenskar kannanir sýna að íþróttir eru langfyrirferðarmesti þátturinn í tómstundastarfi unglinga á aldrinum 12–15 ára blasir það við að fáir hafa betri aðstöðu en þjálfarar og leiðbeinendur til að hafa heillavænleg áhrif á unglinga í þessum efnum.“

Í könnun sem hér var gerð 1983 kemur einnig fram að það er mjög sterkt samband milli þátttöku unglinga í íþróttum og námsárangurs. Því hefur verið haldið fram að þátttaka skólabarna og unglinga í íþróttum geti orðið til þess að námsárangur þeirra verði slakur, svo mikill tími fari frá náminu í íþróttastarfið að námsárangur verði slakur. Það kemur greinilega í ljós í þessari könnun að svo er ekki heldur er sterk fylgni þarna á milli.

Með þessar vísbendingar, sem ég hef hér lagt áherslu á, er það enn óskiljanlegra af hverju slíkur niðurskurður kemur fram í því fjárlagafrv. sem nú liggur fyrir Alþingi. Ég ítreka það, sem ég sagði áðan, að ég tel hann stafa af því að það er vanmat og vanþekking á því starfi sem íþróttahreyfingin og æskulýðshreyfingin í landinu vinnur. Ég tel óhjákvæmilegt að leiðrétta þann niðurskurð sem fram kemur í fjárlagafrv.

Það er lagt til í þessari till. að Rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands verði falið að framkvæma þessa könnun. Ástæðan fyrir því er sú að í Háskóla Íslands er til mikil þekking og reynsla við framkvæmd kannana sem þessarar og ekki kannski síður að þar er um óháða aðila að ræða sem munu örugglega setja traust sitt á niðurstöður þessarar könnunar.

Ég vil víkja hérna að nokkrum þeim þáttum sem ég tel rétt að þessi könnun taki til og um er getið í grg.

Í fyrsta lagi hver sé hlutur íþróttastarfseminnar í efnahagslífinu, hve mikið fjármagn ríkisvaldið, sveitarstjórnir, fyrirtæki og neytendur leggi íþróttahreyfingunni til og hvaða tekjur þessir sömu aðilar hafa af íþróttastarfseminni. Með þessari rannsókn er leitast við að finna út hverjir tekjustraumarnir eru, hversu mikið ríkið lætur af hendi rakna eða opinberir aðilar til íþróttahreyfingarinnar og hversu miklar tekjur ríkisvaldið hefur af íþróttastarfseminni.

Í öðru lagi hver hin óbeinu áhrif eru sem íþróttastarfsemin hefur á efnahagslífið og hvaða tilfærsla fjármuna eigi sér stað með óbeinum hætti innan efnahagskerfisins. Sérstaklega þurfi að meta hina miklu sjálfboðavinnu sem fram fer innan íþróttahreyfingarinnar og hina fjölbreyttu þjónustustarfsemi sem tengist íþróttunum. Auðvitað verður mjög erfitt að meta þessa sjálfboðavinnu. Staðreyndin er sú að það eru hátt á annað hundrað þúsund iðkendur og þátttakendur í íþróttastarfinu í landinu, það sýna skýrslur Ungmennafélags Íslands og Íþróttasambands Íslands, og langstærstur hluti af því starfi sem þarna fer fram er sjálfboðavinna.

Íþróttastarfsemin hefur ýmiss konar áhrif út í þjóðfélagið. Hún skapar grundvöll fyrir ýmiss konar þjónustustarfsemi, eins og t.d. í iðnaði, í fataiðnaði, í veitingarekstri og ferðamannaþjónustu svo fátt eitt sé tínt til.

Í þriðja lagi með hvaða hætti auka megi beinar og óbeinar skatttekjur opinberra aðila, t.d. með því að gera íslenska íþróttastarfsemi áhugaverða fyrir erlenda ferðamenn, og með því að gera sérþekkingu íslenskra íþróttamanna eftirsóknarverða erlendis. Hér kemur að ýmiss konar uppbyggingu sem opinberir aðilar ættu að beita sér fyrir. Má þar nefna skíðasvæðið í Kerlingarfjöllum, heitu pottana, sem eru sérfyrirbrigði á Íslandi og geta laðað að erlenda ferðamenn, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Í fjórða lagi hver hin jákvæðu og neikvæðu áhrif eru sem íþróttirnar hafa á líf og heilsu einstaklinganna og hvort ekki megi draga úr útgjöldum til heilbrigðismála vegna þeirra jákvæðu áhrifa sem líkamsrækt og íþróttir hafa til langframa á heilsu manna og endurhæfingu sjúkra og fatlaðra. Hæstv. heilbrmrh. Guðmundur Bjarnason hefur lýst því yfir, og það gerði hann um síðustu helgi á ráðstefnu Ungmennafélags Íslands sem haldin var í tilefni af 80 ára afmæli þess félags, að hann ætlaði að skipa samstarfsnefnd heilbrmrn. og íþróttahreyfingarinnar í landinu til þess einmitt að leita leiða hvernig hægt sé að nýta þá miklu starfskrafta sem fyrir eru í íþróttahreyfingunni til að draga úr kostnaði við heilbrigðisþjónustuna.

Í fimmta lagi hver eru áhrif af þátttöku unglinga í íþróttum og hugsanleg áhrif hennar á skólastarf og námsárangur og hvert sé samband íþróttaiðkana unglinga og notkunar þeirra á áfengi, tóbaki og öðrum vímuefnum. Rannsóknum sem gerðar hafa verið hef ég hér lýst áður, en þær eru mjög ófullkomnar og takmarkaðar og þarf mun víðtækari rannsóknir.

Í sjötta lagi hvert sé uppeldislegt gildi íþróttanna og hver sé ástæðan fyrir því að stór hluti unglinga hættir íþróttaiðkun á aldrinum 14–18 ára. Þetta atriði eitt og sér væri rannsóknarefni af þeirri ástæðu að það sýnir sig að unglingar á aldrinum 14–18 ára, sem hafa kannski frá fimm eða sjö ára aldri alltaf stundað íþróttir, hætta íþróttaiðkun á þessum aldri. Það er alls ekki vitað hvaða ástæður liggja þarna að baki. Slík könnun ætti að geta leitt það í ljós þannig að íþróttafélögin gætu þá brugðist við með viðeigandi hætti.

Í sjöunda lagi hvaða ástæður liggja að baki mismikilli þátttöku karla og kvenna í íþróttum eins og vísbendingar eru um og með hvaða hætti hægt sé að koma þar jafnvægi á. Í þeim könnunum sem gerðar voru hér 1981–1983 kom í ljós að þátttaka kvenna í íþróttum var mun minni en karla, en hins vegar fékkst ekki svar við því hvaða ástæður lægju þar að baki.

Hæstv. forseti. Gildi íþrótta í nútímasamfélagi er mjög margþætt. Þær veita stórum hópum fólks hina mestu ánægju, bæði þeim sem iðka þær sem tómstundagaman og eins þeim sem njóta þeirra sem skemmtiefnis í fjölmiðlum eða á vettvangi. Á síðustu árum hefur athygli manna mjög beinst að gildi íþróttaiðkunar fyrir andlegt og líkamlegt heilbrigði og benda rannsóknir til þess að líkamsrækt og íþróttir séu veigamikill þáttur í nútímaheilsugæslu. Þá benda rannsóknir til þess að íþróttir hafi einnig uppeldislegt gildi.

Eins og sjá má á þessari upptalningu er gildi íþrótta í nútímasamfélagi mikið. Það verður ekki betur séð af því sem að framan er sagt en að þeim fjármunum sem varið er til íþróttastarfsins sé vel varið. Þeir skila sér að öllum líkindum margfalt til baka í bættri andlegri og líkamlegri heilsu.

Þeir sem ætla að standa að niðurskurði á fjárveitingu til íþróttahreyfingarinnar í þeim fjárlögum sem nú liggja fyrir Alþingi eru ekki menn sem eru í tengslum við nútímasamfélag heldur mótast þeirra afstaða af fordómum og þröngum efnahagslegum skammtímasjónarmiðum.

Hæstv. forseti. Að aflokinni þessari umræðu legg ég til að till. verði vísað til hv. félmn. Sþ.