30.11.1987
Sameinað þing: 24. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1345 í B-deild Alþingistíðinda. (938)

139. mál, könnun á mikilvægi íþrótta

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hv. 1. flm. þessa máls, Finnur Ingólfsson, gat þess undir lok ræðu sinnar að það væri til mikils vansa hvernig staðið væri að fjárveitingum til íþróttamála og ekki skal úr því dregið. Það er vissulega gott þegar hv. stjórnarandstæðingar koma upp í ræðustól og brýna raustina með þeim hætti sem hv. flm. gerði. Það væri ástæða til þess að hann gerði það sem oftast á meðan hann á þess kost í þingflokki Framsfl. að minna þá hv. þm. sem eru meðflutningsmenn hans að þessu máli um könnun á mikilvægi íþrótta og efnahagslegum áhrifum þeirra að þeir litu aðeins í eigin barm og litu til þess hvernig þeir sem valdaaðilar í þessu samfélagi standa að fjárveitingum til íþróttamála.

Ég vil sannarlega ekki misvirða það þegar hv. þm., hvort sem það eru aðalmenn sem eru að jafnaði á Alþingi eða varaþm., koma með till. og benda á athugun á þörfum málum. Slíkt er eflaust gert af góðum hug. En þeir hinir sömu verða, finnst mér, að átta sig á því inn í hvaða samhengi þeir eru að tala, málsvarar hvers konar stjórnvalds, hvers konar ríkisstjórnar þeir eru, eins og í þessu tilviki ríkisstjórnar sem gengið hefur fram með niðurskurði til íþróttamála með þeim hætti sem við blasir og með þeim hætti að skera niður Íþróttasjóð og þau framlög sem lögð hafa verið til í gegnum hann til örvunar á framkvæmdum við íþróttamál í landinu. Það þarf sannarlega dálitla kokhreysti til að koma hér upp með till. af þessu tagi, eins og hv. þm. Finnur Ingólfsson, og mæla með sérstakri athugun á gildi íþrótta og efnahagslegum áhrifum þeirra þegar hann horfir á það hvernig flokksbræður hans ásamt öðrum aðilum að ríkisstjórn standa í ístaðinu í þessum málum.

Ætli við þurfum mjög miklar athuganir til að átta okkur á því að það eru ekki síst framlög til þessara mála, það eru fjárveitingarnar úr sameiginlegum sjóði til endurbóta og uppbyggingar á aðstöðu til þessara mála sem skipta mestu. Það er ágætt að menn brýni raustina í sölum Alþingis um þessi efni, en ég teldi enn þá þýðingarmeira að hv. þm. talaði hátt og snjallt niðri í þingflokksherbergi Framsfl. um þessi efni og brýndi sína menn þar á því að standa í ístaðinu gagnvart þeim aðilum sem halda um fjárveitingarvaldið í landinu. Þar er auðvitað Framsfl. hluti af heild þriggja flokka sem á þessum málum halda. Það verður ekki hjá því komist að benda á þetta samhengi hér þegar við ræðum um mál sem þessi sem eflaust eru flutt af góðum hug.

Hv. þm. gat um ráðstefnu sem haldin var af hálfu Ungmennafélags Íslands um síðustu helgi þar sem haldið var upp á og minnst 80 ára afmælis þess félagsskapar. Þar voru ýmis ágæt erindi haldin til að vekja athygli á gildi íþrótta og gildi þeirrar starfsemi sem Ungmennafélag Íslands hefur staðið fyrir um langt skeið. Það vafðist ekki fyrir þeim sem sátu þá ráðstefnu hversu illa við stöndum að málum í flestum greinum hvað varðar hlut hins opinbera til íþróttamála. Á þessari ráðstefnu var gestur frá dönsku ungmennahreyfingunni, Bjarne Ibsen, maður sem hefur gert sérstaka úttekt á framlögum til íþróttamála þar í landi, stöðu þeirra og gildi þeirra fjárveitinga sem þar er um að ræða. Hann vakti m.a. athygli á því hversu þýðingarmikið væri að frjáls félagasamtök héldu uppi merki, eins og gert er þar í landi, með sjálfboðaliðastarfi, en hann gat þess einnig hversu mikið er lagt af mörkum af hálfu danskra yfirvalda og raunar á öðrum Norðurlöndum en Íslandi til þessa málaflokks. Og það var ekki með sérstöku stolti sem hægt var að sitja sem Íslendingur undir þeirri tölu og þeim samanburði sem þar var fram reiddur. Ég verð að segja að ég hefði talið að hv. flm. og meðflm. hans hefðu þurft að tala með skýrari hætti við undirbúning fjárlagagerðar og í sambandi við meðferð þeirra mála hér á Alþingi þegar um þessi mál er rætt, svo góð sem könnun á mikilvægi íþrótta og efnahagslegum áhrifum þeirra sannarlega er og athugunarefni sem ber vissulega að fara ofan í saumana á.

Einn af þeim ræðumönnum sem talaði á ráðstefnunni í Norræna húsinu um síðustu helgi var Þórólfur Þórlindsson prófessor. Hann lagði á það sérstaka áherslu í sínu máli að það væri aðstaðan til íþróttaiðkana fyrir fjöldann sem skipti mestu máli um þátttökuna, að hafa möguleika til þess að taka þátt í íþróttastarfsemi hverju nafni sem nefnist án þess að vera reyrður inn í allt of fast skipulag. Það hentar í íþróttafélögum og fyrir fólk á ákveðnu aldursskeiði, en þess utan skiptir það áreiðanlega hvað mestu máli að fólk geti, þegar því hentar tímans vegna, gengið inn í sómasamlega aðstöðu til íþróttaiðkana, hvort sem það eru íþróttir iðkaðar úti eða inni. Á þetta ber að leggja áherslu og þarna er vöntunin mikil og brýn og að þessu ættu framsóknarmenn og aðrir, sem áhrif hafa á stjórn landsins, að beina sjónum sínum öðru fremur og þar gæti Finnur Ingólfsson áreiðanlega byrst raustina og talað mali svo að gagni gæti orðið ef hann vill það við hafa og ég efast ekkert um góðan hug hans til þessara mála.

Ég tek út af fyrir sig alveg undir þá till. sem hér er flutt um þörf á athugun þessara mála, en sumir þættir og það sem snýr að fjárveitingum til þessara mála þurfa ekki langrar eða mikillar athugunar við. Þar gætum við tekið til höndum núna fyrir jólin, á þeim mánuði sem eftir er og tæplega það af starfstíma Alþingis.