30.11.1987
Sameinað þing: 24. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1352 í B-deild Alþingistíðinda. (946)

139. mál, könnun á mikilvægi íþrótta

Flm. (Finnur Ingólfsson):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem hér hafa tekið til máls. Ég hef sannfærst um það eftir að hafa hlustað á umræðurnar að könnun sem þessi er nauðsynlegri en ég hélt áður en ég fór að mæla fyrir þessari þáltill. þar sem mér finnst að það þurfi að breyta viðhorfum margra þm. sem hér hafa talað, a.m.k. tveggja, hv. 2. þm. Austurl. og hv. 9. þm. Reykn. Þeir hafa gengið út frá því sem vísu í þessari umræðu að þær fjárveitingar sem íþróttahreyfingin í landinu hefur haft á undangengnum árum hafi verið nógar. Hv. 9. þm. Reykn. fullyrti að þjóðin hefði aldrei lagt meira til íþrótta en einmitt núna. Ég hugsa að það sé alveg rétt að þjóðin hafi aldrei lagt meira til íþrótta en núna. En menn verða líka að gera sér grein fyrir því að það eru skyldur sem opinberum aðilum eins og ríki og sveitarfélögum eru lagðar á herðar í þeim efnum. Stórkostlegum niðurskurði til íþróttastarfsemi hefur verið mótmælt af þm. Framsfl. Það gerði hæstv. utanrrh.

Mér fannst ósmekkleg þau orð sem hv. 9. þm. Reykn. viðhafði um hæstv. utanrrh. Hv. 9. þm. Reykn. til fróðleiks þá er það nú svo að utanrrh. hefur gert athugasemdir inn í ríkisstjórn við niðurskurð á fjárveitingum til íþróttahreyfingarinnar og á morgun munu þessi mál aftur verða til umfjöllunar í ríkisstjórn þannig að þetta er alls ekki frágengið.

Og hv. 2. þm. Austurl. til fróðleiks — þá er það dálítið merkilegt að varaþm. sem hér stendur skuli þurfa að skýra það fyrir hv. 2. þm. Austurl., sem búinn er að vera á þingi í mörg ár, að það er talsverður munur á fjárlagafrv. og fjárlögum. Þarna er talsverður munur á og staðreyndin er sú að í gegnum árin hefur þetta verið þannig, og líka í tíð þeirra ríkisstjórna þar sem Hjörleifur Guttormsson hefur setið, að fjárveitingar til íþróttahreyfinganna, bæði Íþróttasambands Íslands og Ungmennafélags Íslands, hafa verið skornar niður milli ára í fjárlagafrv. sem slíku, en það hefur verið fjvn. Alþingis sem síðan hefur hækkað fjárveitingar til þessarar starfsemi. Ég trúi því og treysti að svo muni einnig verða í ár. Og því getur hv. 2. þm. Austurl. treyst að ég er talsmaður þessara hluta í þingflokki framsóknarmanna. En ég vil leggja áherslu á það að þetta fjárlagafrv. er ekki frágengið og það er mikill munur á því sem kemur fram í fjárlagafrv. eða fjárlögum eins og þau munu síðan endanlega verða samþykkt.

Að lokum vil ég þakka aftur einstökum þm. fyrir þátttöku í þessari umræðu.