30.11.1987
Sameinað þing: 24. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1368 í B-deild Alþingistíðinda. (959)

153. mál, lagning vegar með suðurströnd Reykjanesskaga

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með framlagningu þessarar þáltill. Ég hafði raunar skoðað þetta vegarstæði í sumar. Einum þremur, fjórum sinnum hef ég farið þessa leið í sumar og var að skoða einmitt þetta vegarstæði sem er á mjög skemmtilegu landsvæði, bæði hvað varðar útivist og einnig með tilliti til ferðamanna. Það er ekki aðeins það að hér tengist saman tvö atvinnusvæði, Suðurland og Suðurnes. Það mundi væntanlega ekki aðeins opna ýmsa möguleika á atvinnulífi, heldur er um mjög arðbæra framkvæmd að mínu mati að ræða og jafnframt öryggisatriði eins og hér var nefnt.

Þessi leið liggur að hluta til í hrauni sem er væntanlega ekki mjög erfitt að ýta upp til að gera gott vegarstæði. Góður vetrarvegur þarna opnar líka möguleika á útivist að vetri til. Ef við lítum á kortið er ekki mjög löng leið á Bláfjallasvæðið og upp á Heiðina há þangað sem skíðagöngumenn sækja mikið á veturna. Ég hef sjálfur rennt mér á skíðum alveg niður að Selvogi nokkrum sinnum. Ég held að vetrarvegur þarna mundi opna meiri og fjölbreyttari möguleika til útivistar en áður hefur verið.

Þetta svæði er líka sem sumarsvæði afskaplega áhugavert fyrir náttúruunnendur þó að víða sé óhægt að komast þarna um hraunið. Vegarstæði sem mundi taka mið af þessum sjónarmiðum væri vafalaust til mikilla bóta fyrir þá sem hafa áhuga á útiveru og jafnframt mundi það auka öryggi og samgöngurnar á milli.

Ég er því mjög ánægður með að þetta skuli koma hér fram og lýsi stuðningi mínum við það og vona að þetta mál muni hafa góðan framgang þegar það kemur til umræðu aftur og verði væntanlega tekið inn í vegáætlun í framtíðinni. Ég held að þetta sé einmitt mjög góð lausn á hluta umferðarvandans og muni styrkja atvinnulífið, eins og ég sagði áðan, bæði á Suðurnesjunum og á Suðurlandi. Með tengingu við hina nýju brú yfir Ölfusá muni þetta breyta þessu svæði í atvinnulegu tilliti. Ég vona því að framkvæmd á þessu hefjist mjög fljótlega.