30.11.1987
Sameinað þing: 24. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1369 í B-deild Alþingistíðinda. (960)

153. mál, lagning vegar með suðurströnd Reykjanesskaga

Flm. (Níels Árni Lund):

Herra forseti. Mér er ljúft og skylt að þakka þær undirtektir sem þessi þáltill. hefur fengið á hv. Alþingi. Að vísu sakna ég þess að það skuli ekki hafa fleiri þm. af Suðurlandi talað í þessari umræðu, en það kemur að því vonandi að svo geti orðið. Að sjálfsögðu þakka ég mínum meðflm. sem hér talaði og flutti gott mál og sýndi fram á mörg rök til viðbótar því sem kom fram í mínum málflutningi, varðandi gagnsemi og jafnvel nauðsyn þessa vegar. Þm. Reykjaness hafa hér staðið upp hver á fætur öðrum og lýst yfir stuðningi við þessa tillögu og fyrir það er ég mjög þakklátur.

Ég vænti svo að þessi till. nái fram að ganga á hv. Alþingi í vetur og vona þar með að hún fái skjóta úrlausn í nefnd.