02.12.1987
Efri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1370 í B-deild Alþingistíðinda. (964)

136. mál, Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Frv. það sem hér er til umræðu er um breyt. á I. nr. 95/1980, um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda. Það er lagt fyrir hv. Alþingi vegna þess að í tengslum við kjarasamninga er tókust með félögum ASÍ og vinnuveitenda 26. febr. 1986 var samið um tvö atriði er snertu starfsemi lífeyrissjóða.

Í fyrsta lagi skyldu lífeyrissjóðirnir lána verulegan hluta ráðstöfunarfjár til Húsnæðisstofnunar ríkisins. Í öðru lagi skyldi greiða iðgjald til lífeyrissjóða af öllum launatekjum starfsmanna í stað dagvinnulauna. Breyting þessi á að gerast í áföngum á árunum 1987–1989. Í samræmi við nefnd samningsákvæði breyttu flestir lífeyrissjóðir landsins reglugerðum sínum á síðasta ári og hefur fjmrn. staðfest þær breytingar.

Lög um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda, nr. 95/1980, eru sniðin eftir reglugerðum lífeyrissjóða innan Sambands almennra lífeyrissjóða, SAL. Stjórn söfnunarsjóðsins, sem m.a. er skipuð skv. tilnefningu Sambands almennra lífeyrissjóða, Landssambands lífeyrissjóða og stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, er einhuga um það að eðlilegt sé að lögum verði breytt til samræmis við þær reglur sem nú gilda um iðgjöld til sjóða innan Sambands almennra lífeyrissjóða og landssambandsins. Réttur félaga í söfnunarsjóðnum til lífeyris er tryggður með sama hætti og almennt tíðkast hjá lífeyrissjóðum að frátöldum sjóðum opinberra starfsmanna. Telja verður eðlilegt að breyting sú sem frv. felur í sér nái fram að ganga. Ég skora því á hv. þm. að veita frv. þessu brautargengi og legg til að því verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.