02.12.1987
Efri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1374 í B-deild Alþingistíðinda. (969)

137. mál, launaskattur

Álfheiður Ingadóttir:

Herra forseti. Hér er komið fyrsta frv. af langri runu sem hæstv. fjmrh. fór með fyrst við framlagningu fjárlagafrv. fyrir tæpum mánuði og svo aftur hér í síðustu viku þegar matarskatturinn kom til umræðu af öðru tilefni. Það er athyglisvert að breytingar á launaskatti voru þær síðustu í upptalningu hæstv. fjmrh. í fjárlagaræðunni, enda trúlega þær veigaminnstu peningalega séð. Stóru málin, matarskatturinn, tollarnir, lækkun söluskatts, breytingar á vörugjaldi og virðisaukaskatturinn, allt er þetta óséð enn og reyndar allt á huldu.

Í fjárlagaræðunni sagði hæstv. ráðherra að ríkisstjórnin ætlaði að grípa til samræmdra aðgerða til þess að eyða þeirri óvissu sem nú ríkti í efnahagsmálum. Síðan er liðinn mánuður, en óvissan hefur aldrei verið meiri í ríkisfjármálunum en einmitt nú og kannski ekki síst vegna síðbúins upphlaups krata varðandi stjórnun fiskveiða og ágreining stjórnarflokkanna um einstök atriði fjárlagafrv. Það er greinilegt að áætlun ríkisstjórnarinnar um hallalaus fjárlög mun ekki standast og forsendur fyrir framvindu efnahagsmála á næsta ári eru enn á huldu. Á meðan eru einstaka ráðherrar með yfirlýsingar eða eigum við að kalla það auglýsingar um að það þurfi að koma 300 millj. í þennan málaflokkinn og 300 millj. í hinn málaflokkinn. Tíminn er hins vegar að renna út. Það eru aðeins eftir tvær heilar vikur af starfstíma þingsins. Og í þessari stöðu kemur svo hæstv. fjmrh. og mælir fyrir frv. um hækkun launaskatts sem er í rauninni brotabrot af því sem hann hefur boðað.

Það er í sjálfu sér þakkarvert að eitthvað kemur frá hæstv. ríkisstjórn og ráðherra, en þetta frv. skiptir ekki sköpum hvað ríkisfjármálin varðar né eyðir það þeirri óvissu sem er uppi um framvindu þeirra mála heilum mánuði eftir framlagningu fjárlagafrv. og þremur vikum fyrir jólaleyfi þm.

Ég sagði hækkun launaskatts, en hæstv. ráðherra talar hins vegar um samræmingu á launaskatti.

Hann hefur uppi sömu rök og eru notuð af hálfu ríkisstjórnarinnar, m.a. fyrir matarskattinum og fyrir virðisaukaskattinum. Hér er um að ræða samræmingu samræmingarinnar vegna. Kjörorðið virðist vera: Vond samræming er betri en engin. Þess vegna, vegna samræmingarinnar, ætlar ríkisstjórnin að leggja 10% söluskatt á öll matvæli um næstu áramót, nauðþurftir jafnt og lúxus. Þess vegna ætlar ríkisstjórnin nú að leggja 1% launaskatt á fiskveiðar og á iðnað. Þess vegna ætlar ríkisstjórnin nú að leggja 1% launaskatt á fiskirækt og fiskeldi þó hæstv. ráðherrar tali hátt á tyllidögum um dásemd þessa nýja vaxtarsprota í atvinnulífi landsmanna.

Í ræðu sinni áðan ítrekaði ráðherra að þetta væri fyrsta skrefið í átt til samræmingar á launaskatti. Ég tel þetta furðulega ráðstöfun í meira lagi og reyndar tel ég að fjmrh. sé í þessum efnum að vinna eftir mjög svo úreltum hugmyndum. Það er nefnilega ekkert sjálfgefið réttlæti í því að leggja einn og sama neysluskattinn á allar vörur, nauðþurftir jafnt og lúxusvörur, og það er heldur ekkert sjálfgefið réttlæti í því að leggja sama skatt á vinnu við allar atvinnugreinar. Mannlífið er nú einu sinni flókið og sama mælistika verður ekki lögð á allar athafnir manna nema óréttlæti fylgi.

Gott dæmi um málflutning ráðherra og hversu úreltur hann er, er virðisaukaskatturinn þar sem nauðsyn samræmingar hefur helst verið höfð á orði.

Efnahagsbandalagið hefur nýlega gert tillögur um samræmingu virðisaukaskatts í aðildarlöndum sínum og þar er, herra forseti, gert ráð fyrir tvenns konar prósentu virðisaukaskatts, annars vegar 4–6% álag á matvörur og hins vegar 14–17% á aðrar vörur og þjónustu. Eina land Efnahagsbandalagsins sem hefur einn og sama virðisaukaskattinn á alla skapaða hluti er Danmörk, en einmitt þangað fór sendinefnd frá fjmrn. þegar menn fóru til þess að leita að hugmyndum og tillögum varðandi virðisaukaskattinn. Ég tel að áður en ráðherra gengur frá nýju frv. um virðisaukaskatt væri rétt að senda nýja sendinefnd frá ráðuneytinu, í þetta sinn til Efnahagsbandalags Evrópu og til Írlands og Bretlands þar sem virðisaukaskattur er ekki lagður á matvæli. Þannig gæti ráðuneytinu og þar með kannski ráðherra lærst að það er ekkert sjálfgefið að það þurfi eitt yfir alla að ganga, allar vörur, þjónustu eða atvinnugreinar í þessu efni fremur en öðru.

Ég er sem sé algerlega andvíg þeirri forsendu sem þetta frv. byggir á sem er samræming samræmingarinnar vegna. Ef tilgangurinn væri hins vegar sá að auka tekjur ríkissjóðs um þær 400 millj. sem hér er um að ræða, þá er Alþb. svo sannarlega til viðræðu um það. Það nægir að minna hér á skattafrv. sem Svavar Gestsson og fleiri þm. Alþb. hafa lagt fram í þessari deild og er nú til umfjöllunar í hv. fjh.- og viðskn. Alþb. er nefnilega tilbúið til þess að leggja á skatta, ekki til samræmingar, heldur til tekjujöfnunar og til stýringar í atvinnulífinu. Við viljum til að mynda skattleggja gróða fyrirtækjanna og við viljum skattleggja stórar eignir. Þetta var í orði stefna

Alþfl. fyrir síðustu kosningar, en hún er hins vegar núna týnd og tröllum gefin.

Ég vil að lokum, herra forseti, leggja tvær spurningar fyrir fjmrh. Sú fyrri er: Hvaða álögur í krónum talið er það sem fiskirækt og fiskeldi eiga að bera — grein sem á að vera einn helsti vaxtarsprotinn í atvinnulífi landsmanna og mun væntanlega verða það á komandi árum ef ríkisvaldið reynir að hlúa að þeirri atvinnugrein en ekki plokka af henni það litla sem þar er enn til skipta? Og í öðru lagi: Hvenær koma frumvörpin sem eftir er beðið og ráðherra hefur talið upp oftar en einu sinni og oftar en tvisvar?