02.12.1987
Efri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1384 í B-deild Alþingistíðinda. (978)

141. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Eins og kom fram í máli hv. 1. flm. flutti ég þetta mál hér á þinginu á sínum tíma ásamt öðrum hv. þm. Nokkru síðar lagði hæstv. þáv. menntmrh. fram stjfrv. svipaðs efnis og sú varð niðurstaðan að ýmis atriði úr því frv. sem ég hafði flutt voru tekin inn í stjfrv. og um þetta náðist ágætt samkomulag og málið var afgreitt.

Nú hefur í þessu frv. verið á það bent að lögin munu að óbreyttu falla úr gildi um áramót og því þarf auðvitað að bregðast við. Ég á sæti í þeirri nefnd sem mun fá þetta mál til meðferðar og ég lýsi eindregnum stuðningi við þá tillögu sem hæstv. menntmrh. bar fram hér áðan. Raunar greindi hann frá því að í menntmrn. hefði verið unnið að því að búa til svipað frv. og er nú til umræðu. Tillaga hans var hins vegar sú að gildistími þessara laga sem verið er að endurskoða verði enn framlengdur nokkuð, um eitt ár. Mér finnst það vera afar eðlileg málsmeðferð, ekki að framlengja lögin ótímabundið, heldur að framlenging um eitt ár tryggi enn þá betur að endurskoðað frv. verði lagt hér fram á hinu háa Alþingi. Ég mun beita mér fyrir því að sú skoðun verði flutt inn í menntmn. þessarar hv. deildar. Ég tel það skynsamlegri kost en að gera þetta með þeim hætti sem frv. gerir ráð fyrir þó að ég sé auðvitað sammála þeirri grundvallarhugsun sem þar er á bak við, að þetta bann megi ekki falla úr gildi. Þess vegna flutti ég mitt frv. á sínum tíma til þess að hreyfa því máli hér inni á Alþingi í fyrsta skipti að börn og ungmenni nytu verndar gegn þessu.

Hitt er svo aftur annað mál, eins og hér hefur verið minnt á, að hér telja menn að rekist á að ýmsu leyti verndun og ritskoðun og ritskoðunarsjónarmið. Ég er hins vegar ekkert sannfærður um að svo sé þó að þar sé auðvitað mjótt mundangshófið. Þegar verið er að tala um ritskoðun skil ég það þannig að verið sé að meina mönnum að koma skoðunum eða hugmyndum á framfæri. Í þessu tilviki er ekki um það að ræða, að mínu mati. A.m.k. er það þá hrein undantekning. Ég veit ekki hvort hv. þm. hafa gert sér far um að skoða eintök af því efni sem hér um ræðir. Kvikmyndaeftirlit ríkisins efndi á sínum tíma til sýningar inni í Borgartúni 6, þangað sem ýmsum þm. var boðið, til að sjá efni sem hafði verið gert upptækt. Ég get ekki fallist á að það eigi skylt við ritskoðun, eins og ég skil það orð, þegar verið er að sýna það sem ég kalla klám, þegar verið er að sýna fólk sagað í sundur og skorið í bita, mér finnst það ekki vera listræn tjáning. Ég held að þarna — það er kannski hægara um að tala en í að komast — sé það kannski fyrst og fremst heilbrigð skynsemi sem ætti að beita vegna þess að mér sýnist að þetta eigi ekki við ritskoðun í þeirri eiginlegu merkingu þess orðs. Þetta er nánast hreinsun og verndarstarfsemi.

Við erum ekkert einir á báti í þessum efnum. Grannþjóðir okkar í kringum okkur hafa farið þessa leið, nær allar. Þær banna dreifingu ákveðinna mynda. Ég held að heilbrigðir einstaklingar með sæmilega skynsemi eigi ósköp auðvelt með að setja þær reglur sem hér um ræðir. Ég veit það hins vegar að lögfræðinga greinir á um þetta atriði og þeir halda því fram sumir hverjir að þetta sé ritskoðun. Ég man að ég tók, þegar ég hafði flutt frv. hér, þátt í umræðufundi á vegum Bandalags listamanna, held ég að hafi verið. En það vildi nú svo til að listamenn sem þar töluðu töldu það ekki skerðingu á sínu tjáningarfrelsi þó að bannaðar væru ofbeldis- og klámmyndir. Þeir sögðu: Það á bara ekkert skylt við tjáningarfrelsi eins og við lítum á það. Hins vegar er það svo til umhugsunar hvort með breyttri fjölmiðlun hafi kannski orðið breytingar á fleiri sviðum sem sumir telja miður æskilegar. Ég tel það. Ég tel að hin harða samkeppni á öldum ljósvakans t.d. hafi leitt til þess að menn seilast nú lengra í fréttaflutningi sumir hverjir en áður var gert. Ég hlýddi t.d. í morgun, á leið til vinnu um kl. 8, á fréttir útvarpsstöðvar sem virðist hafa sérhæft sig í því að fjalla í sínum fréttatímum a.m.k. um glæpi og stundum klám. Og mér finnst það ekki skemmtileg eða æskileg né ákjósanleg viðbót í hinum íslenska fjölmiðlaheimi. Þar voru afar ógeðfelldar lýsingar og nákvæmar á kynferðisafbrotum gagnvart börnum. Þarna er kannski komið að hinni mjóu línu milli — ég er ekki segja að eigi að banna, en ég hafði bara alið þá von í brjósti að þeir sem notfærðu sér þetta nýja fjölmiðlafrelsi, sem svo mjög var barist fyrir og að mörgu leyti hefur verið til góðs, mundu ekki nota það á þennan veg eins og því miður hefur þarna gerst og þetta hef ég heyrt oftar en einu sinni. Ég er ekki að leggja til að það verði settar reglur um fréttaflutning. Ég vonaði bara að menn hefðu annan hugsunarhátt til að bera sem fá þetta frelsi. Um það er ekki nokkur vafi í mínum huga að þessi lög eiga að gilda áfram. Um það getur svo verið meiningarmunur hvort á að framlengja þau ótímabundið eða, eins og ég tek undir með hæstv. menntmrh., gera það til eins árs og leggja þau síðan fram í endurskoðaðri mynd.