15.10.1987
Sameinað þing: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í B-deild Alþingistíðinda. (98)

Síðustu efnahagsákvarðanir ríkisstjórnarinnar

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég hef ávallt verið mikill bandamaður hæstv. forseta í því að efla virðingu Alþingis. Á undanförnum árum hefur hæstv. forseti, Þorvaldur Garðar Kristjánsson, unnið gott starf í því að bæði aga þessa stofnun og efla virðingu hennar og almennan aðbúnað að þingmönnum. Það er því mjög leitt að ég skuli hafa verið hér fjarverandi tæpa klukkustund í þessari löngu umræðu og bið hæstv. forseta afsökunar á því. Það var ekki með vilja gert né fólst í því nein vanvirðing gagnvart öðrum hv. alþm., að ekki sé nú minnst á hæstv. forsrh. sem ég auðvitað bjóst við að sæti hér lon og don vegna þess að hann er sá sem þessari umræðu er fyrst og fremst beint til. En það gleður mig sérstaklega að mín er meira saknað en hans. Ég vil heita hæstv. forseta því að þetta mun ekki koma fyrir aftur og ég mun gera mitt besta til þess að rækja skyldur mínar hér við þingið og vænti þess að mitt góða fordæmi, að hlaupa frá mörgum öðrum skyldustörfum til að sinna þessum skyldustörfum hér og ýmiss konar nauðsynjamálum sem eru utan þings á örlagastundum, verði öðrum til eftirbreytni.