02.12.1987
Neðri deild: 16. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1400 í B-deild Alþingistíðinda. (987)

158. mál, lögverndun á starfsheiti fóstra

Flm. (Finnur Ingólfsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum fóstra sem er á þskj. 171 og er 158. mál þingsins. Flm. ásamt mér eru hv. alþm. Guðrún Helgadóttir, Ingi Björn Albertsson og Kristín Einarsdóttir.

Frv. þetta er flutt í samráði við stjórn Fóstrufélags Íslands. Tilgangurinn með því er að tryggja að í framtíðinni verði starfandi á dagvistarheimilum starfsfólk sem hefur aflað sér sérfræðilegrar þekkingar á uppeldisstörfum fyrir börn.

Foreldrar treysta dagvistarheimilunum að vissu marki fyrir barnauppeldi. Uppeldisstörfin eru því í reynd falin fóstrunum og því er mjög treyst á menntun þeirra. Ég lít svo á að dagvistarheimilin eigi að vera fjölskyldum og foreldrum til stuðnings og ættu því að vera sjálfsögð viðbót við foreldrauppeldið. Foreldrar verða því að geta treyst að þar starfi sérmenntað fólk, fólk sem hefur þekkingu á því hversu mikilvæg bernskan er barninu fyrir framtíðina. Með þessu er ég ekki að kasta rýrð á störf ófaglærðs fólks, sem hefur í gegnum tíðina aflað sér mikillar reynslu við uppeldi, en það verður að viðurkenna, hversu mikil sem sú reynsla er, að hún kemur aldrei í staðinn fyrir þá bóklegu þekkingu sem fóstrur afla sér með sínu námi.

Það er einnig útilokað fyrir starfsstétt eins og fóstrur að búa við það af hálfu opinberra aðila að ef stéttinni dettur til hugar að berjast fyrir bættum kjörum séu yfirvofandi hótanir um að ef þær haldi slíkri baráttu áfram verði í staðinn fyrir þetta sérmenntaða fólk ráðið ófaglært fólk inn á dagvistarstofnanirnar til að sinna þeim störfum sem nú er sinnt af fóstrum. Slíkum afarkostum getur engin stétt setið undir og kannski er af þeirri ástæðu einni full ástæða til að lögvernda starfsréttindi fóstra.

Eftir að rannsóknir hafa leitt í ljós hversu víðtæk og flókin sú færni og frammistaða er sem börn hafa aflað sér og þroskað með sér á fyrstu bernskuárunum hefur foreldrum, skólamönnum og ráðamönnum um uppeldis- og menntamál skilist betur gildi þess að hlúa að þessu viðkvæma þroskaskeiði. Fræðilegar rannsóknir hafa einnig leitt í ljós að ýmsir þættir í félagslegu umhverfi barna geta ýmist dregið úr getu þeirra í skólanámi eða auðveldað þeim það. Langtímaathuganir hafa bent til fylgni milli heimilisaðstæðna og frammistöðu í skóla og gefa til kynna að gæði þess uppeldisumhverfis sem börn vaxa upp í við eigin aðstæður og á barnaheimilunum gegna mjög mikilvægu hlutverki við þroska barnanna. Túlkun á slíkum rannsóknum er að vísu oft umdeilanleg. Engu að síður benda niðurstöður ýmissa vönduðustu rannsókna til þess svo að varla verður um það deilt að markvisst forskólauppeldi getur haft afdrifarík áhrif á alhliða þroska bágstaddra barna, ekki aðeins skammtímaáhrif heldur einnig varanleg áhrif.

Vaxandi áhugi á forskólauppeldi og auknar kröfur um dagvistarheimili eru þó fyrst og fremst nátengd margháttaðri félagslegri þróun og breytingum sem hafa orðið á uppeldisskilyrðum barna og gæðum þeirra skilyrða. Mikilvægt er því að gefa því gaum að fjölskyldan sem tilfinningalegt og félagsmótandi afl í uppeldi barna hefur verið að breytast mjög á undanförnum árum. Óstöðugleiki kjarnafjölskyldunnar er meiri en svo að unnt sé að loka augunum fyrir honum. Hjónaskilnuðum fjölgar hröðum skrefum. Barnsfæðingum utan hjónabands eða utan sambúðar foreldra fjölgar. Einstæðir foreldrar verða hlutfallslega fleiri.

Fleira kemur til sem raskað hefur hefðbundnu mynstri fjölskyldunnar. Konan hefur til skamms tíma borið meginábyrgð á uppeldi barnanna innan vébanda heimilisins, en breyttar aðstæður konunnar í nútímaþjóðfélagi og aukin þátttaka hennar í atvinnulífinu hafa bein áhrif á stöðu móðurinnar sem foreldris. Raskar það hefðbundinni fjölskyldugerð og hefur afdrifarík áhrif á þau uppeldisskilyrði sem börnum eru sköpuð.

Á tiltölulega skömmum tíma hafa orðið örar og miklar breytingar á lífsháttum manna í hinum vestræna heimi sem hafa geigvænleg og afdrifarík áhrif á uppeldisaðstæður barna. Bitnar þessi þróun mest á ungum börnum ef ekkert er að gert. Fjölskyldan sem griðastaður og uppeldisathvarf barna stendur mjög höllum fæti. Staða fjölskyldunnar er mjög alvarleg og gefur fullt tilefni til aðgerða hennar til að styrkja og vernda börnin. Meðal raunhæfra og viðeigandi aðgerða er fjölgun dagvistarheimila sem veiti börnum markvisst uppeldi í samræmi við þroska þeirra og þarfir.

Ég ætla ekki að lesa einstakar greinar þessa frv. Þó vil ég fara nokkrum orðum um þær athugasemdir sem fylgja einstökum greinum frv.

1. gr. felur í sér lögverndun á starfsheiti fóstra sem starfa við uppeldisstörf á dagheimilum og öðrum þeim stofnunum fyrir börn þar sem uppeldi fer fram utan heimilis. Tilgangurinn með lögverndun starfsheitisins er að stuðla að aukinni viðurkenningu á menntun og starfi fóstra. Jafnframt er verið að girða fyrir að aðrir en þeir sem hlotið hafa viðhlítandi menntun og starfa utan heimilis þar sem uppeldi fer fram geti notað þetta starfsheiti. Starfsheitið eiga bæði karlmenn og kvenmenn að geta notað. Í raun og veru er gert ráð fyrir því í lögunum um Fósturskóla Íslands að þann skóla geti bæði sótt karlmenn og kvenfólk. Fóstrufélag Íslands hefur leitað til Íslenskrar málnefndar og spurst fyrir um hvort það sé andstætt íslenskri málhefð að karlar geti borið starfsheitið fóstra. Nefndin hefur svarað því til að svo sé ekki. Fólk sem tekur börn í fóstur hefur eftir sem áður heimild til að kalla sig fóstru eða fóstra, en auðvitað ekkí rétt til að starfa sem slíkt á stofnun fyrir börn þar sem uppeldi fer fram.

Í 2. gr. er fjallað um skilyrði fyrir því að fá leyfi til að nota starfsheitið fóstra. Öllum þeim sem lokið hafa námi við Fósturskóla Íslands skal veitt leyfi, einnig þeim sem hafa lokið sambærilegu námi erlendis, en áður en slíkt leyfi er veitt skal leita umsagnar um leyfisveitinguna hjá Fóstrufélagi Íslands og skólanefnd Fósturskólans.

3. gr. gerir ráð fyrir því að menntmrh. skuli ávallt leita þessara umsagna. Þetta er til að tryggja að ekki komi inn í fóstrustéttina fólk sem ekki hefur hlotið viðhlítandi menntun.

Í 4. gr. er vitnað í lögin um byggingu og rekstur dagvistarheimila nr. 40/1981 og í uppeldisáætlun fyrir dagvistarheimili frá 1985. Í þessum lögum og uppeldisáætluninni er fóstrum gert skylt að vinna og bera ábyrgð á að unnið sé að settum uppeldismarkmiðum. Þessar skyldur sínar ber hverri fóstru að þekkja þegar henni er veitt starfsleyfi.

Markmiðið með 6. gr. er að stemma stigu við að aðrir en þeir sem hlotið hafi viðhlítandi menntum verði ráðnir til fóstrustarfa. Tilgangurinn er sá að bæta það uppeldislega starf sem fram fer á dagvistarheimilum og taka af öll tvímæli um að hægt sé að ráða í störf fóstra ófaglært fólk þó það hafi öðlast mikla reynslu af barnauppeldi innan heimilis. Þó er gert ráð fyrir að frá þessari meginreglu sé hægt að víkja fáist fóstrur ekki til starfa þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar í fjölmiðlum. Í lögum um rekstur og byggingu dagvistarheimila, í 16. gr., er gert ráð fyrir hvernig farið skuli með slíkar undanþágur og í þessari grein er gert ráð fyrir að eins sé farið að.

Það kunna einhverjir að halda því fram að eftir að lögverndun á starfsheiti fóstra hefur verið veitt muni verða mjög erfitt fyrir minni sveitarfélögin að ráða fóstrur til starfa. Fyrir þessu er séð. Það er gert ráð fyrir því í lögunum um byggingu og rekstur dagvistarheimila, í 16. gr., að hægt sé að sækja um undanþáguheimildir til menntmrn. til að ráða ófaglært fólk í störf á dagvistarstofnunum. Það skuli þó ekki gert án undangenginnar auglýsingar og starfsmaður sem ráðinn er skuli ekki geta borið starfsheitið fóstra. Þann starfsmann má heldur ekki endurráða án undangenginna auglýsinga og það skal aldrei ráða þann starfsmann lengur en til eins árs í senn.

Einhver kann að spyrja hvort ekki sé komið nóg af þessum múrum sem hinar ýmsu starfsstéttir hafi verið að byggja í kringum sig. Það kann vel að vera að svo sé, en þá hafa menn í upphafi stigið röng skref í þessa veru því það er ekkert sem réttlætir að fóstrustarfið skuli vera eitt af sárafáum störfum í opinberri þjónustu sem ekki nýtur lögverndar á starfsheiti og starfsréttindum.

Á undanförnum árum hafa ýmsar starfsstéttir í opinberri þjónustu fengið lögverndun á starfsheitum sínum og starfsréttindum. Kennarastarfið hlaut slíka lögverndun árið 1986. Störf kennara og fóstra er um margt mjög skyld og gegna báðar starfsstéttirnar afar mikilvægu hlutverki í uppeldi barna og unglinga.

Hæstv. forseti. Að aflokinni þessari umræðu legg ég til að frv. þessu verði vísað til hv. menntmn. Nd.