02.12.1987
Neðri deild: 16. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1403 í B-deild Alþingistíðinda. (989)

110. mál, lífeyrisréttindi heimavinnandi húsmæðra

Sólveig Pétursdóttir:

Hæstv. forseti. Að undanförnu hafa farið fram miklar umræður um lífeyrissjóðsmál landsmanna. Ljóst er að lífeyrisréttindi einstakra stétta og starfshópa eru um margt mismunandi og fer það bæði eftir aldri og reglum lífeyrissjóðanna. Í þessari umræðu hafa flestir verið sammála um að brýn nauðsyn væri að gera úrbætur á lífeyrissjóðsmálum þeirra sem starfa við heimilis- og umönnunarstörf og hafa til þessa margir hverjir notið lítilla sem engra lífeyrisréttinda. Hér er fyrst og fremst um þá að ræða sem bundnir eru við heimilisstörf vegna barna eða geta ekki af öðrum ástæðum sótt út á vinnumarkaðinn, t.d. vegna veikinda. Þá eru það ætíð allmargir sem annast þurfa á heimilum aldraða og sjúka og eiga þess ekki kost af þeim sökum að leita út á vinnumarkaðinn og ávinna sér þar lífeyrisréttindi.

Þessi störf eru að sjálfsögðu mjög dýrmæt fyrir þjóðfélagið, en hafa oft ekki notið þeirrar viðurkenningar sem þeim ber. Á 27. landsfundi Sjálfstfl., sem haldinn var í byrjun mars á þessu ári, var sérstaklega ályktað um þessi efni. Í ályktun landsfundarins um jafnréttis- og fjölskyldumál segir m.a., með leyfi virðulegs forseta:

„Meta þarf heimilisstörf sem reynslu í störfum á almennum vinnumarkaði. Heimavinnandi fólk njóti bóta frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrisréttinda til jafns við aðra vinnandi þjóðfélagsþegna. Kannað verði hvernig við verði komið greiðslum til fólks sem annast aldraða, sjúka eða öryrkja á eigin heimilum.“

Einnig kom fram ályktun þess efnis að lífeyrisréttindi verði sameign hjóna. Þetta er að sjálfsögðu afar mikilvægt atriði þegar litið er til þess hvernig húsnæðislánakerfið er fjármagnað með framlögum úr lífeyrissjóðum.

Enn fremur ályktaði flokksráðs- og formannafundur Sjálfstfl. um þetta efni þann 21. nóv. sl., en þar segir í annars ítarlegum kafla um fjölskyldu- og jafnréttismál, með leyfi forseta:

„Heimavinnandi njóti lífeyrisbóta í sama mæli og aðrir starfandi þjóðfélagsþegnar.“

Ég get því verið fyllilega sammála hv. flm. þessa frv. um þá réttlætishugsun sem þar býr að baki. Ekki verður þó komist hjá því að gera nokkrar athugasemdir.

Í fyrsta lagi verður að hafa hugfast að lífeyrissjóðsréttindi eru eign viðkomandi rétthafa vegna þeirra iðgjalda sem hann hefur greitt í sjóðinn. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að hið opinbera sjái alfarið um iðgjaldagreiðslur. Hér er því farið fram á skattlagningu og fyrir slíku þurfa einatt að vera góð og gild rök. Það þarf hugleiðingar við hverjir muni njóta þessara réttinda, sérstaklega með það í huga að um eða yfir 80% íslenskra kvenna eru nú útivinnandi. Er það markmið þessa frv., ef það verður að lögum, að hafa þau áhrif að fleiri verði heimavinnandi? Ef markmiðið er t.d. að styðja við bakið á barnafjölskyldum, má þá ekki velta því fyrir sér hvort önnur úrræði, t.d. hækkun á barnabótum, kæmu þeim betur?

Í öðru lagi er í 1. gr. frv. og í grg. gert ráð fyrir að iðgjaldsgreiðslan sé miðuð við laun skv. 9. launaflokki Verkamannasambands Íslands, efsta starfsaldursþrepi, eins og þau eru á hverjum tíma. Þessi viðmiðun er alls ekki raunhæf því að þetta flokkakerfi var lagt niður í síðustu desembersamningum eða fyrir rétt tæpu ári og ekki er mér kunnugt um að neitt mat liggi fyrir á störfum húsmæðra, eins og í grg. er miðað að, þannig að þetta atriði þarf að sjálfsögðu leiðréttingar við.

Í þriðja lagi er það heldur ekki ljóst af frv. hvort þessi lífeyrisréttindi verði sameign hjóna eða ekki. Eiga t.d. þessi réttindi að koma til skipta á milli hjóna við skilnað?

Í fjórða lagi verður að spyrja hvort frv. er ætlað að gilda um fólk í óvígðri sambúð sem jafna má til hjúskapar. Þessi atriði og önnur verður að taka til nánari athugunar.

Í lok grg. segir, með leyfi virðulegs forseta: „Stofnun sameiginlegs lífeyriskerfis allra landsmanna er nú í undirbúningi. Það er mikið þjóðþrifamál og má ætla að lífeyrismál heimavinnandi fólks verði best leyst innan þess ramma. En svo brýnt er að koma þessu máli í betra horf að ekki verður beðið eftir annarri skipan lífeyrismála þar sem búast má við að nokkur ár líði áður en sú breyting kemst á.“

Eins og hv. þm. er kunnugt um hefur verið unnið að endurskoðun lífeyriskerfisins á vegum svonefndrar sautjánmannanefndar. Aðilar þeirrar nefndar voru aðilar vinnumarkaðarins og hins opinbera. Á sl. vori skiluðu þeir niðurstöðu sinni í formi frv. til laga um starfsemi lífeyrissjóða, þann 29. maí 1987. Í þessu frv. koma fram mörg merkileg nýmæli. T.d. segir í 6. mgr. 13. gr., með leyfi virðulegs forseta:

„Ellilífeyrisréttindi hjóna, sem áunnist hafa á meðan á hjónabandinu stóð, skulu teljast hjúskapareign þeirra. Við slit á fjárfélagi hjóna við skilnað skulu þau ellilífeyrisréttindi sem áunnust á meðan hjónabandið stóð skiptast jafnt á milli þeirra.“

Þetta frv. mun nú liggja fyrir hjá hæstv. fjmrh. og er því full ástæða til að beina þeim eindregnu tilmælum til hans að frv. þetta verði lagt fram hið fyrsta til að hið háa Alþingi fái um það fjallað. Þannig má ætla að þau ummæli grg. sem áður er í vitnað nái best fram að ganga, þ.e. að lífeyrismál heimavinnandi fólks verði best leyst innan þess ramma sem heildarendurskoðun lífeyriskerfisins gerir ráð fyrir. Ég vil hins vegar þakka hv. flm. fyrir að vekja athygli á þessu þarfa máli.

Hæstv. forseti. Það er enn fremur yfirlýstur vilji ríkisstjórnarinnar og hæstv. heilbr.- og trmrh. að fram fari endurskoðun almannatryggingakerfisins hið skjótasta. Tel ég það mikið réttlætismál og vafalaust má einmitt á því sviði lagfæra margt sem betur mætti fara varðandi réttindi heimavinnandi fólks í samræmi við þá meginhugsun sem fram kemur í því frv. sem hér liggur fyrir.