02.12.1987
Neðri deild: 16. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1411 í B-deild Alþingistíðinda. (995)

125. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Þetta er raunar aðeins eitt af þeim frv. sem við höfum beðið eftir og nauðsynleg eru til umfjöllunar vegna þeirra skattkerfisbreytinga sem eiga að taka gildi um áramót. Um þetta tiltekna frv. er e.t.v. ekki þörf á löngu máli. Hér er fyrst og fremst um að ræða nauðsynlegar breytingar á lögunum til þess að framkvæmd kerfisbreytingarinnar geti gengið eðlilega fyrir sig og ég hygg að um þetta frv. hafi lítill ágreiningur verið í þeirri nefnd sem fjallaði um undirbúning staðgreiðslunnar, enda var það með því fyrsta sem afgreitt var af hálfu nefndarinnar.

Það er e.t.v. rétt að koma því að strax að það kemur fram á fleiri en einum stað í álitsgerð milliþinganefndarinnar að henni hafi verið naumt skammtaður tíminn til sinna verkefna og er ekki örgrannt um að menn virðist vilja hafa þetta tímaleysi sér til afsökunar. Ég vil þá aðeins geta þess að beiðni um tilnefningu barst okkur kvennalistakonum dags. 10. júlí sl. og við skipuðum okkar fulltrúa mjög fljótlega og vorum þess tilbúnar að hefja þessa vinnu þá þegar og töldum það raunar nauðsynlegt. Ég veit svo sem ekki af hvaða sökum þessi vinna tafðist alveg fram í september og vænti að þar hafi kannski ráðið seinagangur annarra aðila sem áttu að skipa fulltrúa í þessa nefnd. En okkar fulltrúi, Kristín Sigurðardóttir, var orðin góðkunningi símastúlkna í Stjórnarráðinu og fulltrúa þar, svo oft hringdi hún til að spyrja um hvenær hefja ætti þetta starf. Það er því sannarlega við aðra að sakast um það hvað þessi vinna dróst.

Um þetta frv. er svo aðeins það að segja að flest ákvæði þess munu vera til bóta og nauðsynleg til þess að framkvæmd þessarar kerfisbreytingar geti orðið með eðlilegum hætti og ekki ástæða til þess að mínu mati að fjölyrða um hvert atriði fyrir sig. Ég vil þó nefna örfáa punkta.

Hérna í 7. gr. er m.a. ákvæði sem snerta það sem kalla má samsköttun hjóna, þ.e. millifærslu á persónuafslætti milli hjóna og sambúðaraðila. Eins og hv. þm. er e.t.v. kunnugt um höfum við kvennalistakonur talað gegn því að þannig væri staðið að því að jafna þann mun sem verður á skattbyrði heimila eftir því hvort einn eða fleiri afla teknanna. Um það gæti ég haldið langa tölu hér til að skýra það rétt einu sinni hvers vegna við höfum þá afstöðu, en ég held að til þess sé varla tími núna en þó rétt að geta þess að okkur finnst réttara að verja meira fé til barnabóta til að auka valfrelsi foreldra um hvernig þeir vilja haga umönnun barna sinna. Réttlátast væri þó að sjálfsögðu að greiða ónýttan persónuafslátt beint til viðkomandi einstaklinga og það væri í rauninni það eina rétta. Á því hafa alltaf fundist slíkir annmarkar þegar um hefur verið rætt að menn hafa ekki treyst sér til að fara út í þá aðgerð þótt oft hafi komið til tals.

Um 7. gr. þessa frv. vil ég því aðeins segja það nú að úr því að millifærsluleiðin er farin á annað borð er með þessu ákvæði í 1. málsgr. um bót að ræða. Síðari málsgreinarnar tvær í 7. gr. eru tvímælalaust til mikilla hagsbóta og ber að fagna þeim sérstaklega. Með þeim er sérstaklega tekið tillit til námsmanna og annarra sem geta aðeins stundað tímabundna vinnu eða hluta úr ári.

Ég held að ég hafi svo ekki fleiri orð um þetta frv. að sinni, en hjá því verður ekki komist að átelja þann seinagang sem hefur verið og er enn þá á öllu því sem þarf að gera vegna upptöku staðgreiðslukerfis skatta, a.m.k. á því sem að Alþingi snýr.

Það er harla einkennilegt að vera farin að fá heimsenda bæklinga um það hvernig framkvæmdin verður áður en Alþingi er búið að fjalla um málið, en hjá því mun hafa verið erfitt að komast þar sem varð að skýra það á einhvern hátt fyrir skattgreiðendum hvernig þetta yrði framkvæmt og er vonandi að það verði í samræmi við þær ákvarðanir sem teknar verða á Alþingi.

Hér stöndum við 2. desember með aðeins eitt frv. í höndum af þeim sem nauðsynlegt er að afgreiða fyrir þinghlé og aðeins örfáir vinnudagar eftir. Þetta væri kannski í lagi ef það lægi ekkert annað fyrir þinginu, en það er nú eitthvað annað og þarf ekki að nefna fleiri mál en kvótafrv. og fjárlögin. Stjórnarflokkarnir hafa þæft þessi skattafrv. á milli sín vikum saman eins og svo margt annað sem þeim kemur illa ásamt um. Síðan er þessu hent inn á borð þm. sem fá örfáa daga til að fjalla um öll þessi stórmál á þinglegan hátt. Svona vinnulag er vissulega gamalkunnugt í þinginu en auðvitað gjörsamlega óþolandi. Menn sjá af þessu hversu nauðsynlegt er þó að gera fulltrúum stjórnarandstöðunnar kleift að fylgjast með undirbúningi mála svo sem var í þessu tilviki. Ef svo hefði ekki verið, bæði hvað varðar fiskveiðistjórnunina eins og ég minntist á áðan svo og skattamálin, hefði þetta vinnulag hér í þinginu bókstaflega ekki getað gengið. Nógu erfitt er það samt. Með þessu er ég ekki að segja að þetta sleifarlag sé afsakanlegt, aðeins það að þátttaka fulltrúa stjórnarandstöðunnar í undirbúningi mála tryggir það þó að við fáum ekki gjörsamlega ókunnuglega pappíra á borðin og stöndum ekki algerlega klumsa þegar við eigum að fara að fjalla um þetta hér á örfáum dögum.

Hæstv. ráðherra upplýsti áðan að fleiri frv. væri von í þessari viku og er ekki seinna vænna. Ég vil aðeins segja að lokum að ég er hrædd um að hæstv. fjmrh. hefði talið svona vinnulag kjörið tilefni til nokkuð margbrotinna og háværra athugasemda úr þessum ræðustól væri hann óbreyttur þm.