02.12.1987
Neðri deild: 16. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1417 í B-deild Alþingistíðinda. (998)

125. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Það mál sem hér er á dagskrá, frv. til l. um breytingu á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, er eins og hefur fram komið eitt af mörgum málum sem þurfa afgreiðslu þingsins fyrir jólaleyfið nú í desember. Það hefur komið fram að frv. er hér tiltölulega seint fram komið. Ég vil fyrir minn hlut taka undir þá gagnrýni sem á það hefur komið fram.

Það er talað víða um að tíminn hafi verið naumur til þessara starfa og það er rétt að milliþinganefndin, sem undirbjó að verulegu leyti þetta frv., hóf ekki störf fyrr en í byrjun september, en ég vil þó benda á að það var þó 28. september sem nefndin hafði lokið þeim þætti starfa sinna sem er grundvöllurinn að frv. þannig að allan októbermánuð og allan nóvembermánuð hefur þetta mál verið annars staðar til umfjöllunar, en þingið er nú fyrst að taka málið til umræðu 2. desember þegar mikill annatími fer í hönd. Þetta er auðvitað gagnrýni vert.

Önnur mál þessu tengd, um sóknargjöld og kirkjugarða, eru þau fyrstu sem hér hafa verið tekin á dagskrá, en aðalmálin í rauninni eru eftir og þingið á síðan eftir að vinna alla grunnvinnu af sinni hálfu þegar þetta mál er afgreitt.

Ég vil þó almennt séð lýsa þeirri skoðun minni að þau atriði sem þetta frv. tekur til, sem eru að langmestu leyti tæknilegs eðlis, eru að minni hyggju nánast öll til bóta miðað við löggjöfina sem samþykkt var á sl. vori. Ég vil þó sérstaklega leggja áherslu á 7. gr. eins og raunar fleiri aðilar hafa hér gert. Í henni segir þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Nýti launamaður, sem er annað hjóna eða aðili í sambúð, sbr. Í. mgr. 13. gr., að jafnaði ekki persónuafslátt sinn að fullu hefur þann rétt til þess að krefjast útgáfu aukaskattkorts frá skattstjóra. Reynist krafa launamanns réttmæt ber skattstjóra að gefa út til hans aukaskattkort þar sem tilgreina skal þann persónuafslátt sem fyrirsjáanlegt er að launamaðurinn nýtir ekki.“

Þetta atriði er að minni hyggju ákaflega mikilsvert. Það undirstrikar í leiðinni hve persónuafslátturinn er mikilsverður þáttur í öllu þessu máli. Ég legg á þetta sérstaka áherslu vegna þess að ég býst við því að á síðari stigum þessa máls komi hér til umfjöllunar persónuafslátturinn sérstaklega og hvernig persónuafslátturinn er ákvarðaður.

Það mun vera ætlunin að ákvarða persónuafsláttinn einungis tvisvar á ári, í byrjun árs og á miðju ári. Þetta atriði er þýðingarmikið að menn geri sér ljóst. Ég hef áður gagnrýnt þessa ætlan vegna þess að ég tel að persónuafsláttinn eigi að ákvarða eigi sjaldnar en mánaðarlega. Þetta skiptir þá aðila langmestu máli sem eru neðst í stiganum, sem verða næst því að vera skattlausir, þeim mun meir sem þeir eru neðar í stiganum og bera gjöld. Það er vegna þess að í verðbólgutíð eins og við erum vönust skiptir persónuafslátturinn ákaflega miklu máli og þróun dýrtíðarinnar.

Síðan eru tvö atriði önnur í þessari grein sem ég tel að séu mjög mikilsverð líka. Það er varðandi námsmannaskattkortin sérstaklega. Þetta er atriði sem er til bóta og einnig seinasti liðurinn þar sem segir:

„Ef launamaður hefur eigi nýtt meira en 10% af persónuafslætti sínum þegar komið er fram yfir mitt staðgreiðsluár eða flutt hann yfir til maka er honum heimilt að sækja um útgáfu skattkorts sem hefur uppsafnaðan persónuafslátt frá ársbyrjun staðgreiðsluárs til næsta mánaðar á undan útgáfudegi. Ríkisskattstjóri annast útgáfu skattkorts með uppsöfnuðum persónuafslætti.“

Það var vikið hér fyrr í umræðunni nokkuð að skattsvikum og er sjálfsagt ekki að ófyrirsynju. Ég vil þó af því tilefni láta í ljós þá skoðun mína að mest verkefni á vegum ríkisins til að uppræta skattsvik er að minni hyggju varðandi innheimtu óbeinna skatta. Enda þótt beinir skattar skipti auðvitað miklu máli og hvarvetna skipti máli að skil séu sem best og án allra undanbragða er það í óbeinu sköttunum sem skattskilin skipta mestu. Hér er aðeins um að ræða á þessum vettvangi, eins og ég hef raunar áður tekið fram, 8% af tekjum ríkisins, en það er gert ráð fyrir því í fyrirliggjandi fjárlagafrv. að óbeinu skattarnir verði hins vegar um 40%. Það er þar sem menn þurfa að taka til hendi til að uppræta skattsvik svo að verulegum árangri sé náð.

En af því tilefni sem hér var gefið áðan vildi ég enn láta í ljós þá skoðun mína að sú ætlun stjórnvalda, sem mér heyrist helst á fjölmiðlum að uppi sé í dag, að bæta söluskattskerfið með því að taka upp virðisaukaskatt, er þess eðlis að ég er mjög efins um að menn nái þar settum markmiðum, að komast fyrir þau skattsvik sem uppi eru í landinu eins og menn ætlast til. Ég held að leiðin sé fyrst og fremst sú að taka söluskatt á fyrsta stigi. Ef það væri gert væri hægt að ná inn miklu fé því að það er áreiðanlegt að þar er auðveldast að fá sem best skil og góða innheimtu.

Fyrr í umræðunni var aðeins minnst á skattsvikanefndina sem starfaði í fyrra. Ef söluskatturinn yrði tekinn á fyrsta stigi og sá árangur næðist sem skattsvikanefndin talaði um í fyrra næðust um 2 milljarðar kr. af þeim 25 sem ætlað er að innheimta á þessum vettvangi á næsta ári, 1988, og það er ekki lítið fé.

Að endingu þetta, hæstv. forseti: Ég er í flestri grein meðmæltur þeim atriðum sem um er að ræða í frv. sem hér er sérstaklega til umræðu.