02.12.1987
Neðri deild: 16. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1419 í B-deild Alþingistíðinda. (999)

125. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hv. þdm. fyrir jákvæðar málefnalegar undirtektir við þetta mál en jafnframt nota tækifærið til að svara nokkrum orðum þeirri gagnrýni sem beint hefur verið að málsmeðferðinni, nefnilega þeirri gagnrýni að mál séu síðbúin og þingstörf einkennist af seinagangi sem rekja megi til þess að mál ríkisstjórnarinnar koma hér seint og um síðir og sum eru ókomin enn, mörg og stór.

Fyrst var spurt: Hvernig stendur á því að milliþinganefndin tók ekki til starfa fyrr í sumar? Þær upplýsingar sem ég hef um það eru þessar: Fljótlega eftir að ég tók við verkstjórn í fjmrn. spurðist ég fyrir um það hvað liði svörum við útsendum bréfum til þingflokka og aðila vinnumarkaðar og voru þá sýnd bæði útsend bréf og eins svör frá einum aðila. Þannig leið júlímánuður að ég stóð í þeirri trú að það stæði einfaldlega á því að aðilar, sem þarna hefði verið boðið til starfa, hefðu ekki svarað. Það leiðréttist ekki fyrr en í samtali sem var af hendingu við einn þingflokksformanninn að bréf höfðu ekki borist þingflokkum, þannig að þegar málið var kannað hafði það fyrir hrein tæknileg mistök gerst að aðeins einum aðila hafði verið sent hið upphaflega bréf. Þetta leiddi til þess að erindi mitt, sem var þá endurtekning, varð ekki fyrr en einhvern tíma í ágústmánuði, dagsetningarnar hef ég ekki við hendina. Síðan varð niðurstaðan sú að þrátt fyrir þetta voru sumarleyfi og annir margra þingflokka slíkar að svör bárust ekki fyrr en í byrjun september frá öllum aðilum. Þetta er skýringin að því er varðar það að milliþinganefndin tók ekki fyrr til starfa, andhælisleg sem hún kann að vera.

Annað: Þetta frv. sem er til umræðu og er í öllum aðalatriðum ef ekki í öllum atriðum — ég hef þær ekki alveg við hendina, svara því ekki svo óyggjandi sé — byggt á tillögum milliþinganefndarinnar, þ.e. þeim þætti hennar sem varðaði framkvæmdaatriðin. Því var útbýtt hér á hv. Alþingi hinn 23. nóv. og ég átti von á að geta mælt fyrir því þá þegar. Það hefur dregist úr hömlu af margvíslegum ástæðum sem ekki voru á mínu valdi. Þess er að geta að tvö önnur mál eru komin fram í tengslum við staðgreiðslu, þ.e. frv. til laga um sóknargjöld og kirkjugarðsgjöld. Þann 23. nóv. lagði ég fram í ríkisstjórn frv. um breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt vegna staðgreiðslu skatta og það frv. hefur verið síðan til umfjöllunar í þingflokkum. En eftir því sem ég best veit verður það lagt fram hér á hinu háa Alþingi annaðhvort í dag eða á morgun. Frv. um tekjustofna sveitarfélaga, sem er undirbúið á vettvangi félmrn., er þannig statt að það frv. verður kynnt og lagt fram á fundi ríkisstjórnar á morgun eftir því sem ég best veit.

Að öðru leyti er þess að geta um það mikla starf sem unnið hefur verið eftir að ráðrúm gafst til, eftir að lokið var undirbúningi og vinnu við fjárlagafrv. og lánsfjárlagafrv., við stærstu tekjustofnalög ríkisins, þ.e. um tolla, vörugjald og söluskatt. Þau eru þannig á vegi stödd að frv. um nýjan samræmdan söluskatt var lagt fyrir í ríkisstjórn fyrir um það bil 10 dögum. Frv. um endurskoðun tollskrár, sem er eins og kunnugt er mjög viðamikið mál, tæknilega, eitthvað um 350–400 síður, hefur verið kynnt í þingflokkum stjórnarliða. Vinnubrögðum hefur verið hagað á þann veg, einmitt í ljósi þess að þau eru seint fram komin og ekki á mannlegu valdi nánast að koma þeim fram fyrr, að fulltrúum þeirra aðila sem eru þolendur þessara lagaákvæða, og þá á ég fyrst og fremst við samtök iðnaðarins og samtök verslunar og viðskipta, hefur verið gefinn kostur á að skoða þetta mál vandlega á tæknilegu undirbúningsstigi þeirra, þannig að þeim hefur þegar gefist ráðrúm til að skila ábendingum og tillögum um margt sem betur mátti fara. En auðvitað er niðurstaðan sú að sá dráttur sem orðinn er á því að frv. nái hingað inn á Alþingi hefur auðvitað orðið vegna þess að málin hafa verið kannski helst til lengi í skoðun og umfjöllun þingflokka sem að ríkisstjórninni standa.

Ég geri mér alveg grein fyrir því að gagnrýnin um það að þessi mál eru seint fram komin er réttmæt og ég hefði svo sannarlega sem stjórnarandstöðu þm. ekki látið það liggja í þagnargildi, enda eru það efnisleg rök sem ekki er annað um að segja en að þau eru réttmæt.

Til þess að draga þetta saman geri ég ráð fyrir að fylgifrv. staðgreiðslumálsins komi hér til framlagningar á morgun og ég geri mér vonir um það að hinir stóru og viðamiklu frumvarpabálkar um tollskrá og söluskatt og búvörugjald verði lagðir hér fram á hinu háa Alþingi í upphafi næstu viku.

Önnur mál sem varða tekjuhlið fjárlaga næsta ár hafa líka verið lögð fram í hv. Ed. og vísa ég til umræðu sem þar hófst áðan um frv. til laga um launaskatt.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að þessu sinni að leggja frekar orð í belg vegna þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram um skattsvik, nefni þó að gefnu tilefni eitt atriði. Nái þau frumvörp, sem nú eru í smíðum, fram að ganga um einföldun tollakerfis er það m.a. tilefni til endurskipulagningar að því er varðar framkvæmd skattalaga. Þessi mikla endurskipulagning á tollamálum felur í sér að niður verði felldir með öllu tollar á öllum aðföngum, vélum, tækjum og hráefnum til íslensks iðnaðar sem og á öllum matvælum. Þetta er tekjutap fyrir ríkissjóð áætlað á næsta ári upp á 41/2 milljarð. Þetta tekjutap er síðan bætt upp með samræmdu vörugjaldi sem lagt verður á tiltölulega trausta skattstofna, þ.e. tiltölulega fáa gjaldendur hér innan lands, en í öllum höfuðatriðum á innfluttan varning. Því næst kæmi söluskattur sem væri endurskipulagður með breiðari skattstofn en lægri álagningarprósentu. Nái þetta mál fram að ganga eins og að er stefnt felur það í sér að verkefni tollþjónustunnar og tollkerfisins minnka til mikilla muna, þannig að þá gæfist tækifæri til að létta mjög á störfum framkvæmdaaðila að því er varðar hina beinu skatta með því að fela tollþjónustunni einfaldlega að annast framkvæmd innheimtu og eftirlit með innheimtu á vörugjaldinu. Um tollana, sem þá verða orðnir tiltölulega lítill hluti í tekjustofni ríkisins, er það að segja að þeir eru að sjálfsögðu afgreiddir við innflutning. Þetta gæti verið þýðingarmikið skref í þá átt að bæta framkvæmd innheimtu á óbeinum sköttum og má reyndar geta þess að þessa sömu leið fóru Danir þegar þeir tóku upp sitt virðisaukaskattskerfi, en það er mat margra sem það hafa kynnt sér að skipulag þess og innheimtuárangur sé langsamlega bestur af þeim löndum sem tekin hafa verið til samanburðar.

Að lokum, herra forseti, að gefnu tilefni ein stutt athugasemd. Hv. 6. þm. Suðurl., Óli Þ. Guðbjartsson, orðaði nú þá hugmynd sína sem hann hefur hreyft áður í ræðum á hinu háa Alþingi að hann hafi uppi efasemdir um virðisaukaskatt og telji að betri árangur mundi nást með því að innheimta söluskatt við tollafgreiðslu á innfluttum varningi. Ég legg til að hv. þm. kynni sér þetta mál ögn betur. Ég vil rifja upp að við þm. Alþfl. ræddum þessa hugmynd mjög rækilega á árunum 1983–1984 og komumst að þeirri niðurstöðu að virðisaukaskatturinn fullnægir einmitt þessu skilyrði. Hann er einmitt óbeinn skattur sem leggst á afgreiðslu á innfluttum varningi þegar við tollafgreiðslu án þess að valda uppsöfnunaráhrifum síðar í framleiðslukeðjunni sem leiði til þess að upp hlaðist afleiðingar söluskatts og að innlend framleiðsla verði síður samkeppnishæf við innfluttan varning. Virðisaukaskatturinn er því einmitt það skattform sem fullnægir best af öllum hugsanlegum formum óbeinnar skattlagningar þessari forsendu sem hv. þm. gerði að umtalsefni.

Að öðru leyti væri gallinn við framkvæmd þess að taka söluskattskerfið til innheimtu í tolli einmitt þessi að gífurleg uppsöfnunaráhrif sem af því mundu hljótast á innlenda framleiðslu og samkeppnishæfni hennar útiloka því miður þann kost. Þetta er niðurstaða af allrækilegri athugun sem við á sínum tíma gerðum og ég tek það fram að ég fékk sérfróða menn í fjmrn. til þess að fara yfir þessar hugmyndir mjög rækilega snemma á þessu sumri og þær niðurstöður staðfestu einnig þetta álit.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.