19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (1003)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Jón Þorkelsson:

Beiðni þessi frá hr. Brynjólfi tannlækni Björnssyni, finst mér á rökum bygð.

Hann ætlar að fræða fólkið — halda fyrirlestra, og lækna ókeypis.

Tannlæknir sá, sem styrktur er af landsfé, hefir ekki aðrar skyldur en þær, að kenna lítils háttar á læknaskólanum og veita fátæklingum ókeypis hjálp einu sinni á mánuði.

Eg er nú reyndar komin á raupsaldurinn, enda verð eg að segja það, að margt er nú annan veg farið, en í mínu ungdæmi.

Unga fólkið er margt hvað orðið eins og gamlar tannlausar kerlingar voru þá, getur nú ekki lagt sér til munns þá fæðu, er okkur þótti hvað bezt, svo sem harðfisk. Það er því ekki vanþörf á að hér sé leitað við að ráða nokkrar bætur á.

Hr. Brynjólfur Björnsson hefir hugsað sér að gefa tíma í ýmsum skólum bæjarins og allar nauðsynlegar leiðbeiningar áhrærandi verndun tannanna. Öll þörf og sanngirni mælir þess vegna með því, að háttv. deild samþ. viðaukatill. þessa.