19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í B-deild Alþingistíðinda. (1010)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Framsögumaður (Björn Jónsson):

Um framsögu þessa kafla er hið sama að segja og hinn, er síðast var rætt um. Um till. nefndarinnar nægir að vísa til nefndarálitsins. Það eru að eins þær till. sem upp bornar hafa verið utan nefndar, er eg vil minnast á hér. Þó vil eg geta þess, að við A. 1. b. 1. er 500 króna hækkun, er stafar af viðbót (300+200).

Breytt.till. 281 (2) við A. 4. a. hefir viljað færa 5000 niður í 4000, en nefndin vill láta hina fyrri tölu halda sér, með því að ekki mun hægt að komast þar af með minna.

Breyt.till. 281 (4) við B. I. 3. vill færa skrifstofukostnað landsverkfræðingsins úr 800 kr. niður í 500, en nefndin getur ekki fallist á þá lækkun.

Breyttill. 281 (3) við B. I. 2. vill færa laun aðstoðarmanns verkfræðings úr 2700 niður í 2000. Má vera að hæfur maður fengist fyrir þau laun, en nefndin hefir þó hér viljað hallast að stjórnarfrumv. (2700).

Viðaukatill. 275 leggur til að 5000 kr. hvort árið séu veittar til akvegar frá Selós til Kópavogs, og þótt æskilegt væri að veita þetta, þá sér nefndin sér það ekki fært.

Breyt.till. 258 fer fram á fjárveitingu til brúar á Laxá, og til framhalds þjóðvegar, en af því að nefndin hafði nauman tíma og ekki átt kost á skýrslum um þetta mál, þá sá hún sér ekki fært að vera með því að svo stöddu.

Hið sama er að segja um breyttill. 265 um fjárveiting til brúar á Bleikdalsá og viðaukatill. 254, er fer fram á fjárveitingar til brúa á Hölkná og Sandá. Þess má þó geta, að þetta kjördæmi, N.-Þing., hefir jafnan verið létt á landssjóði, eða kvabblítið með öðrum orðum. Þetta sparnaðarþing getur þó ekki lagt með þessari fjárveiting að svo stöddu, en gæti komið til mála síðar ef unt væri.

Breyttill. 281 (5) hefir lagt til, að bættir yrðu 2—3 kaflar á Vestfjarðabraut, þ. e. brautinni sunnan frá Norðurá í Norðurárdal vestur að Arngerðareyri. Þetta er geysilangur vegur og erfiður, og vildi nefndin ekki fara að káka við að leggja eitthvert lítilræði til smákafla af veginum, þótti hyggilegra að bíða þangað til meira fé væri hægt að veita, t. d. 20—30 þús.

Má vera að háttv. flutningsm. eða aðrir kunnugir hafi svo skýr rök að færa fyrir því, að ýmsar torfærur séu á þessari leið, er bráðnauðsynlegt væri að bæta úr; þá mætti auðvitað fallast á það við 3. umr. En að svo stöddu getur nefndin, er jafnan hefir sparnaðinn fyrir augum, ekki mælt með því.

Breyttill. 262 (2) fer fram á að veittar séu hvort árið 300 kr. til dragferjuhalds á Lagarfljóti. Meiri hluti nefndarinnar var á móti þessu, en ef glögg grein yrði gerð fyrir því, að þetta væri til stórbóta, þá mundi hún ekki verða því mótfallin.

Viðaukatill. 252 fer fram á 2000 kr. fjárveitingu til akvegar inn Svarfaðardal, gegn því að 4000 kr. að minsta kosti komi annarsstaðar frá. Þessi liður (29.) er nýmæli, sem stórmikið er í varið. Það er svo vaxið, að nokkrir sveitamenn, er hlut eiga hér að máli, hafa ásett sér að bæta þennan veg. Af 190 verkfærum mönnum í sveitinni hafa 120 boðist til að vinna sitt dagsverkið hver á ári, móti því, að þeir njóti þessa stuðnings frá landssjóði.

Þetta verð eg að segja að sé ánægjulegt. Í stað þess að hlaupa undir eins í landssjóð, framlagslaust frá sjálfum sér, bjóða þessir menn vinnu sína — með stuðningi landssjóðs. Líkt tilboð (í fjáraukal.) var frá Fljótshlíðingum. Þeir vildu leggja á sig svona vinnu gegn láni (5 þús. kr.)

Fyrir nokkrum árum kom fram till. frá sæmdarmanni, um að leggja þegnskylduvinnu á landsmenn; þessu var þá illa tekið, og maðurinn óvirtur í stað þess að hann átti lof skilið. Honum var ámælt í samföstu og sundurlausu máli, en það stafaði eingöngu af vanhyggju þeirra, er það gerðu. Tillagan var að minni hyggju bæði viturleg og þjóðræknisleg, sem kallað er. Mér er ánægja að minnast á þetta nú, af því að meðal annars hafði maður þessi, áður á þessu þingi, orðið fyrir ómildum ummælum frá mér, en þó réttmætum, út af öðru. Hann hefir haldið þessari tillögu fram í ræðu og riti, þrátt fyrir megna mótspyrnu. En það sem eg sagði þá, tek eg ekki aftur nú, af því að það er ekki níð, þótt sagt sé um mann, að hann hafi þá eða þá annmarka. Það er sjúkdómur, er í mínum augum gerði hann óhæfan í þá stöðu, er honum hafði verið trúað fyrir.

Þá er 40. liður á atkv.skrá. Þar fer breyttill. 265 fram á fjárveiting til símalagningar frá Keflavík að Kotvogi. Væri mér sönn ánægja að geta fallist á þessa till., með því að bæði er línan stutt og ódýr; liggur hún auk þess í veiðistöð, en eftir meginreglu nefndarinnar verður hún að leggja á móti því.

Viðaukatill. 263, fer fram á fjárveiting til talsíma frá Vatnsleysu í Skagafirði út í Siglufjörð (Siglufjarðarsíma), mót töluverðu tillagi úr sýslusjóði.

Nefndarmenn kannast við að æskilegt væri að geta orðið við þessum tilmælum, ekki sízt þar sem Skagafjörður hefir orðið útundan með samgöngubætur, einkum akbrautir. En nú er búið að leggja síma frá Akureyri út í Ólafsfjörð (við Siglufjörð), og virðist hentugra eða að minsta kosti miklu kostnaðarminna að halda honum áfram þaðan út á Siglufjörð.

En þá er sá galli á, að símasamband vantar um Höfðaströnd og Fljót, er ekki kæmust í neitt samband að heldur með þessu lagi.

Í nefndarálitinu er rökstudd breyt. á símaleiðinni milli Búðardals og Stykkishólms; það eru að eins 1—2 sveitir, er gagn hafa þar af símanum eins og ætlast er til í stjórnarfrumv. að hann liggi. En ef hann verður látinn liggja heldur sunnanfjalls frá Borgarnesi vestur Mýrar, þá mundu tekjurnar af honum verða miklu meiri.

Í sambandi við þetta atriði og Siglufjarðarsímann má geta þess, að í fjárlaganefndinni voru það fyrst 4 menn, þ. e. meiri hluti í nefndinni en síðar að eins 3, er vildu algerlega hætta við að heimta tillag frá héruðunum af góðum og gildum ástæðum. Síðan símalagningin kom um landið, hafa héruðin orðið mjög misjafnt úti, eftir því hvort þau liggja að meginæð símans milli Seyðisfjarðar og Reykjavíkur eða ekki.

Af öðrum héruðum hefir verið gert að reglu að heimta tillag (úr sýslusjóði), móts við eitthvað úr landssjóði. En það er ranglát byrði, sem gerir sýslufélögunum afarörðugt eða nær ókleyft að leggja nokkuð í annan kostnað og hann engu ónauðsynlegri nema framar sé.

Það sem móti þessu er haft, er í stuttu máli þetta: Ef ekki er farið þannig að, að krefjast tillaga frá sýslufélögunum, þá færi svo mikið fé til símalagningar, að landssjóður fengi ekki risið undir því.

Vitanlega yrði þeim, sem þegar hafa lagt til símalagningar, ekki endurgoldið tillag sitt, þeir hafa haft gagn af símanum á undan öðrum — og verða því að gjalda þess.

Nú segja menn, að með þessari tilhögun dembi þingið kröfum á fjárveitingavaldið, um símasamband í allar áttir í hvern hrepp.

En því svara eg á þann veg, að sömu aðferð megi hafa hér og við brúa- og vegagerð: að láta þau héruð mæta afganginum, þar sem þörfin er minst. Munurinn er þó sá, að á vegum má klöngrast, þótt þeir séu illir yfirferðar, annaðhvort Fótgangandi eða ríðandi. En símaleysi er ekki úr bætt fyr en síminn er kominn alla leið.

Þess vegna er einna réttast, að afgangi mæti þau annes landsins, þar sem minst verða notin af símanum.

Það væri ómissandi að hafa skrá yfir allar ólagðar símaleiðir á landinu, þá mætti velja úr, eftir því sem þörfin virtist brýnust og mest notin.

Um símana læt eg svo fulltalað.

En eftir er að minnast á vitana.

Stjórnin leggur til, að til fasts eftirlits með þeim séu veittar 2900 kr. fyrra árið og 2100 kr. síðara árið.

Nefndin átti tal við annan verkfræðing landsins um þetta, og eftir skýringum hans hyggur hann muni mega komast af með minna fé til þessa; varð niðurstaðan sú, að henni þótti hæfilegast að veita 1500 kr. til þess hvort árið. Hún hafði hugsað sér að hægt væri að fá til þessa skipstjóra, 1 eða fleiri, er til þess væru færir. Þetta virðist vel kleyft. Eða þá verkfræðingurinn tæki það sjálfur að sér.

Þá hefir nefndin stungið upp á að hafa aðra röð á vitunum í fjárlögunum, setja þá sólarsinnis kring um landið, en ekki af handahófi, og vona eg að háttv. þingm. sýni ekki það skriffinsku-þrá, að sjá þetta ekki í friði.