19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í B-deild Alþingistíðinda. (1017)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Jón Sigurðsson:

Hin háttv. fjárlaganefnd hefir lagt til í nefndaráliti sínu, að gufubátsferðastyrkurinn sé veittur allur í einu lagi, og að stjórninni sé svo falið að útbýta honum sem haganlegast. En eg hygg að nokkuð athugavert sé að láta stjórnina þannig eina öllu ráða um þær ferðir og tilhögun þessara samgangna. Að minsta kosti hafa þeir, sem tekið hafa og taka að sér slíkar ferðir, með því fyrirkomulagi sem nú er eitthvað meira ábyggilegra, meira að halda sér við.

Í fjárlagafrumvarpi stjórnarinnar er ætlast svo til, að varið verði 750 kr. til mótorbátsferða frá Borgarnesi upp eftir Hvítá. Fjárlaganefndin hefir lagt til að upphæð þessi falli burt og fæ eg eigi annað séð en að það sé óheppilega ráðið. En nefndinni hefir ekki verið kunnugar allar ástæður og því skal eg leyfa mér að skýra málið dálítið. Það er langt síðan það vakti fyrir mönnum að nota Hvítá til mótorbátsferða. Var það víst Andrés Fjeldsteð á Hvítárvöllum, er fyrstur vakti máls á því fyrir mörgum árum. Í fyrra var félag stofnað í því skyni, og 1907 fékk það 750 kr. styrk til fyrirtækisins og var þá keyptur bátur til þeirra ferða á ána, en hann fullnægði ekki þeim skilyrðum, sem staðhættir útheimtu. En þótt slík óhöpp hafi viljað til er samt ekki rétt að láta fyrirtækið fyrir það stranda. Það er ekki rétt að kæfa þær tilraunir í fæðingu, sem geta orðið héraðsbúum til svo mikilla framfara, og sem geta haft svo verulega þýðingu fyrir landið í heild sinni. Því hér er um nýtt spor að ræða, sem getur ef það heppnast haft mikla þýðingu fyrir þungavöruflutning þessa lands frá sjávarströndunum upp í landið. Til þess að ganga á grynningum og hörðu straumvatni, sem Hvítá, þarf sérstakan bát. Hann verður nokkuð dýr, svo að ekki er eðlilegt að einstakir menn geti kostað hann að öllu. Það er því ekki nema sanngjarnt, að það opinbera hlaupi undir bagga, og veiti hæfilegan styrk. Styrkinn mætti veita með þeim fyrirvara, að báturinn gengi langt upp eftir Hvítá, alla leið upp að Langholtsvaði að minsta kosti. Eg hefi ekkert á móti því, að fjárveitingin væri þannig einskorðuð, að landssjóður legði ekkert fram nema fyrirtækið reyndist svo gott, að menn sæju, að það ætti styrk skilið. Ef hugsjón þessi kemst í framkvæmd er stigið stórt framfaraspor, ný samgöngubraut opnuð, sem verða mun lífæð viðskifta og verzlunar héraðsbúa. Þá fyrst geta þeir með hægu móti sent vörur sínar á markaðinn, og aftur á móti fengið nauðsynjar sínar heim til sín án þess að þurfa að verja til þess löngum og dýrum tíma, þegar miklar annir kalla að.

Eg vona því, að háttv. deildarmenn taki máli þessu vel, og láti það ná fram að ganga.