19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í B-deild Alþingistíðinda. (1019)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Benedikt Sveinsson:

Eg hefi borið fram viðaukatill. á þgskj. 254 um að fé verði veitt til tveggja brúa í Þistilfirði, til brúar á Hölkná 4500 kr. og til brúar á Sandá 10000 kr. Vegna þess, að flestum virðul. þingm. mun vera ókunnugt um þessar slóðir, þykir mér hlýða, að gera grein fyrir því, hver nauðsyn liggur á þessu.

Þistilfjörður er víðlend sveit, ristur sundur að endilöngu af 5 ám, og mega fjórar kallast stórár, er þar falla til sævar ofan úr öræfum; valda þær hinum mestu torfærum í sveitinni, sem skilja má af því, að bygðin er slitin sundur. Ár þessar heita: Svalbarðsá, all-vatnsmikil á; Sandá, einna verst yfirferðar; Hölkná; Laxá, sú er hin vatnsminsta og Hafralónsá. Hin síðastnefnda á er vatnsmest, en hún fellur í lón og má þar fara á ferju, þótt hinar árnar séu bráð-ófærar.

Þessar tvær ár, sem eg hefi nú farið fram á, að brúa skyldi, eru oft tímunum saman öllum ófærar yfirferðar, nema fugli fljúganda, bæði í vorleysingum og haustrigningum; þær eru grýttar mjög og straumharðar. Ferjum verður þar ekki við komið og verður því að sæta lagi til að komast yfir þær við ósana, en það er oft torvelt, því að lending er erfið, nema dauður sé sjór. Auk þess er kostnaðarsamt að nota báta, því að bygð liggur all-langt frá sjó. Enn er það, að árnar leggur seint á vetrum vegna straumhörku. Þær fyllast krapi og eru þá hverri skepnu ófærar með öllu.

Þetta mál hefir lengi verið á dagskrá héraðsbúa og er eitt af þeirra mestu áhugamálum. Eg hefi hér í höndum, meðal annara skjala um þetta mál, bréf frá póstinum, sem fer milli Vopnafjarðar og Öxarfjarðar. — Þar telur hann ár þessar einn hinn versta farartálma á sinni leið og lýsir þeim á sama hátt, sem eg hefi nú gert. Kveðst hann dögum saman verða að bíða við árnar oftsinnis og lýsir töfum og kostnaði, sem af því hlýtst.

Þá er og þess að geta, að bygðarmenn eiga yfir árnar að sækja í kaupstaðinn, Þórshöfn. Slíkt hið sama verða og Þistilfirðingar og Sléttumenn að sækja lækni til Þórshafnar, og er auðsætt, hvílíkt mein þeim er að því, að geta ekki, ef svo ber undir, vitjað læknisins, þótt líf liggi við.

Svo sem eg gat um, hefir þetta mál lengi verið á dagskrá héraðsbúa og er vel undirbúið, þótt ekki hafi komið beiðni um það til alþingis fyr en nú, að því er eg ætla. Landstjórnin hefir viðurkent, að þessa væri nauðsyn, og látið verkfræðing landsins, er áður var, herra Sigurð Thoroddsen, rannsaka brúarstæði á þessum ám. Hann hefir gert áætlun um brýrnar og uppdrætti; þetta er nú ekki við hendina, heldur hjá sýslumanninum í Þingeyjarsýslu. En upphæðirnar eru teknar samkvæmt þessum áætlunum og eru hafðar eins og þar. Sigurður Thoroddsen hefir lagt til, að hafa trébrýr, enda mun það bæði ódýrra og hentara vegna staðhátta, en að hafa steinsteypubrýr, því að á þessu svæði verður oft vart við landskjálfta. Á því máli er og núverandi verkfræðingur landsins, að varúðarvert sé að hafa steinbrýr yfir ár í þeim héruðum landsins, þar sem hættast er við landskjálftum.

Sýslunefndin í Norður-Þingeyjarsýslu hefir haft málið til meðferðar og skrifað stjórnarráðinu um, að veitt yrði sem fyrst fé til þess, að brúa þessar ár. Þær er og tiltölulega ódýrt að brúa; önnur fellur í gljúfrum, þar sem brúarstæðið er fyrirhugað; að hinni liggur öðru megin klöpp, en hinum megin grjóteyri.

Eg skal ekki fara fleiri orðum um nauðsyn þessara brúa, en jafnframt því, sem eg óska, að þetta mál verði tekið til greina, vil eg benda háttv. þingd. á það, að ekki hefir komið úr mínu kjördæmi nokkur fjárbeiðni á þetta þing önnur en þessi. Þaðan hefir hvorki verið beðið um vegi né síma; ekki hefir þaðan heldur verið beiðst, að stofna ný prestaköll né læknishéruð, og ekki heldur fjárbeiðni frá nokkrum einstökum manni. Því vænti eg, að háttv. þingd. taki þessu áhugamáli héraðsins með sanngirni.