19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Jón Jónsson (1. þm. N.-M.):

Eg tel það vel farið, að atkvæðagreiðsla um þennan kafla fjárl. fór ekki fram í gærkveldi. Breyt.till. komu svo seint, að þingmenn hafa ekki getað áttað sig á þeim fyr en á þessum tíma, sem liðinn er frá fundinum í gær. Nú hafa þm. nokkuð getað áttað sig.

Hér hafa ýmsir tekið til máls og talað vel fyrir þeim tillögum sínum, sem þeim er ant um. En eg vil nú líta alment á þessar breyt.till. Eg gerði fljótlegt yfirlit yfir allar breyt.till. við 13. gr. í gærkveldi og taldist mér svo til, að aukning útgjaldanna í þeirri grein næmi um 144 þús. kr. samkvæmt breyt.till. Þetta þykir mér nokkuð mikið og varla rétt, að hleypa öllu þessu í gegn við þessa 2. umr., því að þótt fjárlögin eigi eftir hreinsunareld, þá verður þó að gæta hófs við hverja umræðu sem er. Eg sé ekki betur, en að fella verði einhverjar þessar breyt.till.

Eg vil í þessu sambandi leyfa mér, að minnast nokkuð á málefni, sem að vísu liggja þó ekki fyrir hér. Á okkur þm. N.-Múl. var skorað, að flytja við þingið fjárbeiðslu til símalagningar frá Egilsstöðum til Borgarfjarðar, en við höfum ekki komið með það mál á þingið af því, að við vildum gæta hófs, þótt vér hins vegar teldum nauðsyn all-mikla liggja til þessarar beiðni. Svo er um fleira; vér höfum stungið mörgum fjárbeiðslum undir stól, telst mér þær nema alls um 60 þús. kr. úr Múlasýslum, sem þann veg hafa verið dysjaðar. Okkur verður því ekki brugðið um frekju. Nokkrar breyt.till. eigum við þó hér og þeim munum við fylgja fast fram, enda væntum við, að þær verði teknar til greina. Aðra þeirra hefir fjárlaganefndin fallist á, sem sé 2000 króna fjárveiting til Breiðdalsvegarins, en hinni, 600 kr. til dragferju á Lagarfljóti, hefir bæði nefndin tekið svo vel og háttv. þm. Sfjk. (B. Þ.) talað svo skörulega fyrir, að eg efa ekki, að hún nái fram að ganga.