19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (1022)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Sigurður Sigurðsson:

Eg vil leyfa mér að vekja athygli á einni af breyt.-till. á þgskj. 281 frá háttv. þm. Dalam. (B. J.), sem fer fram á að fella í burtu fjárframlög héraða til símanna. Þetta mál var einmitt rætt mjög mikið í fjárlaganefnd, en eins og hv. framsm. hennar (B. J.) tók fram í gær, þá hefir fjárlaganefndin ekki slegið neinu föstu um það, hvað hún leggur til í þessu efni.

Fjárlaganefnd fól mér að tala við símastjóra Forberg um símamálið og hann skrifaði nefndinni aftur langt og ítarlegt skjal með till. sínum, sem nefndin hefir enn ekki fengið ráðrúm til að ræða eða taka ákvörðun um. Eg vildi því leyfa mér að óska að breyt.till. yrði tekin aftur, og að ekkert yrði sþ. hér að lútandi fyr en nefndin hefir fengið tíma til að kynna sér skýrslu og álit símastjórans.

Eg er samdóma því, og hefi haldið því fram, bæði áður fyr og nú í fjárlaganefnd, að eigi sé rétt eða sanngjarnt að heimta eða krefjast tillags frá héruðunum til þeirra lína, er tengdu hérað við hérað og héruðin við höfuðlínuna. Það eru línur, er eiga að teljast aðallínur, og þær línur er landssjóður skyldur til að kosta að öllu leyti. Það er ósanngjarnt, að krefjast stórra fjárframlaga frá sumum héruðum, þar sem önnur sleppa svo að segja af tómri tilviljun við að greiða nokkuð til símalína.

En hvað eru aðallínur og hvað aukalínur? Um það er enn ekkert ákveðið; en eg skildi fjárlaganefndina þannig, að hún mundi, ef til vill, ætla sér að koma fram með ákveðnar till. í þá átt. Málið er vandamál, sem ekki má hrapa að í hugsunarleysi.

Ef till. hv. þingm. Dalam. (B. J.) verður samþ. mætti líta svo á, að landssjóður væri skyldugur til að kosta allar línur, hverju nafni sem þær nefnast og hvert sem þær liggja á landinu. Eg fyrir mitt leyti álít það heppilegri leið, eins og eg tók fram áðan, að búið væri til »plan« yfir alla þá síma, sem leggja ætti á næstu árum og teknar ákvarðanir um það, hvaða símalínur landssjóður ætti að kosta eingöngu, og til hverra ætti að heimta sýsluframlög. Ef þessi leið væri farin, tel eg sjálfsagt, að síminn frá Borðeyri til Búðardals yrði einn af þeim, sem landssjóður kostaði að öllu leyti. En eg veit, að það verður erfitt og vandasamt verk að meta það, hvað séu aðalsímalínur og aukalínur, eða hvaða síma landssjóðurinn á að kosta og til hvaða síma á að heimta framlög úr héruðunum. Sumir hafa bent á það, að landssjóður ætti þá að kosta allar línur, sem lægju frá einhverju aðalkauptúni í héruðunum og tengdu það við Reykjavík t. d. að síminn frá Húsavík til Einarsstaða væri þá landssjóðssími. Sama er að segja um símalínuna úr Reykjavík austur á Eyrarbakka og fleiri línur, er líkt stendur á með. Eg get því hugsað mér, að háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) verði með því að þessi vegur yrði farinn, þar sem hann þarf að fá síma frá Ísafirði til Bolungarvíkur.

Af þessum ástæðum hefði eg helzt óskað þess, að háttv. þm. Dalam. (B. J.) tæki till. sína aftur, en honum er sárt um hana og vill ekki gera það, og hlýt eg þá að greiða atkv. á móti henni. Verði till. samþ., þá er þar með að mínu áliti tekin stefnubreyting í málinu. En eg tel mjög varhugavert að gera það nú við þessa umr. fjárlaganna, og álít að málið þurfi að athugast miklu betur, áður en slíkt er gert.

Eg vil einnig benda á það, að ef till. háttv. þingm. Dalam. (B. J.) nær fram að ganga, þá hlýtur símalínan frá Vatnsleysu til Siglufjarðar að komast undir þetta og verða kostuð að öllu leyti af landssjóði. Eg álít það því hið mesta fljótræði að samþ. till. að svo vöxnu máli.

Áður en eg sezt niður, þá vil eg leyfa mér að minnast á 2 atriði, sem hvorugt snertir þó mitt kjördæmi. — Annað þeirra er Rangárbrúin. Eg get ekki betur séð, en að sumt af því, sem sagt hefir verið um hana sé rangt. Það er t. d. leiðinlegt að kalla hana »luxus«, það er alls ekki rétt. Mín skoðun er sú, að nú liggi næst að brúa Rangá, og að hún eigi að ganga fyrir öðrum ám til brúargerðar, þeirra, sem nú liggur við borð að brúa. Rangá bar að brúa næst á eftir Fnjóská. — Þótt áin sé bergvatn, þá er hún eigi að síður vatnsmikil og ill yfirferðar, og til mjög mikillar hindrunar fyrir samgöngur. Eg mun því greiða atkv. með því að brúin verði tekin upp á fjárlögin síðara árið.

Hitt atriðið, sem eg vildi minnast á er breyt.till. háttv. 1. þingm. G.-K. (B. Kr.). Þar er farið fram á það, að tillagið frá Gullbringusýslu til vegarins frá Hafnarfirði suður að Vogastapa sé lækkað niður í ?, í stað þess sem áður hefir verið ákveðið, að það ætti að vera helmingur á móts við fjárframlagið úr landssjóði. Eg sé nú enga ástæðu til að lækka þetta tillag, og mun því greiða atkvæði á móti þessari br. till.