19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í B-deild Alþingistíðinda. (1031)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Einar Jónsson:

Eg hygg, að háttv. þingd. hafi annað þarfara að þvæla um en þetta. Eg get þó ekki orða bundizt að svara háttv 1. þm. G.-K. (R. Kr.), því að allt, sem hann sagði, um þetta mál, lýsti sér í því að hann er ókunnugur. Eg get sagt honum það, að það er alls ekki meiningin, að hafa brýr á þessi 4 vatnsföll nú strax, sem hann taldi upp. Hér er um það eitt að ræða að fá brú á Ytri-Rangá. Hann sagði, að ef brú væri lögð á þá á, þá tæki við á eftir Selalækur, Eystri-Rangá og Þverá. Nú mætti hinn háttv. þm. skilja það, að þetta eru engin endimörk. Fyrir austan Þverá tekur við Affall, síðan Markarfljót og þá Jökulsá á Sólheimasandi. Svona má fara austur úr öllu, engin takmörk eru þar sett. Það er því af megnasta ókunnugleik talað að segja, að af þessari brú einni hljótist það að brúa verði 3 vötn, því að þar eru engin takmörk sett. En þótt svo væri, tel eg fyrir mitt leyti ómögulegt að brúa á eins og Þverá. Hitt er víst, að Selalæk og Eystri-Rangá þarf líka að brúa, áður langt líður, en í þetta sinn er ekki verið að biðja um það.

Hinn sami háttv. þm. hafði það eftir heimildarmanni sínum, austanpóstinum, að Selalækur væri fullt eins mikill farartálmi og Rangá. Þetta nær ekki nokkurri átt í eyru kunnugra manna. Vatnsmagn Selalækjar er ekki meira en ?io á við Rangá, botninn margfalt betri og breiddin ekki ?io af ánni. Sami háttv. þm. hafði það og eftir póstinum, að illt væri að komast yfir Selalæk á vetrum. Það er líka svo oft og einatt, en yfir Selalæk má allt af komast einhverstaðar, því að þótt hann sé ófær að neðan, má ætíð komast yfir hann ofar. Aftur á móti er Rangá oft ófær milli fjalls og fjöru. Eg kalla heimildarmann hins háttv. þm., póstinn, heppinn, ef hann hefir ekki þurft að tefjast meira en svarar einum degi við Ytri-Rangá. Mér er kunnugt um það, að oft hafa hópar tafist við ána beggja megin dögunum saman.

Hinn háttv. þm. var að tala um svifferjur í þessu sambandi. Eg verð að játa það, að eg er ekki kunnugur því fyrirkomulagi, en eg get hugsað mér, að það verði örðugt á svo breiðu svæði sem Rangá er, þótt það kunni að henta í mjórri vötnum;

Eg má fullyrða það við hinn háttv. þm. (B. Kr.), að Rángæingar munu vera ánægðir, þótt að eins Ytri-Rangá sé brúuð, í þetta sinn, en hin vatnsföllin 3, sem hann nefndi, séu skilin ettir fyrst um sinn. Þessi brú er hið mesta hagræði fyrir sýsluna, eins og margoft hefur verið sýnt fram á, en einkum er það þó rjómabúunum til gagns, að þessi brú kæmist á, þau hafa hennar mikil not. Eitt þeirra getur þá látið sinn vagn ganga alla leið, en hin þurfa þá ekki að flytja það lengra en að Eystri-Rangá.

Alt það, sem hinn háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) sagði, stafar af misskilningi og ókunnugleika, eins og allt það, sem haft hefir verið á móti þessari brú, ef ekki öðru verra er til að dreifa.