19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í B-deild Alþingistíðinda. (1034)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Björn Sigfússon:

Eg vildi helzt geta komist hjá að lengja umr., en verð þó að gera nokkrar athugasemdir, með fram af því að framsm. (B. J.) var ekki við, þegar talað var um Hafnarfjarðarvitann. Eg get skýrt frá því, hvers vegna fjárlaganefndin feldi burt gjald til vitagæzlunnar síðara árið. Hv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) gat þess, að þegar um kaupstaði væri að ræða, þá stæðu þeir sjálfir straum af þessum kostnaði.

Þetta er alveg rétt. En af því Hafnarfjörður er alveg nýbúinn að öðlast kaupstaðarréttindi, og vitagjald það, sem bærinn hefir yfir að ráða, svo lítið enn, þá þótti fjárlaganefnd rétt að fallast á gjaldið fyrra árið, en fella það síðara árið.

Út af ummælum háttv. þingm. Rangv. (E. P., E. J.) skal eg láta í ljósi afstöðu mína um Rangárbrúna, sem annars er búið að tala helzt til mikið um. Það leynir sér ekki, að þeir tala meira af hita og kappi en sanngirni um þetta mál. Þeir hljóta að sjá, að ómögulegt er að fullnægja öllu því sem þörf væri þó á. Vandinn er að vinsa það úr, sem nauðsynlegast er.

Eg fæ ekki betur séð, en að þeir séu mjög þröngsýnir í þessu efni og mér finst að sjóndeildarhringur þeirra nái ekki út fyrir Rangárvallasýslu. Það mætti færa miklu veigameiri ástæður fyrir þörf á þess konar fyrirtækjum víðsvegar á landinu, en þeir hafa gert.

Eg hefi reynt að kynna mér, hvort brýn þörf væri á þessari brú, en ekki getað sannfærst um það. Ef mér hefði virst svo, þá mundi eg hafa verið þessu meðmæltur. En mér virðist þörfin víða annarsstaðar miklu brýnni.

Það er svo víða á landinu, að ekki er hægt að aka yfir ár, og þó dettur engum í hug að alstaðar verði bætt úr því í bráð með dýrum brúm. Þeir ættu að geta séð, að þetta eru almennir erfiðleikar, nær því um land alt.

Eftir lýsingu háttv. þingm. Rangv. (E, P., E. J.) sjálfra, sem þó er öfgafull, er auðséð að hingað og þangað á Íslandi eru óbrúuð vatnsföll, sem eru miklu verri torfærur en Ytri-Rangá.

Háttv. 1. þgm. G.-K. (B. Kr.) gaf mjög skýra bending um, að ef til vill mætti nota svifferju á ánni. Í sambandi við það vil eg geta þess, að mér virðist einmitt mjög líklegt að á þessari á, sem er nokkuð djúp en lygn, muni vera sérstaklega hentugt og miklu ódýrara að hafa góða svifferju. Slíkt hið sama á sennilega við um Þverá, sem mönnum virðist koma saman um að ekki sé unt að brúa. Þannig hefir lengi verið notuð með bezta árangri svifferja á Héraðsvötnum í Skagafirði, þó er hún ekki nærri eins fullkomin eins og hv. 1. þgm. G.-K. skýrði fyrir deildinni að slíkar ferjur geti verið. Eg hefi oft farið yfir þau vötn í svifferju, og séð með eigin augum, hvað það er mikil samgöngubót. Menn ríða út í ferjuna og upp úr henni og hafa með sér hesta með fullum áburði.

Væri nú sett nokkru fullkomnari svifferja á Rangá og helzt Þverá líka, svo fullkomin að hafa mætti í þeim vagna, þá væri þessum vandræðum létt af. Báðar árnar sama sem brúaðar fyrir margfalt minna fé en brúin á Rangá kostar ein.

Þetta er sannarlega þess vert að það sé athugað og rannsakað vel. Þgm. Rangv. ættu ekki síður en aðrir, að gæta þess að við verðum að sníða okkur stakk eftir vexti, og þeir eiga að vera svo sanngjarnir að líta á þetta mál, eins og það væri einhversstaðar annarsstaðar á landinu, en ekki að taka það einhliða með ofsa og illkvitni í þeirra garð, sem líta öðruvísi á málið. Rangá er líka einmitt mjög vel löguð fyrir svifferjur, hún er lygn, en það er einmitt erfiðast að koma svifferjum við á straumharðar ár, og þótt Rangá sé breið, þá gerir það ekkert til, það er hreinasti misskilningur að álíta, að það sé til hindrunar fyrir svifferjur.

Þetta sem eg nú hefi sagt, veldur því að eg get ekki greitt atkv. með brú að svo stöddu.

Formælendur þessa máls gera mikið úr því, hvað erfitt sé að flytja smérkvartél á hestum. Eg þekki það vel, það á sér stað víðar en hér, en hverjum manni getur dottið í hug að hægt sé að brúa nú þegar allar ár, sem þarf að flytja smjörkvartél yfir og laga alla vegi, svo að hægt sé að aka smérinu alstaðar í kaupstaðina, nei, menn verða að hafa þolinmæði og heimta ekki alt í einu.

Mér þykir það leiðinlegt, hvað hv. þgm. Rangv. eru þröngsýnir í þessu máli, sem líklega stafar af því, að þeim er ókunnugt um það, hvernig annarsstaðar hagar til, og eg er sannfærður um það, að þeir mundu flytja málið með meiri sanngirni, ef þeir þektu kringumstæðurnar betur hér á landi en þeir gera.

Eg þykist með þessum orðum hafa gert grein fyrir atkv. mínu, og eg ber engan kinnroða fyrir það, þótt eg verði að greiða atkv. á móti brúnni að svo stöddu.