19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í B-deild Alþingistíðinda. (1036)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

1036Framsögumaður (Björn Jónsson):

Eg hygg, að spara hefði mátt sér 2 klukkustunda umræður um Rangárbrúna. Það er svo algengt, að þm. reyni, að ná sér í einhverja fjárhæð, hver handa sínu kjördæmi, til þess að koma sér vel við kjósendur, að það er vissulega engin sönnun í þessu máli, þótt þingmenn Rangæinga berjist fyrir því með miklu kappi. Eg hygg, að sú ein ástæða sé nægileg gegn málinu, að eins og kunnugt er, þá hefir það verið á dagskrá meiri hlutans á síðustu þingum, og hann vildi sannarlega gera alt fyrir sinn flokk, sem hann gat gert; meiri hlutanum er tjáð það á þingunum 1905—7, að á þessu máli leiki endurkosning þingmanna flokksins og hann sárbeðinn um þetta. Hvað gerir meiri hlutinn, sem þá var? Synjar um það, þverneitar um það! Þarf þá frekara vitnanna við? Látum háttv. þingmenn Rangæinga spara sér allar fortölur. Flokkurinn segir: Eg vil gera alt, sem auðið er fyrir ykkur, en að taka það í mál, að láta brúna ganga á undan mörgu öðru, sem er nauðsynlegra, það getum við ekki, það verður ekki varið.

Háttv. formælendur þessa máls fara nú fram á það, að meiri hlutinn, sem nú er, veiti þeim það, sem meiri hl. undanfarandi þinga gat ekki og vildi ekki veita. Það er sannarlega hart, ef meirihl. nú á að fara að veita það, sem neitað hefir verið um þing eftir þing, að undanförnu, af meirihlutanum, sem þá var, en er nú orðinn í minni hluta.

Eg vil segja háttv. flutningsmönnum þessa máls, að það er meira en lítið bíræfið af þeim, að fara fram á þetta, og það er hreinasti misskilningur, ef þeir halda, að eftir marg-ítrekað hryggbrot hjá meiri hluta undanfarandi þinga, að þeir muni vinna sitt mál með frekju og ofstopa og með því að beita illyrðum meirihl., sem nú er, — því eg kalla það illyrði, að nefna meirihl. skynlaus dýr, er láti teyma sig hvert sem vill. Eg vil ráða þeim frá því, að hafa slíkan gauragang og benda þeim á, að sneiða sem mest hjá slíkum ummælum eftirleiðis.

Eg skal annars fara sem fæstum orðum um þennan kafla 13. greinar. Eg vil að eins minnast á með mikilli viðurkenningu á ræðu háttv. þingm. S.-Þing. (P. J.). Hún var mikilsverð og mikið á henni að græða, þótt eg ekki geti verið honum samdóma, að öllu leyti.

Eg býst við, að atkvæðagreiðslan breytist ekki fyrir það, sem eg hef að segja; þingm. munu hafa ráðið við sig til fulls, hvernig þeir greiða atkvæði. Eg vil þó leyfa mér, að minnast á eitt atriði, sem sé Stykkishólms talsímann. Fjárlaganefndin er ekki búin að ráða fram úr því að fullu, hvað hún gerir í því efni. Það er sá hængur á, að leggja þennan síma sunnanfjalls um Mýrar og Hnappadal, að þá verður ekki hægt að nota Borðeyri fyrir sambandsstöð til Reykjavíkur m. m.

Héraðatillög til símanna tel eg ranglæti og ójöfnuð. Eg kalla það ranglæti, að láta héruð gjalda þess, að þau liggja ekki í leið meginsímans milli Seyðisfjarðar og Reykjavíkur. Fjárveitingarvaldið segir við það og það hérað: Þú fær ekki síma nema þú leggir svo og svo mikið fé til hans. Þetta er bygt á þeirri röngu skoðun, að símalagningin um héraðið sé gerð fyrir það eingöngu eða þá aðallega. Hún er gerð fyrir alt landið, því það er alt landið, sem hefir gagn af símanum hvar sem er, meira og minna og á því að bera kostnaðinn.