19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í B-deild Alþingistíðinda. (1037)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Jón Ólafsson:

Eg ætlaði ekki að standa aftur upp, en ummæli háttv. framsm. fjárl.n. knúðu mig til þess; þau voru svo ósanngjörn — að eg ekki segi ósvífin — í garð háttv. þingm. Rangv., sem báðir eru dauðir við þessa umr. (Björn Jónsson: Tók ekki eftir því), að eg er hissa á því, að forseti skuli ekki hringja klukkunni. Þessi maður, sem nú ætlar að fara að taka við völdunum, kallar háttv. þingm. Rangv. frekju- og ofstopamenn og ber þeim á brýn, að þeir viðhafi bíræfni og gauragang, og þó þarf ekki annað, en að lesa þingtíðindin frá seinasta þingi, til þess að sjá, að það eru ósannindi, sem hann fer með — að eg ekki segi lýgi eins og háttv. þingm. — Væri eg ekki vandari að munni mínum, en hann er, þá gæti eg eins vel sagt, að þingin 1905 og 1907 hefðu heitið Rangæingum brúnni. Á þingtíðindunum má sjá, að þingið var fúst til að veita féð, og það eitt stóð á, að ágreindi um brúarstæðið, og einmitt á seinasta þingi lá fyrir beiðni frá hv. 1. þm. Rangv. (E. P.) um, að fresta málinu, til þess að geta fengið brúna á betri stað. Eg vil leyfa mér að segja, að þetta eru bíræfni og ósannindi, sem háttv. framsm. fjárlaganefndarinnar sagði um þetta mál, því þótt fjárlaganefndin veitti strax þetta fé, þá var það að eins í samræmi við það, sem ætlast var til á undanfarandi þingum.

Þá vil eg leyfa mér að segja, að það séu einnig ósannindi, sem kastað var fram af háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), að brúarmálið hefði verið haft sem kosningarrógur gegn Sigurði í Helli og sagt, að hann vildi hafa brúna á neðra brúarstæðinu. í hverju getur þessi kosningarrógur verið fólginn, þegar hann einmitt sjálfur skrifaði þetta í hvern hrepp í sýslunni. Þetta er því sannarlega bíræfin ósannindi líka og með öllu ósæmilegt, að fara með þetta inn á þingið.

Eg hef staðið upp til þess, að bera blak af þessum háttv. þm., sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér, og til þess að sýna fram á, hvaða tilhæfulausum ósannindum hefir verið kastað hér fram í málinu.