20.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Jón Jónsson (l. þm. S.-Múl.):

Út af ummælum hins háttv. framsögumanns (B. J.), þar sem hann rengdi þá frásögn 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) að 1. þm. Rangv. (E. P.) hefði óskað þess 1907 að brúnni á Rangá yrði frestað, þar sem sýslubúar eigi voru á eitt mál sáttir, hvar hún skyldi vera, þá skal eg bera þess vitni, að það var einmitt 1. þm. Rangv. (E. P.) sem óskaði, að málinu yrði frestað til þess, að brúarstæðið yrði rannsakað betur. Og var þá lofað, að veita skyldi fé til fyrirtækisins á fjáraukalögunum. Það loforð var gefið með ómótmæltri yfirlýsingu framsögumanna í fjárlögunum í báðum deildum.

Eg verð að telja það óheppilegt og ógætilegt, ef það verður ofan á að síðari þing haldi ekki loforð fyrri þinga. Slíkt væri til að óvirða alþingi og rýra sæmd þess; en til þess vill vonandi enginn þingmaður stofna.