20.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í B-deild Alþingistíðinda. (1041)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Magnús Blöndahl:

Eg vil ekki láta umr. um 14. gr. ganga svo fram hjá, að till. hv. fjárlaganefndar gangi mótmælalaust í gegn. A eg þar sérstaklega við till. hennar um fjárveiting til kvennaskólans í Reykjavík. Stjórnin hefir farið fram á 7000 kr. fjárveitingu til skólans og hefir rökstutt þá till. allgreinilega í athugasemdunum aftan við fjárlagafrumv. Stjórnin hefir sýnt ljóslega, að skólinn getur ekki lifað með minni styrk en fram á er farið í frv. Eg þykist vita, að fyrir háttv. fjárlaganefnd hafi vakað að spara fé landssjóðs. Það er aldrei nema lofsvert að fylgja þeirri meginreglu. En þessi sparnaður við skólann dregur þann dilk á eftir sér, að skólinn verður alveg ómögulegur. Það hygg eg þó ekki að verið hafi tilætlun háttv. fjárlaganefndar. Eftir ummælum og undirtektum allra landsmanna er það sjálfsögð sanngirniskrafa að styðja að mentun kvenna ekki síður en karla. Eg þykist vita, að háttv. fjárlaganefnd sé á sömu skoðun. En þá hefði hún átt að sýna það meira á borði en í orði. Það þarf ekki annað en að lesa aths. um þennan lið aftan við frumv. til þess að ganga úr skugga um það, að ef breyt.till. nefndarinnar nær fram að ganga, er það sama sem að sálga skólanum, eða að minsta kosti gera honum ómögulegt að ná tilgangi sínum, þótt hann kunni að tóra.

Það má vera að hin háttv. nefnd hafi hugsað sér, að skólanum bættist styrkur á annan hátt; eg veit ekki um það; það mun væntanlega koma í ljós við umr.

Eins og háttv. nefnd og þingd. mun vera kunnugt, er meiningin sú að skólinn væri húsmæðraskóli með heimavistum jafnframt því sem hann verður kvennaskóli. Nú er verið að koma upp húsi handa þessum skóla, sem skólinn ætlar að leigja. En leigan er svo há, að ekki er viðlit til, að skólinn komist af með minna en þessa upphæð, 7000 kr. Eg þykist vita, að hin háttv. þingd. athugi það, að hér er um heimavistarskóla að ræða; skólinn verður heimili námsmeyjanna; þar fá þær fæði og allar nauðsynjar. Á það er að líta, að skólinn er ekki eingöngu fyrir þennan bæ, heldur, og það miklu fremur fyrir alt landið.

Af þessu, sem eg hefi nú tilfært, vona eg, að háttv. þingd. samþ. liðinn eins og hann er í stjórnarfrumv., en felli breyt.till. nefndarinnar, og hefi eg ekki að svo stöddu meira að segja um þetta mál.