20.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í B-deild Alþingistíðinda. (1043)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Björn Kristjánsson:

Það eru að eins örfáar aths., sem eg þarf að gera við umr. þessara gr. fjárlaganna. Eg á hér breyt.till. á þgskj. 265 um það, að umsjónarmaður fræðslumálanna verði kallaður ráðunautur í fjárlögunum. Mér er að vísu ekki neitt kappsmál að þessi till. verði samþ„ en betur kann eg við það nafn, því að það bendir betur til starfssviðs þess, sem hann ætti að hafa á hendi. Eg hefi orðið þess var, að út í frá halda margir, að hann hafi meira vald en hann hefir, og er það beint vegna nafnsins. Menn snúa sér nú beint til hans, ekki sem ráðunauts stjórnarinnar, heldur sem ráðherra yfir fræðslumálum, sem lögin um fræðslumál munu þó ekki ætlast til að hann sé. Þótt hann sé kallaður umsjónarmaður í fræðslulögunum, þá er það ekki svo að skilja, að það sé nokkurt fast nafn, sem gefi honum úrslitavald í öllum fræðslumála-ágreiningi, heldur er það að eins valið af handahófi til þess að láta það eitthvað heita.

Enn á eg breyt.till. á þgskj. 265 um að styrkur til Flensborgarskólans verði hækkaður úr 3500 kr. í 7200. Ástæður fyrir þessari breyt.till. eru ýms skjöl frá borgarstjóranum, sem nú er hér, og stjórnarnefnd skólans. Eins og kunnugt er, var skóli þessi stofnaður fyrir rausnarlega gjöf látins merkismanns, síra Þórarins Böðvarssonar, og er því orðinn all-gamall. Skólinn hefir alla tíð notið almennra vinsælda og frá honum hafa komið margir nýtir menn. Skólinn hefir að vísu ætíð verið privatskóli og haft því sérstaka stjórn, en þó verið háður eftirliti landsstjórnarinnar, eins og gjafabréfið gerir ráð fyrir og reglugerðin fyrir skólann. En hann hefir ætíð notið styrks af landssjóði og skoðaður af þingi sem opinber stofnun, enda er hann það í raun og veru, því að tekjur af eignum hans eru að eins 200 kr. á ári og segir það sig sjálft, að það hrekkur ekki langt nú. Mér finst líka, að þingið geti ekki kipt að sér hendinni nú, þegar hvaðanæva er krafizt meiri mentunar, ekki hvað sízt mentun unglinga, sem eg fyrir mitt leyti tel einkarholla stefnu, og þessi skóli er einmitt nánast unglingaskóli. Stjórnin hefir stungið upp á 3500 kr. til skólans, en það er alsendis ónógt. Kostnaður við skólann er samtals auk kennaralauna, 3565 kr. Þar af er til áhalda 200 kr., afborgun og vextir 1865 kr., viðhald skólans 300 kr., brunabótagjald 200 kr., eldiviður og ljós 400 kr., ræsting 300 kr., heimavistir 300 kr.

Þessi útgjöld eru flest alt af hér um bil jöfn, hvort 20 sækja skólann eða 80, eins og nú er, og sum af gjöldunum jöfn, þó enginn sæki skólann. Á skólanum voru í vetur 79 nemendur, en um hann sóttu 84. Fleiri var ekki hægt að taka. Af því að nemendur voru svo margir varð að hafa 3 deildir og bæta við einum kennara. Laun þeirra eru 1700, 1200 og 1000 kr. Öll útgjöld við skólann verða því 7465 kr.; þar frá dregst 200 kr., sem er tekjur af eign skólans; verða þá 7265 kr., sem skólinn þarf að fá annarsstaðar að. Eg hefi þó ekki farið fram á nema 7200 kr. Eg skal í sambandi við þetta með leyfi hæstv. forseta lesa upp kafla úr bréfi borgarstjórans um þetta mál. Þar segir svo: »Verði skólanum ekki veitt meiri fjárupphæð en þetta, er ekki annað fyrir hendi en að leggja skólann niður. Í nefndu bréfi til stjórnarráðsins, sem væntanlega hefir verið sent alþingi, er ítarleg grein gerð fyrir, hvað reksturkostnaður skólans getur orðið minstur á næstu 2 árum, og kemur oss því mjög óvart, að tillagið til þessa skóla eins skuli hafa verið fært niður á fjárlagafrumv. Þar sem tillagið til allra annara alþýðuskóla, hvort heldur þeir eru eign hins opinbera eða einstakra manna, hefir verið hækkað og sumra að miklum mun, þá mun aðsókn og eftirspurn að Flensborgarskólanum vera meiri en eftir nokkrum öðrum skóla landsins«.

Eg hefi séð nefndarálit nefndarinnar í skólamálum úr háttv. Ed. á þgskj. 223. Eg vil benda háttv. þm. á að lesa það, því að þar er gert ráð fyrir, að skólinn lifi og haldi áfram sama starfi sem að undanförnu. Það skiftir ekki miklu, hvað skólinn er nefndur né hvaða kenslureglum hann fylgir, ef tilganginum er náð: að fræða alþýðu.

Það má auðvitað segja við hvern skóla sem er: Þið fáið ekki meira en þetta. Þið getið vísað helmingnum af umsækjendunum frá. En það getur orðið til þess að drepa hvern skóla, ef féð er svo lítið, að synja verði helmingi þeirra, er sækja um inntöku, um skólann. Afleiðingin getur auðveldlega orðið sú, að menn hætti að sækja um inngöngu á skólann, þegar það reynist svo oft þýðingarlaust.

Eg vil benda á það, að á síðasta þingi var skólanum ætlað 7800 kr. um árið; þá var nemendafjöldinn hinn sami, en kennaraskólinn í sambandi, sem síðan hefir til allrar óhamingju verið slitinn frá. Í samband við þetta skal eg benda á, að Akureyrarskólinn hefir 12,500 kr. á ári og auk þess á fjáraukalögum nú 5900 kr. eða samtals 18,400 kr. Þessi skóli, Flensborgarskólinn, fer ekki fram á nema 7200 kr. og vona eg, að h. háttv. deild sþ. það til þess að hann geti lifað, eg tala hér ekki fyrir skólanum vegna míns kjördæmis eins, heldur vegna flestra annara kjördæma á þessu landi, þar sem nemendur úr flestum kjördæmum landsins sækja þennan skóla.

Loks á eg litla breyt.till. á þgskj. 277 um að veittar verði 500 kr. til viðgerðar á gamla skólahúsinu í Flensborg, heimavistarhúsinu, að eins fyrra árið; til er ætlazt, að gert verði svo við húsið, að það verði hæfilegt heimavistarhús. Þetta er svo smá upphæð, að eg vona, að allir háttv. þgm. samþ. hana.