20.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í B-deild Alþingistíðinda. (1047)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Framsögumaður (Skúli Thoroddsen):

Viðvíkjandi ræðu hæstv. ráðherra, skal eg geta þess, að því er snertir þær 1800 kr., sem á fjárlagafrv. stjórnarinnar eru ætlaðar til aukakennslu við lagaskólann, að eg hugði ráðherra í fersku minni, að forstöðunefnd lagaskólans taldi á síðasta þingi tvo kennara mundu nægja við lagaskólann.

Fjárlaganefndin getur heldur ekki verið því samþykk, sem segir í aths. stjórnarinnar við háskólafrumv., að kennararnir geti ekki lagt á sig meiri kennslu, en 2 stundir á dag, enda þótt þeir verði að verja nokkrum tíma til þess að semja nýjar kennslubækur. Ber þess og að gæta, að skólinn notar þó mestmegnis danskar bækur, sem kennararnir láta nemendurna gera athugasemdir við, þar sem þeim her ekki saman við íslenzk lög. Eg vona því, að hin háttv. deild verði fjárlaganefndinni samdóma um það, að 800 kr muni nægja til aukakennslu við lagaskólann.

Að því er kemur til þess að færa styrkinn til barnaskóla í kaupstöðum niður í 5000 kr. úr 6000, er þess að gæta, að það er stutt síðan farið var að veita þennan styrk, því að álitið var, að kaupstaðabúar væru yfirleitt færari um, að kosta börn sín í barnaskóla, heldur en þeir, sem utan kaupstaða búa, og með þetta í huga lagði fjárlaganefndin til, að styrkur þessi yrði færður niður, sem fyr segir.

Að því er snertir tillögu fjárlaganefndar um það, að fella burt skrifstofukostnað handa umsjónarmanni fræðslumála, þá getur verið, að í byrjuninni hafi hann haft allmiklar bréfaskriftir, en meiri hluti fjárlaganefndarinnar leit svo á, sem sjálfsagt væri, að hann fengi burðargjald bréfa endurgoldið, sem og að stjórnarráðið gæti látið honum í té aðstoð við skýrslu- og bréfagerðir, er sérstaklega stendur á, en kann ekki við, að fara að veita honum sérstakt skrifstofufé.

Þá gat hæstv. ráðh. um till. fjárlaganefndarinnar, viðvíkjandi styrknum til Boga Melsted og Jóns Ólafssonar, og sagði, að tillögur meiri hluta fjárlaganefndarinnar sýndu hverjir réðu. Um till. meiri hlutans, að því er kemur til Boga Melsteds er það að segja, að auðvitað getur orðið ágreiningur um það, sem um alt annað, hvort hann eigi að halda áfram þessu starfi, að semja sögu Íslands, sem hann svo lengi hefur notið styrks til; en eg er á þeirri skoðun, að það sé því betra, sem hann hættir fyr við það. Hann hefir nú haft þennan styrk í mörg ár, og árangurinn minni en vænst var. Þar að auki hefir hann styrk úr ríkissjóði Dana til sama starfa. Meiri hluti nefndarinnar leit því svo á, sem rétt væri, að strika nú út styrkinn síðara ár fjárhagstímabilsins, því að ekki getur það hata verið tilætlun fjárveitingarvaldsins, að styrkin bæri að skoða, sem fasta fjárveitingu, er yrði að standa, meðan Melsted lifði, hvort og hvernig sem verkið, er honum var falið, yrði af hendi leyst. En það, sem sýnir, að meiri hluti fjárlaganefndar hefir viljað beita allri sanngirni, er það, að meiri hlutinn hefir þó lagt það til, að Bogi héldi styrknum árið 1910, þ. e. fyrra ár fjárhagstímabilsins, og því fremur er þetta sanngjarnlega í sakirnar farið, sem stjórnarflokkurinn hefir gert málið að flokksmáli, enda mun það frá þess flokks sjónarmiði lengi hafa verið eitt aðalatriðið í hinum »pólitiska katekismus« flokksins, að sjá um, að eigi væri haggað neitt við fjárveitingunni til nefnds manns, og ber að líkindum að skoða það, sem viðurkenningu til hans af flokksins hálfu fyrir það, sem hann hefir skrifað í hans þágu í íslenzk og dönsk blöð.

Þá kemur fjárveitingin til Jóns Ólafssonar, og skal eg geta þess, að hún hafðist í gegn í fjárlaganefndinni með að eins eins atkv. mun, og var það mitt atkv., sem réð því, að fjárlaganefndin lagði það eigi til, að fella hana að öllu leyti, því að mér fanst rétt, að honum gæfist kostur á, að halda áfram starfinu við orðabókarsamninguna með 720 kr. styrk á ári, enda býst eg ekki við, að hann verði, þess megnugur, að rita meira en 12 prentarkir árlega. Álít eg því, að honum megi standa á sama, þótt styrkurinn sé færður niður, og að hann verði eigi hart úti, er litið er á, hve lítið hefir gengið á þetta verk að undanförnu. Það gladdi fjárlaganefndina að sjá fallega mynd af höfundinum framan við þær tvær blaðsíður af verkinu, sem lagt var fyrir hana, þótt henni myndi að vísu hafa verið enn kærara, að sjá meira af ritinu, þótt myndin hefði þá beðið.

Að því er ræðu hæstv. ráðh. snertir, vil eg geta þess, að mér virðist honum enn, sem á þingum að undanförnu, hætta mjög til þess, að draga taum Guðm. skálds Magnússonar, og ekki grunlaust, að hann vilji nota hann til að gera minna úr öðrum skáldum, og draga úr styrk til þeirra. En þegar alþingi 1907 veitti Guðm. Magnússyni, sem og að vísu Einari Hjörleifssyni, styrk að eins fyrra ár fjárhagstímabilsins, þá vildi þingið á þann hátt sýna, að það ætlaðist eigi til þess, að styrkurinn yrði áframhaldandi, heldur að eins í eitt skipti fyrir öll. Þetta hefur ráðherra og látið sér skiljast, að því er hr. Einar Hjörleifsson snertir, en ekki að því er uppáhaldsskáld hans Guðm. Magnússon snertir.

Að því er snertir ræðu háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ .) um sérþekkingu forstöðumanna skóla og safna, að því er þarfir þeirra snertir, sem þinginu væri skylt að fara eftir, og því veita fé það sem um væri beðið, skal eg geta þess, að slíkir menn, þótt sérþekkingu hafi, verða sjaldnast skoðaðir, sem óvilhallir í þeim efnum, því hver skarar eld að sinni köku, vill hafa allt, sem fullkomnast, er aðrir eiga til að leggja, og gerir því sem frekastar kröfur til landsjóðsins. En það verður að líta á fjárhaginn, og sníða sér stakk eftir vexti í þessu sem öðru, og sætta sig við það, sem fjárveitingarvaldið sér sér fært að leggja fram.

H. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) átaldi fjárlaganefndina mjög fyrir till. hennar um kvennaskólann í Reykjavík, en fjárlaganefndin hefir þó hækkað um mun styrk þann, er honum var ætlaður í fjárlagafrumv. stjórnarinnar, þótt eigi sæji hún sér fært, að sinna styrkbeiðni yfirstjórnar skólans í öllum greinum, eins og till. nefndarinnar bera með sér, þar sem skólanum, auk 3000 kr. styrks, eru ætlaðar 40 kr. fyrir hverja námsmey, alt að 2000 kr. Enn fremur er honum ætlaður styrkur til matreiðsluáhalda 1500 kr., og til styrktar sveitastúlkum 300 kr.

Háttv. 2. þm. Húnv. (B. S.), fanst engin ástæða til annars, en gera skólanum á Blönduósi jafnhátt undir höfði, eins og kvennaskólanum í Reykjavík, og benti á, hve ólíku betur sýslunefnd Húnvetninga ferst við hann en Reykjavík við kvennaskólann í Reykjavík, þar sem bæjarfélagið að eins styrkir hann með 100 kr. á ári, en landssjóði er ætlað að leggja honum 7000 kr. Ef ekki væri heimtað sama sem alt úr landssjóði, en lagt meira til af bæjarfélagi Rvk., yrði skólanum betur til. Skal eg og ekki leyna því, að framkoma yfirstjórnar skólans, lýsir eigi all-litlu ráðríki og heimtufrekju, þar sem hún semur við mann, að alþingi fornspurðu, um húsbyggingu, og skuldbindur sig til, að leigja þar í fleiri ár fyrir 2000 kr. húsaleigu árlega, hafandi þó nær ekkert fé í höndum, nema það, sem alþ. kann að veita, og ætti yfirstjórn skólans eftirleiðis að fara sér hægar.

Nefndinni er ljúft að gera þessum skóla svo vel til sem unt er, og íhugar ef til vill málið að nýju, en býst ekki við, að stjórn hans fái þó alt, er um er beðið. Það er hægt að gera áætlanir, og vilja hafa alt, sem allra fullkomnast, er heimtað er af öðrum; en getan verður að ráða, og oft álitamál, hvort ekki má víkja ýmsu við, og láta þó alt fara vel, þrátt fyrir minni tilkostnað.

Fer eg svo ekki fleiri orðum um kvennaskólann, en ætla að víkja að því að háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) er óánægður með, að styrkurinn til landsbókasafnsins til bókakaupa er færður niður um 1000 kr. Meiri hluti fjárlaganefndar hugði, að spara mætti upphæð þessa, en hvað mig snertir mun eg þó ekki greiða lækkuninni atkv.

Till. um 250 kr. styrk til Sigurðar farandbóksala Erlendssonar, mun eg styrkja, með því að jafn virðingarverður maður á í hlut, og að eins sótt um styrkinn í eitt skifti fyrir öll.

Háttv. 1. þm. Rvk. álasaði nefndinni fyrir það, að færa niður styrkinn til fornleifarannsókna. En eg verð þó að líta svo á, sem 500 kr. nægi árlega, og að eigi sé vert, að verja meiru fé í því skyni, enda ber þess að gæta, að fornleifafélagið starfar í sömu átt.

Orðabókarstyrkinn til Sigfúsar Blöndals hefir fjárlaganefndin lagt til, að lækkaður verði úr 600 kr. í 300 kr. Hefir ekki trú á því, að bókinni muni miða betur áfram, þó að styrkurinn sé hærri, en verið hefir undanfarin ár. Hann nýtur og styrks frá Dönum í sama skyni, og því ekki svo mjög styrksþurfi, sem ella. Sjálfur afsakar hann það með veikindum sínum, hve seint verkinu hafi miðað áfram, og skal eg eigi vefengja, að svo sé, en þá getur hann tæpast vænt þess, að þingið auki styrkinn, og má þykja vænt um að hafa, þrátt fyrir veikindin, notið hans óskerts að undanförnu, og virðist mér þinginu því farast vel við þennan mann með því, að veita honum 300 kr. styrk árlega, sem verið hefir.

Háttv. þm. Mýr, (J. S.) talaði snjalt erindi um, hve mikinn skerf Þorsteinn Erlingsson hefði lagt til íslenzkra bókmenta, og vildi láta hækka styrkinn til hans úr 800 kr. upp í 1200 kr. — Þetta getur meirihl. nefndarinnar ekki aðhylst, en fyrir mitt leyti, skal eg þó geta þess, að eg mun greiða tillögu þessari atkvæði.

Viðvíkjandi því, sem háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) sagði um Flensborgarskólann, vil eg geta þess, að nefndin íhugaði fjárbænir þær, er þinginu hafa borist frá yfirstjórn skólans, og taldi maklegt, að styrkja hann, þar sem hann er mjög vinsæll og mikið sóttur og því ilt, ef hann legðist niður. — En nefndinni þótti rétt, að heyra ummæli þingmanna kjördæmisins, áður en fullnaðarályktun væri tekin. — En breyt.till. háttv. þm., sem nú liggja fyrir, mun meirihl. nefndarinnar þó eigi fá aðhylst.

Tillögu háttv. þingm. um 500 kr. styrk til viðgerðar á skólahúsinu, mun eg, fyrir mitt leyti, geta greitt atkvæði.

Eg hefi nú vikið að flestu, er komið hefir fram af hálfu hinna háttv. þingmanna, og finn því eigi ástæðu til, að fara frekari orðum um málið að sinni.