20.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í B-deild Alþingistíðinda. (1058)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg vildi minnast lítillega á fjárframlag til lagaskólans. Eg skil ekki í nefndinni að vilja lækka laun aðstoðar-kennara (sem alls ekki á að vera neinn »leiðbeinandi« eða manuduktör) niður í 800 kr. Við prestaskólann eru 3 kennarar, við lagaskólann, er á að vera í mörgum deildum að eins 2, og við læknaskólann eru segi og skrifa 6 kennarar. Eg er ekki að gera lítið úr klerkastétt landsins fyrir það, þótt eg láti í ljósi þá skoðun mína, að heppilegra væri að síður væri hörgull í landinu á lögfræðingum en klerkum.

Þá ætla eg lítillega að minnast á kvennaskólann. Hinn háttv. þm. Dal. (B. J.) talaði um, að allir skólar landsins ættu að vera samskólar fyrir karla og konur. Eg tek hjartanlega undir þessa samskólahugmynd og hef haldið því fram sjálfur í Kv.blaðinu fyrir eitthvað 10 árum að slíkt væri heppilegt. Hann vill að kvennaskólinn hér í Rvík leggist niður og eiga þá stúlkurnar að fara á aðra skóla, líklegast skólann með óheyrilega nafninu, »hinn almenna mentaskóla«. Eða er þeim ætlað að fara í búnaðarskólana? Vér getum ekki búist við, að kvenfólkið fari að læra jarðrækt og vinnubrögð, o. fl. þvíl. Hér er um skóla að ræða, sem gerir sérnám kvenna að aðalstarfi sínu, og sérfræðslunni er eg samþykkur. Að mínu áliti eiga karlar og konur að ganga í sömu skóla til almennrar sameiginlegrar fræðslu. En auk þess þurfa konur sem karlar á sérskólum að halda fyrir það nám, sem ekki er báðum sameigið, svo sem verkleg störf, hússtjórn o. s. frv. Tökum búnaðarskólana sem dæmi, er bæði hafa bóklegar og praktiskar greinar. Þm. Dal. (B. J.) vill gera kvennaskólana að húsmæðraskólum og ryðja burtu hinum bóklegu greinum, enda færist alt í þá átt. Nú er t. d. fatasaumur kendur á sérskólum kvenna, og nú á að fara að kenna matreiðslu á skóla þessum. En í útlöndum eru líka kvennaskólar, sem taka hið bóklega með, svo húsmæðurnar geti jafnframt aflað sér bóklegrar þekkingar. Þannig er t. d. í Ameríku, þar sem mest er þó gert að samfræðslu karla og kvenna. Að sameina þetta tvent, er mjög hagsýnt og hyggilegt.

H. 2. þm. Árn. (S. S.) talaði um samlífið milli kennara og nemenda, sem í alla staði væri mjög heppilegt að efla. En það er einmitt það sem kvennaskólinn er að leitast við með því að reisa sér hús, þar sem heimavistir geti verið.

Að því er snertir Flensborgarskólann, þá ætti hann ekki að vera verri fyrir því, að einstakir menn hafa varið lífi og efnum til að stofna hann, enda virðist hann verið hafa í talsverðu áliti, ef dæma skal eftir því hve mikið hann er sóttur. Þegar 2. þm. Árn, (S. S.) mintist á samlíf kennara og lærisveina, og þýðingu þess, eitt af því fáa, sem eg skildi í ræðu hins háttv. þm., taldi hann það sönnun máli sínu, hve nýtir menn hefðu komið úr Bessastaðaskóla kringum 1830, og vitnaði því til sönnunar í góða bók, æfisögu Péturs biskups. En hann virðist ekki hafa lesið þá bók spjalda á milli. Það voru annars aðrar ástæður heldur en heimavistirnar einar til þessa. Hvernig stóð annars á því, að þessir afbragðsmenn komu allir fram á svo fáum árum — útskrifuðust rétt fyrir og um 1830? Bæði voru þó heimavistir í skólunum hér langa tíma fyr og síðar. Það eru utanaðkomandi áhrif frá öldu þeirri, sem þá gekk yfir Evrópu, og sem hreyf þessa menn, er þeir komu út yfir pollinn. Það er franska júlí-byltingin 1830.

Það er dálítið hæpið, að koma með svona ástæður að því, sem á rætur sínar alt annars staðar. Það er léleg hagnýting sögunnar; enda dettur víst engum í hug að vænta þess, að 2. þm. Árn. (S. S.) þekki til þessa eða skilji lifandi vitund í því.

Eitt var það, sem eg hjó eftir hjá hv. þm. Dal. (B. J.) Hann vildi ekki styðja Flensborgarskólann, vegna þess, að einungis 1 klst. gangur væri milli þessa skóla og mentaskólans. Að öðru leyti talaði hann mjög skynsamlega. En hvar er nú hús, er tekið gæti alla nemendurna frá báðum skólunum, því á Flensborgarskólanum einum eru um 80 nemendur. Það er ekki húsrúm í skólahúsi hins almenna mentaskóla til að bæta þeim við sig, og þar að auki vantar kennara. Með því að ekki er unt að hafa einn svona stóran skóla verður að hafa tvo. Einu gleymdi eg viðvíkjandi kvennaskólanum hér í Reykjavík, þar sem sagt hefir verið að hann sé aðallega fyrir þennan bæ. Þetta er misskilningur. Hann er fyrir landið alt líka, því að eins ¼ nemenda er héðan úr bænum en ¾ annars staðar að.

Eg fer í engri röð yfir þennan frv.kafla, en gríp niður hingað og þangað.

Eg var hlessa á að heyra þau umyrði, að öll skáld og listamenn séu einskisvirði; en þau komu líka úr þeirri átt, sem væntanlega álítur ekkert nýtilegt nema ráðunaut og aðra slíka stórgripi. Eg játa það að búfræðingar geti gert meira til þess að fylla askana, en eg veit líka að sú þjóð, sem fyrirlítur vísindi og fagrar listir, er og verður í öllum greinum fánýt og einskisverð. Sé maginn mikils virði, er sálin þó ekki minna verð. Stórskáld og þjóðskáld eru og hafa verið leiðtogar þjóðanna, spámenn þeirra og kennarar, sem vakið hafa og eflt andlegt líf, og hafið sálarsjónina upp úr moldinni á hæðir hugsjónanna. Eg veit ekki, hve skriftlærður búfræðingurinn er, en eg býst við að hann viti, að meginhluti gamlatestamentisins, er skáldskapur, en ekki býst eg samt við því að hann vilji stryka út allan þann skáldskap og alla þá heimsmenningu, sem á honum hvílir.

Eg mun greiða atkv. með styrkveitingunni til Einars Hjörleifssonar og Þorsteins Erlingssonar; og eg vildi óska, að fleirum öðrum yrði þar við bætt.

Þá vil eg nefna styrkinn til Ísólfs Pálssonar. Að vísu þekki eg manninn ekki sjálfan, en eg hefi þekt flesta þá bræður, og veit hve mikið er í þá spunnið alla, og efast ekki um að skýrsla hans sé sönn. H. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) sagði að skýran lista þyrfti yfir verk hans. Álít eg þess ekki þörf og hefir komið fram svo mikið hugvit hjá þessum manni, að engin ástæða er til að efast um að hann sé ágætt efni, og gæti átt mikla framtíð.

Þá ætla eg að minnast lítillega á að þm. Dal. (B. J.) tilfærði rangar ástæður, er hann talaði fyrir orðabókarstyrk Jóns Ófeigssonar. Hann sagði, að kaupmenn þyrftu oft að skrifa þýzk »forretningsbréf«, og væri bókin þeim þá nauðsynleg. Þetta er algerlega rangt. Þeir þyrftu einmitt íslenzk-þýzka, en ekki þýzk-íslenzka orðabók. Eg nefni þetta vegna samanburðar hans við orðabók Sigfúsar Blöndal. Samt sem áður tel eg verkið gott og þarft, en miklu nauðsynlegra að fá íslenzk orð þýdd á önnur tungumál, því að flestir þeir er þýzku nota, eru svo góðir í dönsku, að þeir geta fleytt sér með stuðningi af t. d. dansk-þýzkri orðabók.

Þá ætla eg að drepa á skrifstofufé kenslumálaráðunautsins, sem svo mikið hefir verið rætt um. Hinum háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) þótti engin sanngirniskrafa að fara fram á slíkt, en sjálfur mundi hann ekki slá hendinni við því, ef honum byðist það. Kenslumálastjórinn þarf þó á skrifstofu að halda og hefir afarmiklar skriftir, þannig sendi hann með síðasta pósti 170 bréf; myndi háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) þykja hart að borga allan slíkan kostnað úr sínum vasa. Búnaðarfélag Íslands hefir 800 kr. skrifstofufé, og þó hefir það mönnum á að skipa til skrifta. Eða er hann ekki svo skriftlærður, að hann viti, að þetta er engin launaviðbót?

Þá er till. háttv. þm. Dal. (B. J.) um að fella niður styrk þann, er veittur hefir verið séra Valdimari Briem. Eg get ekki verið hinum háttv. þm. samdóma þar. Eg skal að vísu játa, að margt sé misjafnt, bæði í Biblíuljóðunum og annars staðar hjá þeim höfundi, en þess konar finst alstaðar.

En hitt er víst, að mörg eru ljóð séra Valdimars einhver fegurstu og beztu trúarljóðin, er vér höfum, og þótt eg sé ekki kirkjunnar maður, þá hlýt eg þó að játa, að þess konar ljóð hafa sitt gildi og eiga stuðning skilið, ef þau eru góð — alveg eins og hver önnur ljóðagerð.

Enn vil eg hér við bæta, sem bendingu til háttv. þm. Dal. (B. J.) Við erum báðir samtaka í því, að veita vini okkar Þorsteini Erlingssyni stuðning hér, en gætum þá einnig þess, að Þ. E. komst inn á fjárlögin einmitt að baki séra Valdimars. Þess vegna ætti háttv. þm. Dal. að láta óskertan styrk séra Valdimars, láta hann halda sér sem sögulegt minnismerki í þessu efni.

Einn er sá liður í fjárlögunum, er við mitt nafn er kendur; tel eg þó að hann snerti fremur íslenzkar bókmentir en mig persónulega, enda mun eg ekki neitt um hann ræða, læt hann gersamlega liggja milli hluta. Þó vil eg skjóta því til háttv. þm. Dal. (B. J.) að mér er ekki vel ljóst, hver meining er í því, sem hann sagði, að ef til vill mætti rubba upp 25 örkum á ári. Skal eg láta ósagt, hvað í þessu orði felst, en hér skiftir það mestu, hvort unnið er á auðum grundvelli eða ekki. Sé svo, þá getur verkið tekið langan tíma. En ef menn hafa nú safnað til þessa mestan hluta æfi sinnar, og þurfa ekki annað að gera en hagnýta sér (redigera) það, sem safnað hefir verið, þá mætti eflaust lúka 30—36 örkum á ári.

Annars skal eg ekki fara einu orði frekar um þetta mál.