20.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í B-deild Alþingistíðinda. (1059)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Framsögumaður (Skúli Thoroddsen):

Eg þarf ekki að segja margt viðvíkjandi ræðum þeim, sem þegar hafa verið haldnar.

Út af tillögu háttv. þm. Dal. (B. J.) skal eg geta þess, að fjárlaganefndin hefir ekki séð sér fært, að fallast á breyt.till. hans, um hækkun launa fasta aukakennarans við mentaskólann úr 1600 upp í 1800 kr., þar sem hann hefir að eins gegnt stöðunni í fá ár, og því minni hvöt til þess en ella. Auk þess komst hann upprunalega að skólanum, sem aukakennari, móti vilja þingsins, er ætlaðist til, að hann fengi að eins borgun, sem hver annar tímakennari, eftir stundafjölda, sem hann væri við kenslu. Honum hefir því verið gert mun betur til, en öðrum tímakennurum.

Að því er snertir till. hins háttv. þm. þess efnis, að dyraverði mentaskólans verði veitt 1000 kr. árslaun, sem myndi spara 300 kr. árlega, þá vill fjárlaganefndin veita henni meðmæli sín.

Tillögu hans um það, að fella bráðabirgðaruppbót til fátækra brauða, er nefndin mótfallin. Þessi uppbót fellur og smám saman af sjálfu sér niður, eftir því sem prestlaunalögin nýju koma til framkvæmdar, með því að örðugustu prestaköllunum er þar ætluð erfiðleikauppbót.

Að því er snertir breyt.till. háttv. 1. þm. N.-Múl. (J. J.) um styrk til farkennara — 100 kr. handa hverjum — þar sem farskólar eru ekki, þá mun nefndin fallast á hana.

Sömuleiðis felst hún á tillögur háttv. þm. Vestm. (J. M.) um styrk til útgáfu alþýðu-lagasafnsins, sem og um þóknun til Þórðar Sveinssonar geðveikralæknis fyrir kenslu við læknaskólann.

Eg vil sérstaklega geta þess, út af ræðu háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) að meiri hluti fjárlaganefndarinnar sér ekki ástæðu til þess að veita umsjónarmanni fræðslumála neitt ritfé. — Aðalstarf hans er einmitt bréfaskifti við menn til og frá, og er með öllu ástæðulaust að veita honum fé til þess að geta látið aðra vinna nokkurn hluta verks þess, sem er og á að vera aðalstarf hans. Hins vegar fær hann auðvitað burðargjald eins og sýslumenn o. s. frv.

Út af orðum hins sama háttv. þm. um styrk til Jóns Ólafssonar, þá verð eg að geta þess, að mér virðist það kynlegt, að hann skuli eigi ætla sér að standa við það, er til atkvæðagreiðslunnar kemur, sem að samkomulagi varð milli hans og mín o. fl. í nefndinni. — Að öðru leyti læt eg nægja, að skírskota til fyrri ræðu minnar, hvað fjárveitinguna snertir.

Hv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) fór um það nokkrum orðum, að till. fjárlaganefndarinnar í þá átt að lækka tímakenslustyrkinn við lagaskólann, væri ekki réttmæt, og benti hann máli sínu til stuðnings á prestaskólann: þar væru kennararnir 3, en að eins 2 við lagaskólann. En þessi samanburður er mjög villandi, af því að með jafnmiklum sanni má segja, að 3 séu kennarar við lagaskólann, eins og við prestaskólann, með því að heimspekisdeildin heyrir í rauninni öllum jafnt til: prestaskólanum, lagaskólanum og læknaskólanum. Við prestaskólann eru 2 fastir guðfræðiskennarar, en ekki einum eyri varið þar til tímakenslu. Má því kallast gott að lagaskólinn fái 800 kr. .til tímakenslu — í samanburði við prestaskólann.

Þá mintist hinn sami virðul. þm. á kvennaskólana, einkum kvennaskólann hér í Reykjavík. Sagði hann, að námsmeyjar við þann skóla væru margar héðan úr bænum, ¼ hluti þeirra. a. m. k.

Eg veit nú að vísu ekki, hvort þessu er þannig varið, það mun vera nokkuð misjafnt; en auk þess sem Reykvíkingum er það hagræði mikið að hafa þennan skóla í bænum, vegna mentunar kvennþjóðarinnar, þá er það einnig hagur fyrir bæjarfélagið að því leyti, að aðsóknin verður auðvitað þeim mun meiri til bæjarins. Skólinn er þess því fullkomlega maklegur, að bæjarbúar styrki hann að mun meira en gert hefir verið.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) talaði mjög vel og skörulega fyrir listum og vísindum, og gerði mikið úr því, hve illa þinginu hefði jafnan farist við skáldin og listamennina. Það er nú að vísu satt, að landið hefir ekki getað styrkt þessa menn, eins og sumir mundu kosið hafa, en menn verða að gæta þess, að þjóðfélagið er ekki mikils megnugt, og skáld og listamenn verða því að taka viljann fyrir verkið, að því er styrkupphæðirnar snertir. — Þjóðfélagið getur að eins rétt þessum mönnum hjálparhönd, en ekki séð þeim fyrir lífsviðurværi, eða lagt þeim fram svo mikið fé, að þeir geti lifað af því eingöngu, enda að eins tilgangurinn að veita mönnunum stuðning, svo að þeim verði þá auðveldara að sinna því, sem hugur þeirra einkum hneigist að, þótt nokkru af tíma sínum verði þeir að verja sér til framfærslu á annan hátt. Það er meira að segja hentugt, að menn hafi ekki alt af sama starfið eingöngu á höndum. Fleirskifting verkanna hvílir hugann. Skáldin yrkja betur, ef þau hafa einnig um annað að hugsa annað veifið.

Eg gat þess áðan, að háttv. þm. Dal. (B. J.) hefði lagt mikla áherzlu á það, hve nauðsynlegar listir og vísindi væri þjóðinni, en í gagnstæða átt fór ræða háttv. 2. þm. Rangv. (E. J.). Hann sagði, að hin harða barátta fyrir lífinu leyfði eigi, að sint væri öðru en því, sem viðhald lífsins gerði öllum bráðnauðsynlegt. Hinn háttv. þm. stendur því miður ekki einn uppi með þessa skoðun hér á þingi — og þingið verður að skoðast sem spegill þjóðarinnar. En þjóðin þarf að fá meiri mentun, til þess að henni verði ljúfara að veita fé til lista og vísinda, en enn er alment orðið.

Takmarkið er að menta þjóðina svo vel, að allir meðlimir þjóðfélagsins geti haft gott af listum, vísindum og skáldskap. Þá yrði meira fyrir listamennina gert. Þá gætu allir glatt sig við fagran skáldskap og listir. En mikið skortir enn á að svo sé, til þess er mentunarleysið enn of mikið.

Þar sem hinn háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði að skáldin væru höfðingjar þjóðanna, þá svaraði háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) því á þá leið, að það væru ekki skáldin, heldur bændurnir og sjómennirnir, sem væru réttnefndir höfðingjar þjóðarinnar.

En það eru í rauninni ekki að eins skáld, bændur og sjómenn, er þannig mega nefnast, heldur eru það allir menn, sem hafa fagran og göfugan hugsunarhátt, í hvaða stöðu mannfélagsins sem þeir eru. Þeir eru réttnefndir þjóðhöfðingjar.

Skáldin gera í rauninni ekki annað en bóndinn, sjómaðurinn og verkmaðurinn. Allir leggia þeir fram sinn skerf, eftir hæfileikum og ástæðum.

Það væri miklu heppilegra, að þingið tæki upp þá stefnu í stað þess að þrátta á hverju þingi um þessar fjárveitingar til einstakra manna, að leggja fram í eitt skifti fyrir öll einhverja upphæð, segjum 100—200 þús. kr. í sjóð, er hefði það hlutverk, að styðja listir og vísindi. Sjóð þennan ætti að auka á þann hátt, að leggja árlega nokkuð af vöxtunum við höfuðstólinn enda gæti þá þingið jafnframt bætt úr bráðustu nauðsyninni fyrst í stað.

Þessi tilhögun yrði óefað miklu hagfeldari, því að á þingi hafa menn alment ekki næga þekkingu til þess að geta greitt atkvæði í slíkum málum, enda eigi unnt að fyrirbyggja, að meiri eða minni hlutdrægni komist að, dreginn taumur eins, en jafnvel hefnt sín á hinum, bæði vegna pólitísks skoðanamunar o. fl.

Að því er snertir fjárveitingar til einstakra manna, þá vil eg geta þess, að fjárlaganefndin hefir ekki getað fallist á uppástungu háttv. þm. Dal. (B. J.), að fella burt styrkinn til séra Valdimars Briem, heldur lítur meiri hluti fjárlaganefndar svo á, sem V. Br. hafi unnið mjög þarft verk með sálmakveðskap sínum, og þegar litið er til þess, að hér á landi eru margir trúbræður hans, þá er ekki nema skylt að styðja þessa stefnu kveðskapar, eins og hverja aðra. Auk þess hefir hann nú í nokkur ár haft þennan styrk, og býst því við honum áfram; væri því hart, að svifta hann honum nú.

Eg er háttv. þm. Dal. (B. J.) þakklátur fyrir ummæli hans um Guðm. Guðmundsson, og vil sem bezt mæla með fjárveitingu til hans enda þótt meiri hluti fjárlaganefndar sé henni að vísu ekki meðmæltur.

Hv. 1. þm. S.-Múl. (J.J.) gat þess, að rangt væri, að taka þannig einn mann (G. G.) út úr hóp sinna líka, og veita honum styrk, en þeim ekki; en eg verð að mótmæla þessu sem algerlega ómaklegum ummælum, þegar um Guðmund Guðmundsson er að ræða. Hér er um alveg sérstaka list að ræða, þar sem skáldskapur hans er, og það væri háðung, ef hann fengi engan stuðning. Og sízt hygg eg, að Guðm, Friðjónsson myndi verða þeirri styrkveitingu mótfallinn, ef hann ætti sæti hér á þingi, eða hirði um, að sitt nafn sé notað, til að spilla fyrir henni.

Um styrk til Guðm. Friðjónssonar hefi eg áður lýst skoðun minni, og læt mér því nægja, að endurtaka, að eg er honum mjög meðmæltur. —

Að því er till. háttv. þm. Dal. (B. J.) snertir, um styrkveiting til Jóns Ófeigssonar, til þess að semja þýzk-íslenzka orðabók, þá skal eg geta þess, að meiri hluti nefndarinnar getur ekki fallist á hana, meðal annars af því, að þegar þingið veitir þannig lagaða styrki þá er það að því leyti gert í blindni, að ekki er hægt að vita fyrir fram, hve langan tíma starfið tekur, né heldur, hve mikið fé muni alls þurfa að veita, og má í því tilliti nefna sagnritunar-styrkinn til B. Th. M., er nú hefir notið hans í seytján ár, að því er mig frekast minnir.

Háttv. þm. Dal. gat þess, að fjárlaganefndin gerði sig seka í ósamkvæmni, er hún vildi fella styrkinn til nefnds sagnfræðings síðara árið, en halda honum hið fyrra. En sannleikurinn er sá, að fjárlaganefndin vildi fara sem vægast í sakirnar, að því er greindan sagnfræðing snertir, og láta hann halda styrknum fyrra ár næsta fjárhagstímabils, svo að hann hefði þá tímann fyrir sér, ef hann vildi leita sér styrks t. d. hjá einhverjum sjóði erlendis, til viðbótar styrk þeim, er hann fær árlega úr ríkissjóði Dana til sömu sagnritunarinnar, sem alþingi hefir styrkt, sem fyr segir. —

Þá mintist háttv. þm. Dal. (B. J.) á styrkinn til Jóhannesar Sveinssonar málara. Fjárlaganefndin hefir ekki sint þeirri málaleitan, en sjálfur er eg henni meðmæltur.

Sami háttv. þm. mælti einnig með styrkveitingu til Jóns Ísleifssonar. Þeirri styrkveitingu er fjárlaganefndin mótfallin, og er það sérstaklega af þeirri ástæðu, að hún hefir þegar ákveðið, að styrkja 2 menn aðra í sama skyni. En eftir upplýsingum þeim, sem háttv. þm. gaf í ræðu sinni, þá mun eg greiða tillögunni atkv. mitt. —

En till. háttv. þm. um það, að hækka laun Jóns sagnfræðings, en ætla honum ekkert fé til sagnfræðislegra starfa, getum vér ekki aðhylst, því að nefndin vill einmitt að Jón fáist við sagnfræðisstörf — sem hann gerir auðvitað, ef hann fær styrk til þess, en myndi síður eða ekki gera, ef laun hans, sem starfsmanns landsbókasafnsins, yrðu hækkuð. Hann myndi þá fremur helga safninu krafta sína eingöngu. —

Eg sé svo ekki ástæðu til að svara fleiru í ræðum háttv. þm., en get þess að eins, þar sem ýmsir eru gjarnir á, að luma ekki á því, sem þeir telja sér til gildis mega verða í annara augum, að enda þótt að ýmsu hafi verið fundið, að því er til gerða fjárlaganefndarinnar kemur, þá sé eg ekki betur, en að hún hafi þó yfirleitt sætt óvenjulitlum ákúrum; hún hefir í rauninni fengið töluvert hrós, og háttvirt deild hefir yfir höfuð að tala litið vel á starf hennar, svo að mér finst, að hún geti verið fremur roggin af starfi sínu.