24.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í B-deild Alþingistíðinda. (1068)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Sigurður Sigurðsson:

Eg álít það mjög óheppilegt að fara að byrja á umr. er stefna að því, að gera upp á milli landbúnaðarins og sjávarútvegsins hér á landi og fella dóm um það, hvorn þeirra eigi að meta meira. Eg vil að minsta kosti ekki taka þátt í þeim umr., nema sem allra minst, en eg er þó neyddur til að víkja nokkrum orðum að hv. 2. þm. Rvk. (M. B.)

Þm. byrjaði ræðu sína á mati milli þessara tveggja sjálfsögðu atvinnuvega og talaði um mann, sem vildi rista breiðar lengjur af landssjóðnum til landbúnaðarins. Hann nefndi þó ekkert dæmi því til sönnunar, og gat það heldur ekki, enda hyggilegast að fara ekki langt út í þá sálma. Eg held það sé hollast fyrir hinn háttv. þm. að flytja einhver rök og koma með tölur, er sanni mál hans vilji hann endilega byrja á svona löguðu mati. Eg er þess albúinn að hlusta á þær tölur og svara þeim á sama hátt og skal gera það þegar háttv. þm. hefir komið með skýrslu sína.

Þm. mintist á smjörbúin. Þau eru þyrnir í augum ýmsra efnaðri manna í Reykjavík og þeim er illa við þau, af því þeim þykir smjörið of dýrt. Háttv. þm. þykir undarlegt að styrkja þau og vill að styrknum sé kipt burtu. Eg hefi líka hugsað mér, að styrkurinn hverfi með tímanum á þann hátt, að hann verði smá minkaður, og mín till. fer að eins í þá átt að honum sé ekki kipt svo brátt í burtu, eins og frv. stjórnarinnar fer fram á. Það virðist einnig sanngjarnt að farið sé hægt í það að minka þenna styrk, meðan peningavandræðin eru jafn mikil og þau eru nú. Eg álít mjög óheppilegt að stofna búunum í vanda með þessu, því það viðurkenna víst flestir, að þau hafa gert mjög mikið gagn. Eg skal annars ekki tala frekar fyrir till., eg álít hún mæli sjálf með sér. Tilgangurinn er að eins sá, að styrkurinn minki hóflega og smátt og smátt.

Sami háttv. þm. mintist á lánið til Sláturfélags Suðurlands og taldi það undarlegt, ef slíkt lán væri veitt. Mér þykir þetta þó dálítið undarlegt, að háttv. þm. telur þetta lán eftir, einmitt þegar hann sjálfur kemur fram með till. um að veita manni lán til sláturhússtofnunar hér í Reykjavík. Ef þetta er ekki slæm og illörtuð atvinnupólitik, þá veit eg ekki hvað það er. Eg held það sé miklu skynsamlegra að heimila lán til félags en til einstaks manns, og auk þess er það óþarfi að fara að koma hér upp öðru sláturhúsi, þetta hús, sem Sláturfélag Suðurlands hefir komið upp, er svo gott, að það fullnægir kröfum manna að öllu leyti.

Þá mintist sami háttv. þm. á till. mína um lán til girðingarefniskaupa, og hélt, að bændur ættu að geta klofið þann kostnað lántökulaust, ef girðingarnar væru eins arðvænlegar og sagt væri. Eg vil leiða hjá mér að svara þm. hvað þetta efni snertir, því hann virðist ekki bera mikið skyn á það mál, þótt hann sé að tala um það. Flestum öðrum en honum mun vera það ljóst, að þetta er nauðsynleg till. til þess að hvetja bændur til að girða. Mér virðist það ótrúleg bíræfni af þm. að koma með þannig löguð mótmæli gegn þessari lánveitingu og yfir höfuð gegn öllum fjárveitingum til landbúnaðarins, sem hann þekkir ekkert til, þar sem þó samtímis er verið að hlynna að þeim atvinnuveg, sem hann vill styðja.

Áður en eg lýk máli mínu vil eg leyfa mér að minnast á eina breyt.till., er nafn mitt stendur við. Hún er þess efnis, að Oddi Oddssyni á Eyrarbakka o. fl. sé veittur 500 kr. styrkur til að afborga lán, sem þeir tóku til verkfærakaupa til þess að geta gert við skilvindur o. fl. verkfæri. Eg vil geta þess að svona verksmiðja er mjög þörf, því í Árnes- og Rangárvallasýslum eru skilvindur á því nær hverjum bæ, en þær vilja oft bila og er þá mjög óþægilegt að þurfa að fara með þær til Reykjavíkur til aðgerðar. Betra að hafa slíka verksmiðju nálægt sér, svo að viðgerðir taki sem stytstan tíma, og tapið við bilun skilvindunnar verði sem minst. Um manninn er það að segja, að hann er góður smiður og smekkmaður á allar smíðar. Hann er fátækur og hefir lagt mikið í kostnað við að koma verksmiðjunni á fót; mér finst það því sanngjarnt að hann fái fé þetta. Hann hefir heldur ekki haft ráð á því eða kringumstæður til að snúa sér til erlendra auðmanna og fá þá til þess að hlaupa undir bagga, með því að gerast hluthafar í fyrirtækinu, eins og stundum hefir átt sér stað hér á landi, þegar um fyrirtæki hefir verið að ræða, er lent hafa í kröggum.