24.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í B-deild Alþingistíðinda. (1070)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Það eru að eins 2 mál, er eg vil fara hér nokkrum orðum um.

Það er þá fyrst um Eiðaskólann. Eg get ekki neitað því, að mér virðist háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) og háttv. framsm. (Sk. Th.) báðir fara mjög ómaklegum orðum og ástæðulausum um um þetta mál. Þar sem því var haldið fram, að Múlsýslungar hefðu reist sig upp á móti þinginu, þá er þar til að svara, að þeir tóku málið einmitt á þann veg, er þeim bar að gera. Þingið ákvað að verkleg búnaðarkensla skyldi vera á Eiðum. Henni hefir verið haldið uppi — og þótt sýslurnar hafi ráðist í að reisa skólahús, er kostar um 40 þús. kr., þá verður það ekki skoðað sem nein móðgun við þingið. En það gera engin tvö sýslufélög að gamni sínu, að leggja á sig jafnþunga byrði (40 þús. kr.), þegar óvíst er um nokkurn stuðning, og það finst mér alveg óréttmætt, er hinn háttv. framsm. (Sk. Th.) sagði, að sýslunefndirnar hefðu sýnt ráðríki einnig gagnvart kjósendum (þeim er þá menn kusu í sýslunefnd). Þetta getur ekki verið af öðru en ókunnugleika mælt, því að allir 5 þm. Múlsýslnanna vita það, að sýslunefndirnar hafa hér látið að vilja sýslubúa, enda hafa þeir verið endurkosnir í sýslunefnd, er hafa viljað styðja Eiðaskólann.

Þegar bornir eru saman skólarnir á Eiðum og á Hólum, þá mun flestum finnast sanngjarnt, að styðja hinn fyrnefnda, þar sem hitt er aftur margra manna álit, að á Hólum ætti skóli alls ekki að vera.

Á Hvanneyri er hinsvegar bæði þörf á skólahúsi og auk þess á sá skóli beina heimting á því, ef lögunum skal fullnægja, því að skólinn getur ekki þrifist án sæmilegs skólahúss. En þetta mál liggur að vísu ekki fyrir nú. Háttv. fjárlaganefnd hefir ekki viljað sinna áskorun Múlasýslna um það, að sýslurnar fái sem svarar ½ kostnaðinum við húsbygginguna. Þessi synjun er þó mjög ósanngjörn. Múlasýslur eru miklu ver settar en flestir hinir landshlutarnir, og hafa sjálfar lagt meira á sig en nokkrar aðrar sýslur. Háttv. framsm. (Sk. Th.) var að bera saman það sem Ísafjörður legði til landssjóðs og það sem Múlasýslurnar legðu til. Eg skal ekki vefengja þann samanburð, en hér er þó harla ólíkt aðstöðu. Landssjóðstekjurnar úr Ísafirði eru tollar og útflutningsgjald, og miðað við góð fiskiár vestra, en fiskileysisár eystra.

Að öðru leyti má geta þess um skólana á Hvanneyri og Eiðum, að til Hvanneyrar er mjög auðvelt að sækja af Vesturlandi, en miklum erfiðleikum bundið fyrir Austfirðinga, svo og fyrir Þingeyinga og Austur-Skaptfellinga. Þeim yrði sú ferð mjög tilfinnanleg í samanburði við það að sækja að Eiðum.

Þá vil eg minnast á þá till., sem fer fram á að lækka styrk þann til verzlunarskólans, er tiltekinn er í fjárlagafrv. Háttv. framsm. (Sk. Th.) sagði, að skólanum mundi koma lítill styrkur annarsstaðar frá. Þetta hlýtur að vera af ókunnugleika mælt, því eg vona að allir sjái, að þessi ummæli geta ekki verið á rökum bygð. Skólinn hefir á 2 síðustu árum notið 3 þús. kr. styrks úr landssjóði — en skólakostnaðurinn hefir verið á 6. þús. kr. á ári. Það getur því ekki verið lítið, sem skólinn hefir orðið að fá annarsstaðar frá. Skólinn hefir notið mikils styrks frá einstökum kaupmönnum í Reykjavík og frá kaupmannafélaginu og frá verzlunarmannafélaginu, enda þótt flestallir meðlimir þess síðarnefnda félags séu fátækir verzlunarmenn; en þeir sýna, að þeir kunna að meta mentunarfæri. Auk þess hefir skólanum verið sendir peningar frá einstökum kaupmönnum úti um land. Það er ekki lengra af að segja en það, að með síðasta pósti fékk hann peningasendingu frá einum verzlunarstjóra á Austurlandi. Sýnir þetta alt saman, að álit á skólanum er gott meðal verzlunarstéttarinnar, og eg vona, að hann eigi það skilið.

Háttv. framsm. (Sk. Th.) hlýtur því að sjá, að skólinn hefir að minsta kosti fengið á 3. þús. kr. annarsstaðar frá árlega. Og eg efast um, að nokkur skóli fái jafnmikið annarsstaðar frá sem einmitt þessi skóli.

Styrkur sá, er fjárlagafrumv. fer fram á, er bygður á beiðni skólastjórnarinnar, og sú beiðni er aftur bygð á því, að brýn þörf er nú orðin á að bæta við einum námsbekk í skólanum til þess að kenslan geti orðið fullkomnari. Ef skólinn fengi þessa viðbót, þá mundi hann geta boðið jafn-góða og ámóta víðtæka fræðslu og slíkir skólar erlendis, en væntanlega betur sniðna eftir vorum þörfum og því notasælli.

Eg vona að menn sjái, að það fé er í rauninni sparað landinu, sem ekki þarf að ganga til útlanda, og er betra að því sé varið til líkrar fræðslu eða framkvæmda hér, eins og þar er hægt að fá. Auk þess er hverjum einstakling það töluvert dýrara að dvelja við nám erlendis, og þar við bætist einnig, að verzlunarnemendur hafa ekki eins mikil not af erlendri fræðslu og þeirri sem þeir geta fengið hér. Verzlunarlöggjöfin er á dönsku og snertir ekki Ísland, nema að eins að því er til víxla og tjekkávísana kemur.

Við verzlunarskóla Íslands hefir verið reynt að laga kensluna eftir íslenzkum háttum og þörfum Íslendinga yfirleitt. Skólinn hefir aukið tilsögnina eftir efnum og ástæðum. Tvö fyrstu árin kenslan yfirgripsminni; þá var ekki kend »NationaI Økonomi«, en nú er 2 ára kensla í þeirri grein, enda verður það að teljast alveg nauðsynlegt. Íslenzk verzlunarlöggjöf er og nú kend, en fyrstu árin var ekki annað kent en víxilréttur. Vil eg halda, að kenslan sé í þessum efnum meiri hér en í dönskum verzlunarskólum.

Ef styrkur frumv. verður látinn halda sér, þá gæti skólinn aukið kensluna, og yrðu útgjöldin þá árlega 6800 kr., og því 1800—2000 kr., sem yrði að fá annarsstaðar frá.

Það var bent á það áðan, að þar í sem skólinn væri í Reykjavík, þá mundi hann og koma Reykvíkingum mest að notum.

Þar til er þessu að svara: 1. árið var helmingur námsmanna úr Rvík, en nú er ekki nema ? hluti þeirra héðan, hinir ? eru víðsvegar annarsstaðar af landinu, úr flestöllum sýslum landsins.

Fyrst voru nemendur úr 14 sýslum landsins, en nú eru þeir úr 18.

Nú eru 50 nemendur á sjálfum skólanum og auk þess 22, sem taka þátt í ýmsum kenslugreinum. Mega því nemendur í raun réttri teljast 72.

Menn hafa oft talað um það, hve mikið hver stétt legði til landssjóðs. Nú vita bæði hv. framsm. (Sk. Th.) og allir aðrir, að verzlunarstéttin leggur þar mest fram, og að þetta er auk þess eina styrkbeiðnin frá þeirri stétt, styrkbeiðni sem miðar að því að gera verzlunarmennina hæfa til starfa síns. En það vita líka allir, að menn hafa hingað til orðið að taka hverja þá í þessa stöðu, sem boðist hafa, og þessir verzlunarþjónar hafa að jafnaði verið mjög ófróðir um það, sem að starfa þeirra lýtur. Nú eiga menn kost á að velja í þessa stöðu þá menn, sem hafa sérþekkingu í starfi sinu. Má geta þess, að af þeim sem hafa útskrifast af þessum skóla, munu sárfáir vera, sem ekki hafa þegar fengið atvinnu — eða boðist hún, það munu vera 2—3, er ekki hafa þegið boðið. Eg get líka skýrt frá því, að um miðjan vetur nú voru þegar komnar beiðnir um 4 verzlunarmenn, af þeim er nú eiga að útskrifast í vor. Þetta sýnir traust, er kaupmenn bera til þessarar stofnunar. Vona eg, að nú hafi eg talið næg rök fyrir því, að full sanngirni sé að veita skólanum þennan styrk, miðað við gagn það er hann gerir. Sjálfur er eg ekki svo mjög við þennan skóla riðinn, kenni þar að eins 2—3 námsgreinar og geri það mér í skaða, af rækt við skólann, svo að enginn getur álitið annað en að eg geti talað hér með óhlutdrægni og sanngirni. Skólinn hefir verið svo heppinn, að allir kennarar hans hafa lagt kapp á, að kenslan yrði honum að sem beztum notum. Það er öllum, sem að honum standa, áhugamál, að honum vegni vel.

Áður en eg sezt niður, vil eg minnast á einn lið, er mitt nafn er við kent; það er breyt.till. sem fer fram á styrk til frú Torfhildar Þ. Holm.

Torfhildur Holm hefir um nokkur ár haft 200 kr. á ári, en nú er farið fram á að þessi styrkur sé hækkaður um 100 kr. Og þó verður upphæðin tæplega svo há, að hún nemi 1 kr. á dag. Vona eg, að þeir háttv. þgm. sem hafa verið svo örir á að styrkja karlmenn á líkan hátt, fari nú ekki að níðast á einni konu, þegar um slíkt er að ræða. Og Torfhildi Holm hefir ekki farið aftur, þótt hún sé nú tekin fast að eldast; næstsíðasta stærra rit hennar: »Jón Vídalin«, er víst bezta bókin, sem hún hefir samið. Hún er því á framfaraskeiði þrátt fyrir aldurinn.