24.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (1072)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Björn Kristjánsson:

Eg hef gerst flutningsmaður að breyt.till. eða réttara sagt viðaukatillögu um, að þingið veiti hr. Ólafi Jónssyni 1200 kr. úr landssjóði hvort árið í tvö ár til utanfarar til að læra að gera myndamót. Þetta hefir fengið svo góðar undirtektir, að eg vona, að það verði samþykt. Eins og kunnugt er, er enginn hér á landi, sem getur búið til myndir í blöð og bækur, og örðugt og óhentugt að þurfa að fá slíkt frá öðrum löndum, einkum þegar þess er gætt, hve strjálar samgöngur við höfum við aðrar þjóðir. Maður þessi, sem eg nefndi, ætlar — auk þess að nema myndamótagerð — að læra að teikna myndir. Eins og eg hef áður drepið á, eru engir, sem kunna myndamótargerð hér á landi, og eg held, að það væri heppileg meginregla fyrir þingið að fylgja, að styðja einn mann í hverri þeirri grein, sem nauðsynleg er til framfara í landinu og sérstaklega sem fáir eru til að halda uppi, en synja heldur um styrkveitingu þeim mönnum, sem starfa vilja að ýmsu, er margir menn eru fyrir um og ekki þörf að auka að sama skapi.

Þá er tillaga mín um 1500 kr. hvort árið handa hæfum manni til þess að læra að grafa námubrunna og að fara með jarðbora. Eg vona, að allir séu mér samdóma um, að ekki sé svo lítið áríðandi, að hafa mann, sem kann til slíkra hluta. Ef menn kunna og þekkja til þeirra verka eru fullar líkur til, að finna megi málma hér í jörðu, en slíkum manni höfum við ekki á að skipa enn sem komið er. Ef menn vilja leita að málmum og fá fróðan mann að til málmleitunar frá útlöndum kostar hann minst 350 kr. um mánuðinn. Námubrunna kann enginn að gera hér. Þetta kemur svo glögt í ljós við málmgröftinn í Þormóðsdal. Menn geta auðvitað grafið holur niður í jörðina, en að klæða brunninn svo að þeir og aðrir ekki drepi sig, kunna þeir ekki til með það minsta.

Þá vil eg minnast á þá breyt.till. mína á þgskj. 276 um, að veita Jóhannesi Reykdal í Hafnarfirði 5000 kr. lán úr viðlagasjóði. Þótt þingið veiti stjórninni þessa lánsheimild, er stjórnin auðvitað ekki skyld til að veita lánið nema fé sé fyrir hendi og að fult veð sé sett fyrir láninu. Svo stendur á með þennan mann, að hann hefir áður fengið lán úr viðlagasjóði til trésmiðaverksmiðju sinnar, sem hann fyrstur manna stofnaði hér á landi. Fyrir þessu láni hefir viðlagasjóður veð í verksmiðjunni. Maður þessi þyrfti ekki nú að fá lán, ef ekki stæði svo á, að vátryggingarfélag það, sem verksmiðjan er trygð í, hefir sagt upp vátryggingunni, ef ekki verði bygt steinhús yfir verksmiðjuna. Nú hlýtur það að vera öllum ljóst, að veð viðlagasjóðs fyrir fyrra láninu er ekki mikils virði, ef húsið ekki er vátrygt. Það er blátt áfram nauðsynlegt skilyrði fyrir, að veðið haldist trygt, að þetta lán sé veitt, því að þessu steinhúsi, sem er skilyrði fyrir, að hann geti vátrygt verksmiðjuna, getur hann ekki komið upp án sérstaks láns. Eg álít það meira segja mesta ráðleysi, ef þingið synjaði um þessa lánveiting. Menn munu ef til vill segja, að hann geti farið til bankanna, sem veita mundu féð, ef fyrirtækið álitist nokkurn veginn heilbrigt, en menn verða að gá að því, að bankalán alt af eru komin undir geðþekni og góðvild bankastjóranna, sem oft og einatt er valt að treysta á, auk þess sem bankarnir hafa svo lítið fé með höndum, að þeir geta ekki lánað mönnum, hversu fegnir sem þeir vilja, Eg verð að taka það fram, að hér er ekki um neina nýja stofnun að ræða, heldur er verið að styðja að því, að viðskiftamanni landssjóðsins verði ekki hið fyrra lánið hefndargjöf.

Þá hef eg farið fram á, að landssjóður veiti lán til vatnsveitingar og pípnalagningar í Hafnarfirði. Reyndar hefir framsm. fjárlagan. (Sk. Th.) mælt á móti því, en eg held, að hann hafi verið ókunnugur málinu, og vona því, að þingið sinni beiðni þeirri. Svo er með þetta mál, að bæjarfélagið (Hafnarfjörður) hefir komið á vatnsveitu fyr í bænum og kostaði það 8000 kr. Vatnið var fengið úr stórum brunni, sem grafinn var og svo leitt í pípum gegnum bæinn. Nú óx bærinn mjög ár frá ári, svo að nú er svo komið, að vatnslindin, brunninn þraut. Nú er bærinn, sem telur full 1500 íbúa, svo vatnslítill, að til vandræða horfir. Sú nýja vatnsveiting er áætluð að kosta muni 20,300 kr., en gömlu vatnsveituna þarf líka að kaupa og verður þá sú upphæð, sem bærinn þarf til þess 28,300 kr. Mér þykir ekki nema eðlilegt, þótt þingið þykist hafa í mörg horn að líta, og sé hálf tregt til að sinna mörgum þeim lánbeiðnum, sem til þess berast, en hér er svo brýn og nauðsynleg þörf, því að bærinn verður í mjög svo tilfinnanlegri vatnsþröng, ef þingið ekki hleypur undir bagga með honum til þessa fyrirtækis og veitir honum þetta lán. Það er auðvitað, að nauðsyn ber mjög til að taka vissa ákveðna stöðu gagnvart öllum þeim lánbeiðnum, sem drífa að þinginu og takmarka þær að einhverju. Mér finst þó að lægi næst, að lánbeiðnum frá sveitarfélögum, bæjarfélögum og sýslufélögum eða með ábyrgð frá þeim sé helzt sint, en slept sé heldur lánbeiðnum einstakra manna. Eg vona því, að þingið synji ekki bæjarfélaginu í Hafnarfirði um þetta lán.

Þar næst vil eg leyfa mér að minnast á eitt atriði í ræðu háttv. 2. þm. Árn. (S. S.), það var um verðlaun fyrir útflutt smjör. Það hefir töluverður ágreiningur risið út af því, hvort rétt sé að halda þeim áfram. Eg var einn af þeim í fyrstu, sem greiddi atkvæði með þeim, en það var með þeirri hugsun og fyrirvara — og svo held eg hafi verið um fleiri þingmenn — að það væri að eins meðan fyrirtækið væri að komast á fót. En nú eru mörg ár síðan, að verðlaunin komust á, og það er líkast því, sem háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) vilji skoða þau, sem sérstakan skatt, sem hann nú fer fram á, að verði hækkaður meira að segja. En á þinginu 1905 var ætlast til, að verðlaunin smálækkuðu, mig minnir um 1000 kr. á ári, unz þau alveg féllu burt. Eg get því eigi — þótt smjörbúin hafi hagnað af því, — greitt atkvæði með þessari hækkun, og það því fremur, sem eg fæ ekki séð, að nokkur slíkur styrkur á þann hátt sé veittur til sjávarútvegsins. Það er þó auðvitað, að það mundi vera hvöt fyrir sjómenn, að fá einhvern styrk til síns atvinnuvegar, og þegar maður lítur á það mál sanngjörnum augum, þá ber eins að styrkja sjávarútveginn sem landbúnaðinn, því báðir hafa kröfu til, að fjárveitingarvaldið hlaupi undir bagga og hjálpi eftir megni og ástæðum, og sú heppilegasta aðferð í þeim efnum er ekki sú, að þingið bruðli út fé endurgjaldslaust, heldur veiti lán með vægum kjörum. Ef það ekki dugar, getur atvinnuvegurinn ekki borið sig.