24.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í B-deild Alþingistíðinda. (1073)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Eggert Pálsson:

Eg hefi komið fram með 2 breyt.till., aðra um að hækka styrkinn til rjómabúanna og hina um lánveitingu til sýslumannsins í Rangárvallasýslu til húsbyggingar.

Það hefir sýnt sig nú eins og fyrri, að alt af eru fleiri eða færri reiðubúnir til mótmæla, er talað er um eða stungið upp á fjárveiting til landbúnaðarins í einu eða öðru skyni. Minnist eg ekki að uppástunga í þá átt hafi ekki mætt mótspyrnu meiri eða minni, sem kemur æfinlega frá fulltrúum kaupstaðanna eða sjávarhéraðanna.

Að því er sjávarútveginn snertir, þá er ómögulegt fyrir nokkurn mann að neita því, að landssjóður hefir gert sitt til að styrkja hann á ýmsan hátt. Er ekki langt síðan, að sú stefna var tekin, að auka þilskipastól landsins með hagfeldum lánskjörum til skipakaupa. En reynslan hefir sýnt, að sú hjálp stoðaði lítið. Þilskipunum hefir þrátt fyrir þessa aðstoð fækkað óðum hin síðari árin, og það verður ekki annað séð, en að sá útvegur, sem á þeim byggist, sé nú kominn algerlega í kalda kol. Sama er að segja um mótorbátaútveginn, hann var orðinn blómlegur um tíma, og jókst afarmikið á örstuttum tíma, enda hefir þingið styrkt hann eftir megni, en ekki er þó sýnilegt annað, en að á sömu leið fari með hann. Alt virðist því benda til, að ekki sé fundinn framtíðarvegur, sem heppilegastur sé fyrir landið, að því er sjávarútveginn snertir. Og því getur það ekki talist nema hyggilegt, að gæta allrar varúðar með fjárframlag til hans á meðan hann stendur eigi á tryggari grundvelli, en hann gerir. Öðru máli er að gegna með landbúnaðinn. Grundvöllurinn, sem hann byggist á, er svo margfalt traustari, og það hljóta allir að vera á einu máli um það, að framfarir og velmegun þjóðarinnar byggist aðallega á honum. Styrkurinn, sem veittur var til smjörbúanna, hefir sýnt, að hann kom niður í heppilegum stað, og hleypti fjöri í þessa grein landbúnaðarins, og hefir orðið henni til aukningar og umbóta. Sumum virðist því et til vill tími til kominn, að kippa styrk þessum alveg burtu, en þá þarf að sanna, að kringumstæðurnar hafi batnað að mun, frá því rjómabúin voru stofnuð, svo að slíkt væri gerlegt án þess að þessi atvinnugrein biði tilfinnanl. hnekki. En eg held að slíkt verði ekki sannað. Áhugi meðal alþýðumanna er tæplega svo rótgróinn eða lifandi, að unt sé að halda bændum í þessum nauðsynlega samvinnufélagsskap, án þess að þeir njóti til þessa styrks, sem hingað til hefir verið veittur. Og er það að sumu leyti ekki nema eðlilegt. Kostnaðurinn við smjörgerð rjómabúanna er miklu meiri, en flestir, er ekkert til þekkja, geta gert sér í hugarlund. Mér er þetta vel kunnugt, því eg hefi verið formaður eins af þessum búum. Eingöngu framleiðslukostnaður smjörsins er hér um bil 20 aurar á pund, fyrir utan flutningskostnað á rjómanum. Auka hinar slæmu samgöngur mjög erfiðleikana við rekstur rjómabúanna. Og þar sem hin háttv. deild hefir nýfelt þýðingarmikla tillögu til samgöngubóta á því svæði, sem rjómabúin starfa mest, þá hefir hún með því eigi gert bændum hægara fyrir með framleiðslu smjörsins. Kringumstæðurnar hafa þannig ekki breytst mikið til batnaðar. Og þegar litið er á verð það, sem á undanförnum árum hefir fengist fyrir smjör rjómabúanna, sem mun hafa verið 80—90 aur. fyrir pundið, og þar frá eru svo dregnir 20 aur. á pund í framleiðslukostnað, þá geta allir séð, að bændur eru eigi ofsælir af því verði, sem þeir í raun og veru fá fyrir smjör sitt. Enda er það svo, að þeir, sem ekki eru í rjómabúunum fá einatt meira fyrir sitt smjör en þeir, sem í þeim eru, vegna þess að þeir geta einir setið að markaðinum heima fyrir. Hin eina breyting á þessari styrkveitingu, sem mundi hafa orðið til bóta, væri sú, að miða hana ekki við útflutt smjör frá rjómabúunum, heldur veita hana fyrir smjör framleitt á rjómabúunum, hvort sem það væri selt hér heima eða erlendis, auðvitað með tilliti til vöruvöndunar eða gæða.

Það er als ekki meining mín og h. 2. þm. Árn. (S. S), að þessi styrkveiting vari um aldur og æfi, og till. sjálf bendir heldur ekki í þá átt. Í stað þess að stjórnarfrv. stingur upp á að styrkurinn lækki til smjörbúanna um 2000 kr. árlega, þá gengur tillaga okkar í þá átt, að hlaupið verði eigi svona stórt, en styrkurinn hverfi þó algerlega á sínum tíma, er samgöngur og aðrar kringumstæður batna frá því sem nú er. Í sjálfu sér er þessi styrkur, sem að eins er ¼ af sjálfum framleiðslukostnaðinum, ekki teljandi eftir, til þess að þessi afrakstur landbúnaðarins kæmi fram á þann hátt, og í þeirri mynd, sem hæfir mentaðri þjóð. Vér Íslendingar ættum að vera orðnir það lærðir af reynslunni, að það tjáir ekki að styrkja fyrirtækin að eins í byrjuninni og síðan sleppa af þeim hendinni og hirða eigi um, þótt þau falli jafnharðan um koll aftur.

Þá skal eg minnast lítið eitt á tvær af till. fjárlagan. Hin fyrri er 35 þús. kr. lánveiting til Sláturfélags Suðurlands. Þessi lánsheimild hefir þegar mætt talsverðum mótmælum. Og Sláturfélagið sjálft orðið fyrir allmiklum hnútum og þá helzt frá mönnum, er bera fyrir brjóstinu lán til prívatmanns í sama tilgangi. í tillögunni er það tekið fram, að alt Suðuranmtið, sem var, ábyrgist lán þetta, að undantekinni Reykjavík sjálfri og Gullbringusýslu en viðbættri Mýrasýslu. Virðist mega ganga að því vísu, að í sýslunefndum þessara sýslna muni sitja þeir menn, er ekki stofni þeim í voða, svo að frá þeirri hlið skoðað sýnist engin hætta vera á ferðum, þótt þessi lánsheimild væri veitt. Um þörfina á þessari lánsheimild er ekki að efast. Félag þetta, sem hér er um að ræða, hefir eins og önnur slík félög, átt við mikla erfiðleika að etja. En aðalerfiðleikarnir liggja í peningavandræðunum. Félagskapnum er samkv. lögum félagsins hagað þannig, að bændurnir fá ? verðs vöru sinnar, er þeir afhenda sláturfé sitt. En nú verður slátrunarhúsið aftur á móti oft að bíða 3—4 mánuði, að minsta kosti, eftir því að það geti fengið verð fyrir vöruna, og þegar svo er ástatt, geta leitt af því hin mestu vandræði fyrir félagið, þegar peninga er ekki hægt að fá að láni. Meiningin með þessu láni er því sú, að hafa greiðari gang að peningum, ef bankarnir ekki vilja eða geta hjálpað, og koma þannig í veg fyrir, að stofnunin hljóti að fara á höfuðið, sem hún hlýtur að gera, ef neitað væri um þetta lán, og bankarnir reyndust eins óþjálir gagnvart henni framvegis, eins og þeir hafa reynst hingað til. Félagi þessu hefir verið fundið ýmislegt til foráttu, og þar á meðal, að það héldi vörum sínum í háu verði, væri þannig einokun, en eg get fullyrt, að tilgangur félagsins er alls ekki að einoka, heldur að eins sá að bæta meðferð þessarar vörutegundar og auka álit hennar jafnframt. Og það mun sannast, þegar fram líða stundir, að þá mun þessi félagsskapur, ef hann fær að halda lífi, eins og allur góður félagsskapur, njóta álits og vinsælda, en ekki óvinsælda.

Þá kemur hin önnur lánveiting, sem fjárlagan. hefir stungið upp á, sem er 5000 kr. til Fljótshlíðarhrepps, gegn ábyrgð sýslunefndar Rangæinga. Tilgangurinn er að nota þetta fé til vegar í Fljótshlíðinni, og skal eg lítið eitt lýsa, hvernig hér er ástatt. Þverá fellur með rótum hlíðarinnar og mölvar neðan af, svo vegurinn er legið hefir á bökkum hennar er ógreiðfær orðinn mjög, sérstaklega ef vagn er notaður, og ókunnugir menn geta meir að segja ekki farið svo um, að þeir eigi vaði yfir engjar manna, eins og eðlilegt er, þar sem víða engan veg er að sjá. Hefir nú verið fenginn verkfræðingur Árni Zakaríasson, til þess að gera áætlun um kostnað við vegagerð inn eftir hlíðinni, og áætlar hann að vegurinn muni kosta rúmar 10,000 kr. Ætlan manna er að leggja veginn sem næst bæjunum, svo hans verði sem mest notin, og skuli hann ná inn í miðja hlíðina. Sýslan ætlar að borga helming kostnaðarins, en hinn helminginn 5 þús. kr. á hreppurinn að leggja til. En þessar 5000 kr. er hreppnum ómögulegt að borga, nema hann fái þær einhversstaðar með góðum lánskjörum, eins og öllum getur skilizt, þar sem hér er að ræða um mikið fjárframlag, og hreppurinn hefir ýmislega aðra hreppavegi að sjá um, auk annara sjálfsagðra útgjalda.

Þá kemur breyt.till. á þgskj. 291 sem eg hef leyft mér að flytja fram hjá fjárlaganefndinni. Hún er um það, að Björgvin Vigfússsyni sýslumanni Rangárvallasýslu megi veita 12 þús. kr. lán til þess að koma sér upp embættisbústað, gegn þeirri tryggingu, sem landstjórnin tekur gilda. Ástæður fyrir þessari tillögu eru þær, sem nú skal greina: Þessi sýslumaður er fátækur maður, svo að segja nýkominn í embætti, og hefir auk þess orðið fyrir hnekki efnalega, sem oftast er samfara löngum flutningi og bústaðabreytingu. Hann hefir verið 1 ár sýslumaður í Rangárvallasýslu, en var áður skamman tíma sýslumaður í Skaftefallsýslu. Honum hefir ekki fram að þessu tekist að fá sér hentan sérstakan bústað, og hefir því orðið að kytrast með 9 manns í 1—2 herbergjum, sem hann hefir fengið leigð hjá bóndanum á Stórólfshvoli. Að vísu kynni hann að hafa getað fengið jörð við endimörk sýslunnar, að austan eða vestan, en það mundi hafa orðið mjög óheppilegt fyrir sýslubúa. Nú aftur á móti hefir hann fest kaup á jörð í miðri sýslunni, í Hvolhreppi. Sú jörð hefir í sér eiginleika til þess að verða góð jörð; túnstæði er þar mikið og vítt, en er í órækt; engir kofar eru þar, svo að notandi séu. Því þarf mikils við, til að gera þar sæmilegan bústað. Og þess ekki að vænta að efnalitlum manni sé það mögulegt, nema hann komist á einhvern hátt að þolanlegum lánskjörum. Að veita þetta lán á ekki að vera á neinn hátt hættulegt fyrir landssjóðinn, þegar skilyrðanna er gætt. Jörðin er og á bezta stað og því líkur til þess, að eftirmaður sýslumanns í sýslunni mundi kaupa jörðina og húsin. Og viðvíkjandi tryggingunni er þess að geta, að landsstjórnin getur heimtað þær tryggingar, sem hún vill. Og eg er í engum vafa um það, að ef stjórnin t. d. heimtaði ábyrgð sýslunefndar að öllu eða einhverju leyti, þá mundi sú ábyrgð fást, því að sýslunni er stórhagnaður í að hentugt sýslumannssetur komist þarna upp, hvort sem litið er á þá nauðsyn að geta fest þann sýslumann, sem nú er, í sessi, eða það, að gera embættið sæmilega aðgengilegt fyrir eftirmann hans. Vér höfum nú, Rangæingar, haft hvern sýslumanninn á fætur öðrum; þeir hafa haldist 1 eða 2 ár, og sumir jafnvel verið að eins hálft ár. En það munu flestir kannast við, að ekki horfi það til nytsemdar fyrir sýsluna að verða stöðugt að skifta um sýslumenn. En mér er kunnugt um það, að þessi sýslumaður mundi geta vel unað því að vera í sveit, ef hann gæti fengið góðan bústað. Tel eg það því happ fyrir sýsluna, ef það gæti orðið, því að hann hefir kynt sig mjög vel. En að tryggja það, að hann hlypi ekki strax í burt, eins og fyrirrennarar hans hafa gert, það mundi einmitt þessi lánveiting gera, jafnframt því sem hún mundi gera sýsluna aðgengilegri fyrir eftirmann hans, þar sem hann mundi að sjálfsögðu geta fengið bústað þennan keyptan fyrir hæfilegt verð.

Mér þykir ekki ástæða til, að skifta mér af öðrum breyt.till., en eg hefi nú nefnt, og hirði ekki um að fara í hnútukast út af þeim, þó að eg geti ekki felt mig við þær allar sem bezt, eins og sjást mun við atkvæðagreiðsluna. Að eins vil eg geta þess, að eg er samþykkur háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.) um það, að hækka styrkinn til frú Torfhildar Hólm, þótt eg sé yfirleitt ekki samþykkur því, að hækka eftirlaun. Bæði er hér um litla fjárveitingu að ræða, að eins 1 kr. á dag, og í annan stað hefir hin háttv. þd. verið svo ríf á fjárveitingum til annara skáldsagnahöfunda, að mér finst þessi höfundur eiga að koma til greina, engu síður þó kona sé, einkum þegar svo hóflega er beiðst, og það er öllum vitanlegt, að hér er um þjóðkunnan og góðkunnan rithöfund að ræða.