24.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í B-deild Alþingistíðinda. (1077)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Einar Jónsson:

Eg býst ekki við, að hlutverk mitt verði öfundsvert, eftir því sem eg hefi heyrt af h. deild. Eg hefi hér tvær till., sem ekki er vel undir tekið. í fyrsta lagi lánbeiðni kaupfélagsins Ingólfs á Stokkseyri, og í öðru lagi lánbeiðni sýslumannsins í Rangárvallasýslu. Eg heyrði á hinum hv. frsm. (Sk. Th.), að lánbænum þessum myndi eigi verða vel tekið, sérstaklega mælti hann á móti Ingólfsfél. láninu. En eg álít, að hann sé ráðríkur maður, sem eigi þoli annara vilja en sinn eigin, en játa, að hann talaði nú með furðu lítilli ósanngirni viðvíkjandi lánbeiðni sýslumanns Rangæinga. Að eg álít hann ráðríkan og ósanngjarnan, kemur til af móttökum þeim, sem hann veitti mér, þegar eg lét fyrst til mín heyra hér í deildinni. Eg tel líklegt að þær hafi átt að vera til þess gerðar, að þrykkja mér niður, og bæla mig undir, en eg get með fullri einurð sagt háttv. þm. það, að þá hefir hann farið í geitarhús að biðja sér ullar. Honum mun aldrei takast að bæla mig niður, en má mín vegna reyna það svo oft sem honum sýnist. Eg gat eigi gefið honum þessar skýringar strax, þar sem búið var að skera umr. niður, en læt þær hér með koma.

Þá var það h. 2. þm. Rvk. (M. B.), sem tók þessum málaleitunum mjög illa, talaði hann með ofsa, gauragangi og ósvífni. En eg læt glaum hans eigi fá mikið á mig, því eg álít hann eigi eins skynsaman mann og framsm. fjárlagan., og hefi eg veitt því eftirtekt, að hann gerir sér meira far um að tala hátt en þarft.

Þá er hezt eg snúi mér að láni kaupfélags Stokkseyrar. Það er ákveðið 60,000 kr., en ekki 69,000, eins og stendur á atkvæðaskránni. Mér er kunnugt um, hvernig hagur félagsins stendur, þar eð eg er í stjórn þess; álít eg ekki rétt, að neita félaginu um lán þetta, þar sem það nú er í kröggum með »driftkapítal«, en enga peninga unt að fá í bönkum. Viðskiftamenn félagsins eru bændur, sem enga peninga hafa handbæra til innkaupa á vörum. Það hafa komið fram raddir um, að hagur félagsins muni tæpur, en eg get borið um, að svo er ekki. Eg hefi með höndum eignaskrá félagsins, sem eg skal lesa upp, ef h. torseti leyfir; það tekur eigi langan tíma.

Eigur:

Kr. a. Kr. a.

I. Húseignir og önnur mannvirki samkv. virðingargerð 22/10 ´07 ................................................ 143,592,00

Áhaldareikn. samkvæmt reikn. 30/11 ´08 ...................................................... 5,841,27

II. a. Vöruleifar með peningaútsöluv. 30/11 ’08 ..................................................... 148,686,90

b. Vörur ísl. gerðar 30/11 ´08 .....................................9,109,08

c. Peningar í kassa, bönkum og sparisjóð 30/11 ´08 ......................................................... 57,736,74

d. Ýmsar kröfur á útl. viðskiftam. 30/11 ´08 ...........................................................13,400,00

e. Útistandandi í sölu- og pöntunardeildum ...... 63,238,61 441,604,60

Skuldir:

Kr. a. Kr. a.

Við bankana og ýmsa innieignamenn utan lands og innan ......................................... 244,570,00

Tollur af tollgeymsluvörum ..... 2,295,23

Varasjóður 1907 .......................1,396,66

Stofnfjárreikningur 30/11’08 ....51,075,00 299,336,89

Skuldlausar eignir: 142,267,71

Eftir þessum reikningi, sem engin ástæða er til að ætla að sé rangur, eru skuldlausar eignir félagsins rúm. 142,000 kr., að meðtöldum hlutabréfum 60 þús. kr., og er það hin sama upphæð, sem farið er fram á, að landsjóður láni eða útvegi að láni, og þar fylgt sömu reglu sem um Sláturhúsið, en þetta komi alt að veði, hús og aðrar eignir. Ef ekki er hlaupið undir bagga horfir illa til með verzlun bænda þetta ár. Þegar bankarnir lána eigi neitt, verður að leita á landssjóð. Áhættan er engin. Eg hygg, að h. samdeildarmenn mínir hafi kynt sér þetta mál rækilega, en eg býst ekki við að mín orð megi sín svo mikils, að þeir láti að þeim, En greiði þeir atkv. móti þessu, greiða þeir jafnframt atkvæði á móti því, að verzlunin verði innlend, á móti framförum í verzlunarviðskiftum landsins, því það eru kaupfélögin, sem starfa í þá átt, að veikja afl miljóna- og annara stórgróðafélaga, en gera verzlunina innlenda, og veit eg, að allir skilja hverju slíkt munar. Vona eg því, að þeir hugsi sig vandlega um, áður en þeir hafna þessari beiðni.

Þá kemur húsbyggingarlánið sýslumannsins í Rangárvallasýslu. Það hefir þegar verið mikið um það talað, og hafa menn víst þegar tekið afstöðu í málinu. Samþingismaður minn talaði vel og rækilega um þetta atriði, og þarf eg því eigi að fara um það mörgum orðum, en ætla að lýsa málinu eftir minni afstöðu. Það er ekki það sama að vera sýslumaður í Rangárvallasýslu og í öðrum sýslum landsins. Það stendur svo sérstaklega á í þessari sýslu, að þar eru engar aukatekjur að hafa, því í sýslunni er engin höfn. Sýslumaðurinn hefir því að eins sín ákveðnu laun, sem ekki eru hærri, en annara sýslumanna, því að launin bæði í Rangárvallasýslu og öðrum sýslum landsins voru ákveðin, áður en verzlunarstaðir fjölguðu og tollar hækkuðu. Væri ekkert sanngjarnara, en veita honum launahækkun, ef þessu er synjað. Mér finst ekki nokkur hætta, að veita þetta lán, því sýslumaðurinn setur jörð að veði, sem engin hætta er á að eyðileggist af náttúrunnar völdum, og með þeim húsum, sem hann byggir. Afstaða sýslumannsins í Rangárvallasýslu er verri en annara sýslumanna, því þá er hann flutti úr Skaftafellssýslu, var því nær ómögulegt fyrir hann, nema með stórum annmörkum og erfiðleikum, að fá sér skýli yfir höfuðið, sökum þess að enginn kaupstaður er í sýslunni til, en húsakynni bænda upp í sveitum óvíða, jafnvel hvergi svo úr garði gerð, að embættismaður með fjölskyldu geti þar komist að neinu brúklegu. Eru það vandræði mikil fyrir hann, sem er fjölskyldumaður að fá eigi gott húsnæði. Eg vona, að hinir háttv. þingdm. sjái, að þetta er sanngjörn krafa, er svona sérstaklega stendur á, en láti ekki flokksríg villa sér sjónir.

Af því að umr. hafa nú þegar orðið svo miklar, þá skal eg ekki lengja þær að mun. Þó vil eg ekki láta hjálíða, að minnast lítið eitt á önnur atriði, auk þess sem eg þegar hefi nefnt.

Það er þá fyrst lánbeiðni Sláturhússins, sem að vísu hefir verið mikið rætt um. Eg get ekki álitið, að það lýsi neinni eigingirni af minni hálfu, þótt eg sé þessu máli hlyntur; get líka fyrir þessu máli talað frá fleiri hliðum en eigingirninnar. Háttv. 1. þ. m. Rvk. (J. Þ.) sagði í dag, að Sláturhúsið væri í rauninni einokun, að eins til að koma öðrum á kaldan klaka. En þessi ummæli eru mjög ómakleg, þetta er engan veginn tilgangurinn. Og eg er viss um að félagarnir vilja það heldur ekki. Markmið félagsins er að koma kjötmarkaðinum í betra horf, það vill stuðla að því, að gott og vel verkað kjöt seljist vel erlendis. Auk þess er það tilgangurinn, að kjötið sé selt Reykvíkingum velverkað og með sanngjörnu verði. Mér er kunnugt um, hvernig fjársalan var áður, það varð oft á misrétti mikið í þeim skiftum, alt komið undir því, hvernig þeir áttu saman, er skiftu saman. Ef seljandinn var hygnari en kaupandinn, þá seldi hann vel sem kallað er, en beið halla, ef kaupandinn var honum snjallari. Sveitabændur þoldu þetta ekki, það þurfti að lagfæra það, en ekki var það gert Reykvíkingum til baga. Því hefir verið kastað fram, að Sláturhúsið hafi ekki farið rétt að. Eg get að vísu ekki neitað því, að hér hafi orðið á nokkur galli síðara árið, en fyrra árið var ekkert aðfinsluvert; finst mér að þessi skýring sé sanngjörn í þessu efni. Hið síðara árið hefir Sláturhúsið gert breytingu, sem ekki hefði átt að vera, það byrjaði á of háu útsöluverði fyrst, þegar féð kom, og reyndist verðið of hátt. Eini ójöfnuðurinn stafar af þessu. En þetta má laga, og er eg því kunnugur, að félagið vill sjálft laga þetta. Eg vildi óska þess, að því er sláturhúsið snertir, að Reykvíkingar og sveitamenn kæmi sér saman um einhverja heppilega tilhögun, í stað þess að meinga hvorir aðra um eitt eða annað í þessu efni. Það er alls ekki réttmætt, að Reykvíkingar álíti félagið einokun. Sveitamenn vilja það að minsta kosti ekki, og eg vona, að það verði heldur ekki.

Þá vildi eg fara nokkrum orðum um smjörbúin, eða öllu heldur verðlaun til þeirra. Eg get ekki fallist á það, sem haldið hefir verið fram, að ósanngjarnt sé að veita smjörbúunum verðlaun einum degi lengur, mér finst einmitt ósanngjarnt að afnema nú þennan styrk. Hinsvegar mundi eg ekki vera því algerlega mótfallinn, ef það er einlægur vilji þingsins að minka þennan styrk að nokkru, þ. e. smám saman, þannig að lækkað sé tillag þeirra rjómabúa, er hafa starfað um nokkurn tíma og því létt nokkru af skuldum sínum. Það væri ekki með öllu ósanngjarnt, en hitt ekki rétt að afnema hann. Ástæðan til þessa er sérstaklega sú, að búin hafa byrjað starfsemi sína í þeirri von, að þau nytu einhvers styrks úr landssjóði um óákveðinn tíma. Þau hafa meira að segja búist við, að þau nytu hans á meðan þau standa. Ef landssjóður hefði þegar í byrjun tiltekið einhvern vissan tíma, segjum 5—10 ár, er styrksins nyti við, þá væri alt öðru máli að gegna, þá væru búin sjálfráð, hvað þau gerðu í því efni að setjast á stofn. En nú hefir þetta ekki verið gert, og búin hafa því vonast eftir framhaldi styrksins. Væri illa farið, ef þau yrðu svift styrknum, áður en sýslufélögin geta staðið straum af þeim. Eg hefi sjálfur verið við rjómabú riðinn, hefi verið í stjórn sumra, og er því kunnugt um, að þeim er það mikið kappsmál að losa sig sem mest úr skuldum. En það hafa fæst þeirra getað gert á þeim 5 árum, er þau hafa staðið lengst. Tel eg því illa farið, ef þau yrðu svift styrknum, áður en þau eru búin að losa sig úr skuldum. Landssjóður hefir veitt rjómabúunum lán með góðum kjörum, 3% vöxtum afborgunarlaust fyrstu 5 árin. En það lán er ekki nógu mikið; búin hafa því orðið að fá ½ fjárins annars staðar frá, og þá með verri kjörum. Þau búin, sem mestum skuldum hafa létt af sér, hafa losað sig við þetta erfiðara lán, en landssjóðslánið stendur eftir. Samt geta þau ekki kallast illa stödd, enda ekki drepandi að borga 2—3 þús. kr. á 15 árum, ef vel gengur. Þó má ekki kippa burtu styrknum á meðan búin hafa ekki fyllilega losað sig úr skuldum, því að hann örfar þau líka til að framleiða betra smjör, en þau gerðu ella.

Á eitt vil eg minnast enn, þótt mér standi það mál að vísu persónulega fjær, en þetta sem nú hefi eg nefnt. Það er Eiðaskólinn, sem margbúið er að tala um. Þetta er að vísu stórmál, bæði fyrir landið í heild sinni, og svo sérstaklega fyrir sýslufélögin, er hlut eiga að máli. Menn hafa nú bæði mælt með og móti styrkveitingunni, hvorirtveggja með talsverðum rökum. Tel eg þar ekki ósanngirni af hvorri hálfu. Háttv. framsm. (Sk. Th.) var að vísu nokkuð harðorður — en honum virðist annars nokkuð gjarnt til að fara allhörðum orðum um ýmislegt, og sagði hann, að Múlsýslungar hefðu farið fram á fé úr landssjóði til byggingarinnar, en verið neitað, en svo hefðu þeir ráðist í húsbygginguna sjálfir og ekki haft landssjóð með í ráðum. Hefðu þeir þar með reist sér hurðarás um öxl. Má vera, að þetta sé rétt, en ekki hafa þeir gert þetta í því skyni að bjóða landssjóði byrgin, heldur hafa þeir talið verkið þarft og nauðsynlegt og því lagt út í það, þótt landssjóður yrði ekki við tilmælum þeirra. Þeir hafa eðlilega ekki viljað útiloka Austurland frá öllum mentastofnunum. Og myndi eg sennilega hafa fylgt þeim að málum, ef til þess hefði komið. Hafa þeir og að líkindum hugsað á þá leið, að þeir myndu geta fengið styrkinn síðar meir. Nú þegar þeir flýja á náðir landssjóðs, þá er ekki rétt að núa þeim þessu um nasir. Hafa næg rök verið tilfærð fyrir gagnsemi skólans. Og því verður ekki neitað, að skóli á Austurlandi ætti að gera sama gagn og skólar annarsstaðar á landinu. Væri sanngjarnast, að einn slíkur skóli væri í hverjum landsfjórðungi.

Svo að eg taki mér nú dálítinn útúrdúr, vil eg nefna Flensborgarskólann í þessu sambandi. Það væri meiri sanngirni að flytja hann að Eiðum, því að hér er nóg af skólum í grendinni. Hitt er aftur á móti sanngjarnt hjá háttv. framsm. að eðlilegast væri að Múlsýslungar biðu nú, ef þeir ættu styrks von síðar; á það get eg fallist. En ómaklegt að neita þeim, þótt þeir hefðu ráðist í þetta af dugnaði og framkvæmdarsemi.

Að lokum vil eg minnast á 2 smáatriði, er eg hallast að báðum. Hið fyrra er um styrkinn til bóndans á Tvískerjum, er háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.) talaði rækilega fyrir og hæstv. ráðh. einnig. Því er eg meðmæltur; tel það mjög nauðsynlegt.

Hitt var um styrkinn til frú T. Holm. Eg hefi lesið margt eftir hana og haft ánægju af. Eg hlýt að viðurkenna, að þessi kona hefir unnið mikið verk og ætti verðlaun skilið, ekki síður en karlmenn þeir, sem nú hafa verið styrktir, sumir jafnvel meira en þeir sjálfir hafa getað búist við, eða beðið um.