24.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Björn Sigfússon:

Ætla að eins að svara fyrirspurn. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) beindi spurning til mín, þótt hann héldi að eg væri dauður, og hefir hann því ekki ætlað að hlífast við að leita frétta af framliðnum! Hann beindi þeirri spurningu til mín, hvernig liði smjörbúinu í Torfalækjarhreppi? Hann kvaðst hafa heyrt að þar væri ekki alt með feldu. Eg skal fræða háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) um það, að smjörbú þetta hefir einungis starfað eitt sumar. Stofnendurnir fengu lán úr landssjóði til húsbygginga og áhaldakaupa, en af einhverjum ástæðum hefir starfrækslan ekki haldið áfram. En háttv. þm. getur verið rólegur fyrir því að það eyðir engum eyri af því fé sem veitt er til smjörverðlauna. Um það hvort nokkur ráðstöfun hefir verið gerð til að innheimta landssjóðslánið get eg ekki frætt hann. Um það verður hann að spyrja stjórnina, það er hennar að annast um að lán þau sem hún veitir séu endurgreidd á réttum tíma.

Eg vil ekki vera að eyða tímanum til að tala um ýmislegt, sem hefir verið athugavert í ræðum manna, en get þó ekki með öllu gengið framhjá að mótmæla ummælum háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) að »landbúnaðurinn sé ómagi á landssjóði«; slík ummæli eru svo vanhugsuð að þau eru eins dæmi. Af því hann rökstuddi ekkert þessa fullyrðing, er þar engin rök að hrekja, og ekki ástæða til að fjölyrða um það. Engum getur dulist það, að ýmsir þm. líta öfundaraugum til þess, hversu mikið landbúnaðurinn ber úr býtum, það er eins og þeir muni ekki eftir því, hversu mikla þýðingu það hefir fyrir landið í heild sinni, að landbúnaðurinn blómgist. Árlega dregst fjöldi fólks frá sveitunum til sjávarins, vegna hins háa kaupgjalds, sem sjávarútvegurinn býður, þetta er blóðtaka fyrir sveitirnar, einkum þar sem oft fer svo sorglega að þessu fólki er beinlínis sökt í sjóinn. Einnig er fengin reynsla fyrir því, að þegar illa árar við sjóinn þá flykkist fólkið aftur til sveitanna, sem þá oft og tíðum er komið á vonarvöl, já — flutt þangað fátækraflutningi. Tækist það nú að eyða sveitirnar, þá fengi sjávarsveitirnar ekki það fólk þaðan, sem þær þurfa með, og þessvegna ætti líka sjávarmönnum að vera það ljóst, að bezt sé og heillavænlegast til frambúðar, að sveitabúskapurinn blómgist sem bezt; hinsvegar hefi eg aldrei haft á móti því að veita það sem hægt er til sjávarútvegarins, og hefi aldrei komið með till. í þá átt að hnekkja honum. Þá er það ekki síður kunnugt, að kaupstaðirnir draga til sín fjölda fólks úr landsveitunum, og þaðan hafa oftast komið hinir nýtnstu embættismenn þessa lands. Það er því ekki aðeins ómaklegt heldur líka óhyggilegt fyrir þá að vilja hnekkja landbúnaðinum.