24.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í B-deild Alþingistíðinda. (1085)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Jón Sigurðsson:

Það var sérstaklega ræða háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) sem eg ætla að svara, hann fór svo gífurlegum orðum um sambandið á millum landbúnaðar og sjávarútvegarins, að sá samanburður var alls ekki heppilegur. Ef vel á að fara, þá eru báðir þeir atvinnuvegir nauðsynlegir fyrir þetta land, og því full ástæða til að styðja þá báða. Þeir menn, sem eru að vekja þetta kapp, vinna óbeinlínis að því, að hvor af þessum atvinnuvegum fari að reyna að slá sér upp á kostnað hins, en þetta er alls ekki heppilegt. Sem betur fer er bæði í sjávarsveitum og landssveitum að aukast áhuginn á því að rækta og klæða landið, því að eg gæti ekki hugsað mér meiri ógæfu fyrir þetta land, en þá að landbúnaðurinn færi í kalda kol. Ef farið er að gera upp reikninginn á millum sjávarútvegar og landbúnaðar, þá verður að taka það með í reikninginn, að sveitirnar hafa lagt til fólkið, til að byggja bæina, og til þess að halda úti skipastólnum, og sömuleiðis í mörg embætti kaupstaðanna. Skal að eins benda á eitt dæmi, að Húnvetningar hafa lagt Reykjavíkurbæ til 5 lækna á fám árum. Þess vegna vil eg segja það, að það situr ekki á Reykjavík að telja eftir þann styrk, sem gengur til landbúnaðarins. Ræður þm. hafa þó gengið út á það, að gera landbúnaðinn tortryggilegan og sérstaklega hefir háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) komist þar freklega að orði, er hann sagði að landbúnaðurinn væri ómagi á sjávarútveginum. Mér finst þetta ekki rétt, að vera að amast við styrk til landbúnaðarins, styrk sem gengur til þess að bæta landið og gera það verðmeira, og það vil eg segja að þessir háttv. þm. ættu að snúa sér að öðru efni en að gera landbúnaðinn tortryggilegan í augum manna, hann sem hefir þó verið hyrningarsteinninn undir þjóðlífi voru og þjóðarmenning, fyr og síðar.