01.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í B-deild Alþingistíðinda. (1092)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Jón Magnússon:

Eg hefi leyft mér að koma með breyt.till. við fjárlögin og þarf eg ekki að tala langt mál um hana, þar sem háttv. fjárlaganefnd er henni meðmælt. Breyt.till. er þess efnis, að íshúsfélagi Vestmanneyinga verði lánaðar 20,000 kr. úr viðlagasjóði. Félagið hefir komið upp mjög myndarlegu ís- og frystihúsi, sem gerir mjög mikið gagn og er ómissandi að hafa fyrir eyjarnar og hefir kostað um 40,000 kr. Sýslufélagið á örðugt með að leggja þetta fé fram í einu og líka óhægt með að fá svo stórt lán, sem þarf til þessa fyrirtækis. Eg skal svo ekki orðlengja um þessa breyt.till., en þakka fjárlaganefnd fyrir góðar undirtektir í þessu atriði.

Þá hefi eg leyft mér að bera fram aðra breyt.till. þess efnis, að fé verði veitt til þess að leggja síma til Vestmannaeyja næsta ár. Eg get vel hugsað mér, að þótt deildin fyndi ekki ástæðu til þess að veita þetta fé á fjáraukalögunum fyrir árið 1909, þá þyki máske ástæða til þess að veita það á fjárlögunum. Því þarf ekki að lýsa, hvað bráðnauðsynlegt og þarft fyrirtækið er, það hefir verið gert rækilega fyrir skemstu hér í deildinni; eg skal að eins um þessa hlið málsins leyfa mér að geta þess, að landsímastjórinn er þeirrar skoðunar, að þessi sími eigi að koma á undan öllum öðrum símum, sem nú eru ólagðir, nema auðvitað ekki símanum austur sýslurnar, þar sem Vestmannaeyjasíminn verður að vera framhald af honum.

Fjárlaganefnd hefir heldur ekkert haft á móti nauðsyn þessa máls, en heldur því fram, að nauðsyn sé að fá vitneskju um, hve mikið þráðlaust samband kosti, svo að hægt sé að gera sér ljóst, hvort ekki sé tiltækilegt að hafa loftskeytasamband milli Eyja og lands heldur en þráðar-samband. Það gæti verið ástæða til þess, ef ekki væri deginum ljósara, að talsamband hefir svo mikla yfirburði yfir hraðskeytasamband eitt, og ef ekki væri fyrirfram fengin full vissa fyrir því, að þráðlaust hraðskeytasamband milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur yrði miklu dýrara en símasamband, eins og nú er komið.

Það er marg viðurkent, að talsímasamband hefir svo afarmikla yfirburði yfir ritsímasamband, munurinn er að sínu leyti líkur því sem er að talast við og skrifast á, og svo eru talsímastöðvarnar mjög óbrotnar og vandalaust að stjórna þeim. Á hinn bóginn gagnar nú ekkert að vera að prédika það hér, að þráðlaust hraðskeytasamband sé eins trygt og örugt, eins og hraðskeytasamband með símanum. Það ætti því að vera óþarft að eyða orðum að því að lýsa því, hve miklu meira gagnið er að símasambandi en að þráðlausu hraðskeytasambandi. Ofan á þetta bætist, að þráðlausa sambandið verður miklu dýrara. Það verður ekki einungis að öllum líkindum dýrara og það miklu dýrara, að koma slíku sambandi á stofn í fyrstu, en símasambandi, heldur verður hinn árlegi kostnaður svo margfalt meiri við þráðlausar skeytastöðvar. Landssímastjórinn hefir einmitt þessa dagana útvegað skýrslur um það frá Noregi, þar sem til hagar líkt og hér er um að ræða, nefnilega milli Röst í Lofoten og Sörvaagen, þar er orðið hefir að hafa loftskeytasamband milli vegna þess að sími var þar ómögulegur fyrir sakir strauma. Reksturskostnaður við stöðina í Röst er 5000 kr. á ári, en 3500 kr. í Sörvaagen, vegna þess að þar er og ritsímastöð og hægt að nota fólkið frá henni til aðstoðar við loftskeytastöðina. Eg hygg að það sé ekki ofmælt, að það væri óðs manns æði að fara að setja upp loftskeytasamband milli Vestmanneyja og Reykjavíkur, úr því að þráður er kominn austur í Rangárvallasýslu. Hitt er annað mál, að vilji menn hafa samband við skip, þá má setja upp loftskeytastöð einhversstaðar á Suðurlandi hvort er í Reykjavík t. a. m. eða á Stokkseyri eða í Vestmanneyjum, en hún á þá að vera þar sem er ritsíma- eða talsímastöð fyrir. Það verður langhentugast og ódýrast. Þegar til þess kemur, hvort muni borga sig að leggja síma til Vestmanneyja, þá held eg það sé áreiðanlegt. Eins og nú er koma mjög mörg skip til Vestmanneyja, og nálega öll mundu nota síma að einhverju leyti, og þau mundu koma miklu fleiri þangað, ef símað yrði þaðan. Mér er næst að halda, að landssjóður græddi beint ekki lítið á síma til Vestmanneyja, og auk þess yrði óbeina gagnið að honum mikið og margvíslegt, að vísu fyrir eyjarnar sjálfar, en engu síður fyrir landið í heild sinni. Að eg ekki tali um það, hve miklu meira gagnið verður að símalínunni austur í Rangárvallasýslu, ef hún kemst alla leið til Eyja. Hér er því eigi verið að fara fram á nein sérstök hlunnindi fyrir eina sveit eða hérað. Dráttur á framkvæmd þessa verks er óskynsamlegur, ekki einungis vegna nauðsynjar þess yfirleitt, heldur og vegna þess að þetta er áreiðanlega beint gróðafyrirtæki fyrir landssjóð.