01.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í B-deild Alþingistíðinda. (1093)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Einar Jónsson:

Af því mér virðist, að þm. ekki vilji hafa neinar umr. skal eg vera stuttorður, en verð að fara nokkrum orðum um breyt.till. sem eg hefi. Það er þá till. á þgskj. 387, um 800 kr. árlegan styrk til Brynjólfs tannlæknis Björnssonar, gegn því að hann haldi fyrirlestra við kennaraskólann og kvennaskólann um tannsjúkdóma. Það er vitanlegt, að sú þekking, sem þarf til þess að vernda og hirða tennurnar er mjög nauðsynleg, og eg álít, að hún dreifist bezt út um landið með því, að nemendur kennaraskólans og kvennaskólans eigi kost á því námi. Nemendur þeirra skóla dreifast út um landið, og hafa áhrif á menn til fróðleiks og miðla öðrum af sínum fróðleik. Eg lýsti ástæðunum fyrir þessari fjárveiting um daginn og þarf því ekki að taka hana upp aftur. Eg get þó eigi látið vera að minnast á það, að fátækt fólk kemur oft til að fá hjálp hjá Brynjólfi og eyðir hann bæði tíma og vinnu til þess án nokkurs endurgjalds, en hann hefir barist upp á sínar eigin spýtur við alt sitt nám í gegn og þarf því síns með; og það er ekki fátækt fólk einungis úr Reykjavík, sem leitar til hans, heldur fólk víðsvegar úr landinu af skólum og annarsstaðar frá, og því er fyllilega sanngjarnt, að landið borgi honum eitthvað fyrir ómak sitt. Það getur verið haft á móti þessu, að styrkurinn sé veittur til annars tannlæknis, en það er sagt að hann láti viðvaninga af læknaskólanum fást við verkið og það verk er ekki vel unnið, og þessvegna sækir ekki fólk þá frílækningu. Eg álít meiri þörf, að hafa tvo tannlækna hér, en þótt einhver setti sig niður í öðru kauptúni landsins, eg vona að þm. álíti ekki óþarft að veita þennan styrk, þar sem svo miklu og þörfu er heitið í staðinn. Þá er hin breyt.till. á þgskj. 388 um 1000 kr. í viðurkenningarskyni til fyrverandi alþingismanns Þorvalds Björnssonar á fyrra ári. Um hana þarf eg ekki mikið að tala, maðurinn mun vera kunnur flestum þeim, sem hér eru. Maður þessi hefir búið um langan tíma, sem einn af merkustu bændum þessa lands, sannkallaður búnaðarfrömuður, sérstaklega í jarðabótum. Jörð sú, sem hann bjó á, var lítilsháttar kot, þegar hún komst í hans hendur, en hann bætti hana svo á allar lundir, að hún var þegar hann fór þaðan, með beztu jörðum í Rangárvallasýslu. Hann var rausnarmaður hinn mesti og hinn gestrisnasti, og hinn hjálpsamasti við alla, sem hans leituðu. Árið 1881—2 var harðæri mikið, eins og menn muna, og skorti mjög matbjörg, þar eð ekkert var að fá í kaupstöðunum, þá var það Þorvaldur Björnsson sem hjálpaði mörgum manni í Rangárvalla- og Skaftafellssýslum að miklum mun, og að hann gerði það ekki í eiginhagsmunaskyni, sýnir það, að hann neitaði oft ríkum mönnum, sem buðu fram peninga, til þess að geta hjálpað þeim fátækari, varð í tapi fyrir alt saman, og er nú ekki ríkur maður, en það er ekki af því einu að hann viljandi hafi spilað illa, heldur hefir hann orðið fyrir óhöppum, bæði af því, að hann varð sökum fólkseklu að sleppa af búi í sveit, seldi því bú sitt og jörð og flutti til Reykjavíkur, þó eftir áeggjun eins spekúlantsins, sem taldi hann á það, keypti hann þar »trollara« og endirinn á öllu saman er sá, að hann er nú kominn í fjárþrot, og allur eigindómur hans genginn til þurðar. Á velstandsárum sínum mun hann hafa gefið fátækum um 40 stórgripi, hesta og kýr, og munu þess fá dæmi af einum launalausum bónda. Eg vildi óska, að deildin veitti honum þetta, og að landið sjái svo sóma sinn að láta ekki þennan sæmdarmann fara á vonarvöl.