01.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í B-deild Alþingistíðinda. (1095)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Jón Þorkelsson:

Eg er hér dálítið riðinn við breyt.till., og vil eg ekki ausa meir en góðu hófi gegnir úr landssjóðnum, sem bezt sést á því, að eg hef einn farið fram á að eins 6,600 kr. útgjöld og með öðrum 7,700 kr. eða alls 14,300 kr. Hins vegar hef eg lagt til, að frestað verði útgjöldum, sem nema 219,415 krónum. Það eru þessar nýju símaleiðslur, sem héruðin togast á um. Get eg því með góðri samvizku staðið upp, og býst við, að meiri hluta flokkurinn fylgi mér nú, einkum þeir úr gamla þjóðræðinu. Því það er gömul stefna þeirra, að reyna að koma í veg fyrir símalagningar um landið. En skyldi nú svo ólíklega fara, að þessar 219 þúsundir til símanna verði samþyktar, sé eg ekki annað, en auka verði við Vestmannaeyjasímanum, því að hann virðist nauðsynlegastur þeirra allra, þó hann standi ekki á fjárlögunum. En öll vilja héruðin hafa síma, og það strax.

Þá kemur tillagan um styrkveitingu til Brynjólfs Björnssonar tannlæknis, sem eg mælti svo tvímælalaust með við aðra umræðu þessu máls, að engin þörf er á, að endurtaka það nú.

Þá kemur við 10. lið 13. gr., til aðstoðar við mælingu viðvíkjandi járnbrautarlagningu austur 2,500 kr. f. á. Eftir því sem Krabbe verkfræðingur segir, þá mun þetta vinnandi verk, að leggja þessa járnbraut, en rannsaka þarf það til hlítar, og hvort sem svarið, sem fengist við rannsóknina, væri neitandi eða játandi, er mikils virði að fá það. Þá er verkið unnið og vissa fengin. Það liggur beint við um leið og verið er að leggja síma eða talsímanet um þvert og endilangt landið, að reyna þá nokkurn veginn jafnharðan, að fá vissu fyrir því, hvort ekki sé unt, að leggja járnbrautir jafnframt.

Þá kemur 22. breyt.till. við 13. gr., sem er á þingskj. 367 um 800 kr. uppbót f. á. til Guðmundar Hávarðssonar ökumanns fyrir fjárhalla, er hann hefir orðið fyrir vlð flutning á símastaurum. Hann kemur með þessa styrkbeiðni sína í samráði við formann fjárlaganefndar, og vona eg, að háttv. framsm. fjárlaganefndarinnar (Sk. Th.) kannist við það. Eg efast ekki um, að þessi maður eigi skilið að fá uppbót eða endurgreiðslu þess fjár, er hann hefir tapað við stauraflutninginn, þó að málefnið sé mér ekki nægilega kunnugt.

Þá kemur 14. gr. fjárlaganna um styrk til kvennaskólans í Reykjavík, og höfum við farið fram á, að hann verði hækkaður, en ekki þorðum við annað, en færa jafnframt upp styrkinn til kvennaskólans á Blönduósi, svo að ekki hallaðist á Húnvetninga, enda mundi það ekki hafa hentað vel fyrir metnaðar sökum. En þar eg veit, að hv. 2. þm. Húnv. (B. S.), er kvennavinur mikill, hugsa eg, að hann muni kunna þessu ráði vel. Eins og menn vita, þá hefir skólinn í Reykjavík verið í húsi hinna háöldruðu merkishjóna, er stofnuðu hann. Var það ætlun margra, að þau mundu yfirláta skólanum húseign sína, sem þó var engin skylda, því að þau áttu skaparfa að nokkru. Þá hugðist skólinn að kaupa húsið og var kominn á nokkur munnlegur samningur um verð 20,000 kr. En ráðunautur þeirra hjóna einn, sem ekki er hér á landi nú, kvað hafa spilt fyrir því, að selja húsið á 20,000 kr., og réð þeim til, að láta það ekki falt undir 30,000 krónum, svo að aldrei keypti skólinn húsið. Nú er verið að byggja allmikið steinhús handa skóla þessum, og verður það bráðum fullgert. Þar er ætlast til, að tekin verði upp kensla í húsmóðurstörfum, sem er afar-áríðandi að fá og allir virðast vilja hlynna að. Er þá líklegt, að menn verði hlyntir auknum styrk til skólans.

Þá er næst í 15. gr. til skjalasafnsins. Er það fé, sem þar er farið fram á afar-nauðsynlegt, og vænti eg, að það verði veitt, eins og hér er stungið upp á.

Þá kemur fjárveiting til forngripasafnsins, að upphæð 500 krónur. Í beiðnisbréfi sínu segist forngripavörður meðal annars þurfa að fá skrásettar og ákveðnar gamlar myntir safnsins og fága þær upp, enda eru sumar þeirra farnar að skemmast, að ýmsu leyti. Myntasafn þetta er nú orðið býsna stórt, nálægt 4000 mynta, alt óskrásett. Er það flest komið að gjöf danskra manna nokkurra, og svo Tryggva bankastjóra Gunnarssonar.

Þá hefir verið óskað, að hækka lítið eitt styrkinn til Sögufélagsins í því skyni, að það geti gefið örara út biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal. Það, sem farið er fram á, er að eins lítilræði, 150 kr. hvort árið, og vænti eg þess, að deildin taki vel undir það.

Þá kemur styrkurinn til meistara Sigfúsar Blöndals fyrir að semja íslenzk-danska orðabók. Fjárlaganefndin lækkaði hann um helming, eða úr 600 kr. niður í 300 kr. En það er að mínu áliti gert að ófyrirsynju og alveg af blindu handahófi. Sigfús er röskur og duglegur maður og vill koma verki sínu sem fyrst af. Eg er honum kunnugur persónulega, og get borið um, að hann er einnig vandvirkur og samvizkusamur maður, sem má bera fult traust til.

Þá er að minnast á styrkbeiðni Magnúsar ljósmyndara Ólafssonar. — Öllum er kunnugt, að ljósmyndir hans eru gerðar af mikilli list og prýði. Myndir hans af ýmsum fögrum stöðum hér á landi og merkum mannvirkjum, eru alkunnar, og þá ekki síður af konungskomunni 1907. En styrkinn ætlar hann til þess, að ferðast um landið og taka ljósmyndir af fegurstu, einkennilegustu og viðburðaríkustu stöðvum þess. Styrkurinn er hann biður um, að upphæð 1000 kr., er að mínu áliti alls ekki of hár, en þó hefi eg ekki þorað, að fara fram á meira, en helming þess eða einar 500 kr., og vona eg þá, að deildin verði því greiðari á, að veita hann.

Þá kemur breyt.till. við 16. gr. Það liggur fyrir áskorun frá félagi hér í bænum, er eg ætla, að sé hið svonefnda »Framfarafélag«, er óskar þess, að þingið veiti nokkurn styrk meðal annars til þess, að leiðbeina íslenzkum innflytjendam frá Ameríku. En auðvitað má ekki skilja þetta svo, að með því sé ætlað, að ala að óþörfu innflutningsstjóra, eða tæla Íslendinga til, að koma hingað með fögrum loforðnm og fyrirheitum.

Þá kemur breyt.till. um 1000 kr. í viðurkenningarskyni á þingskjali 368 til Þorvalds Björnssonar fyrv. alþingismanns. Er óþarfi, að fjölyrða um hann, því háttv. 2. þm. Rangv. (E. J.), sem hefir verið í sömu sýslu og þekti hann um langan tíma, skýrði nýskeð ágællega frá ágætum þessa merkismanns. Þorvaldur er þess utan þjóðkunnur maður, og það vita allir, að hann hefir verið einn af hinum stórfeldustu höfðingjabændum þessa lands, í minni þeirra manna, sem nú lifa. —

Hann er nú hálf-áttræður að aldri. Öllum er farið hafa um Austurveg, er kunn gestrisni þessa mikla sómamanns. Þorvaldur er vel að þessari viðurkenningu kominn, og það vona eg, að þingdeildin láti ásannast.

Hvað slátrunarhúsin snertir, þá mælum við þingm. Reykvíkinga ekki á móti því, að slátrunarhús Suðurlands fái lán það, sem fram á er farið, ef það heldur áfram, að starfa þolanlega, en jafnframt því sjmist mér eiga að sinna lánbeiðni Gunnars Einarssonar til slátrunarhúss hans; það er í almenna þörf hér gert, og svo er auk þess veð hans betra; alt sláturhúsið er úr steini, og svo er önnur steinbygging að veði og loks er auk þessa ábyrgð félagsins sjálfs. Eg get ekki séð, að neitt mæli á móti því, sem hér er farið fram á. Þetta hús gæti orðið og ætti að verða sameignarsláturhús fyrir Reykvíkinga. Það var verið að tala um það hér um daginn, að »Sláturfélag Suðurlands« ætti ekki og hafi aldrei átt að vera nein einokunarstofnun eða kúgunarsamband til þess bæði að loka öllum sundum um kjötkaup manna hér við sjávarsíðuna við aðra en félagið, og til þess að rígbinda bændur til þess, að verzla við engan mann nema í gegnum félagið. Lög þessa félags frá 25. júni l908 hafa nú borist mér. Þar er það tekið fram, að það varði einmitt háum sektum, að verzla við aðra en félagsmenn. Og til þess að sýna og sanna, að hér sé rétt skýrt frá, þá ætla eg með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp fyrir þingmönnum klausu nokkra úr 7. gr„ er hljóðar svo:

»Félagsmaður hver er skuldbundinn til að skifta við sláturhús félagsins með alt sauðfé og nautgripi, er hann selur til slátrunar .... Brot gegn ákvæðum greinar þessarar varðar sektum, 5 kr. fyrir sauðkind hverja og 25 kr. fyrir nautgrip hvern, er félagsmaður selur utanfélagsmanni ......

En ef þetta er ekki byrjun til einokunar, þá er ekki gott að vita, hvað einokun er. Eigi að styðja þetta félag til þess, að vera eitt um hituna um alla kjötverzlan, þá er ekki annað sýnilegt, en að vandræðin sé vís, en fyrir öllum vandræðum ber jafnan nauðsyn til að stemma stigu.