01.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í B-deild Alþingistíðinda. (1096)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Umboðsmaður ráðherrans (Klemens Jónsson):

Vegna stöðu minnar hér á þinginu sem umboðsmaður ráðherrans, þess manns, sem þangað til fyrir skömmu var framsögumaður fjárlaganefndarinnar, verð eg að láta mér nægja að tala um nokkur formleg og almenn atriði, en sleppa öllum einstökum atriðum, sem eg þó persónulega gjarnan hefði viljað minnast á.

Eg skal þá fyrst vekja athygli hins hæstv. forseta á, að hér liggja fyrir nokkrar breyt.till., sem ekki mega komast að, vegna þess að það er búið að fella þær áður. Þessum »afturgöngum« verður að vísa frá, og það er samkvæmt þingsköpunum, hæstv. forseti, sem hefir vald til þessa og hans úrskurði í því efni verður deildin að hlíta. Sem dæmi upp á slíkar óleyfilegar breyt.till. skal eg nefna br.-till. á þskj. 389, sem nú liggur fyrir í sambandi við þskj. 281, 24. tölulið, breyt.till. á þgskj. 390 3. lið í sambandi við þgskj. 300, 1. lið og viðaukatillögu á þgskj. 387 í sambandi við þgskj. 294. Þessum tillögum ásamt ýmsum fleiri, sem eg hirði eigi að nefna, verður að vísa frá.

Þá vil eg víkja að lánsheimildunum. Eg vil taka það fram fyrir hönd stjórnarinnar, að það er alveg óhugsandi, eins og hag landssjóðs er varið, að hægt sé að veita öll þau lán, sem hér er lagt til að heimila. En ef svo færi, að stjórnin sæji sér fært, að veita einhver lán, þá vildi eg spyrja háttv. framsögumann, hvort það væru nokkur sérstök lán, sem fjárlaganefndin hefði hugsað sér, að ættu að ganga fyrir öðrum? Eða hvort stjórnin á að hafa frjálsar hendur?

Viðvíkjandi heilsuhælinu, þeirri lánsheimild, sem eg þykist vita, að allir óski að fái framgang, vildi eg sérstaklega mega spyrja, hvort það er meiningin, að taka eigi það fé 150 þús. kr. úr viðlagasjóði, eða hvort það sé tilætlunin að fá það lán annarsstaðar gegn ábyrgð landssjóðs? Yfir höfuð er mér eigi ljóst, hvernig fjárlaganefndin hefir hugsað sér, að það fé fengist, sem þarf til þess að þessari afarnauðsynlegu stofnun verði komið upp, og vænti að háttv. framsögum. gefi upplýsingar um það, er geti verið til leiðbeiningar fyrir stjórnina.

Enn eitt atriði vil eg benda á sérstaklega í sambandi við breyt.till. á þingskj. 360 við 15. gr. 3. b. Við 2. umr. var bætt við fjárveitinguna í 13. gr. A. 1. b. handa póstafgreiðslumönnum í Reykjavík talsverðri upphæð, sem eftir tillögum fjárlaganefndar á að ganga sérstaklega til 2. og 3. póstafgreiðslumanns sem launaviðbót, án þess að það væri nokkuð borið undir stjórnina. Eg verð að telja það mjög óviðurkvæmilegt, að þingið skuli fara að taka til greina fjárbeiðslur frá þjónum hins opinbera, án þess að stjórnin sé nokkuð látin hafa um það að segja. Það hefir verið regla, að slíkar fjárbeiðslur hafa verið sendar stjórninni og hún hefir aftur sent þær fjárlaganefndinni með áliti um þær. Sama er að segja um 2. breyt.till. á þingskj. 360 um 500 kr. fjárveitingu til þess að raða myntasafni Forngripasafnsins. Það er landstofnun eða þjóð- eða ríkis-stofnun, svo sem vinur minn háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) vill kalla það. Sú málaleitan hefir alls ekki komið til stjórnarinnar, og verð eg að telja það mjög óheppilegt af þeim ástæðum, sem áður eru greindar.

Þá skal eg snúa mér að breyt.till. frá háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) á þgskj. 359, um að fella niður fjárveitingar til nýrra símalagninga. Það er satt, að með þessu sparaðist mikið fé, en ekki virðist hinn háttv. þm. taka mikið mark á almannavilja í þessum efnum. Eg skal þó ekki fara nánara út í það. En eg get tekið undir með h. framsm. með það, sem mína persónulegu skoðun, að betra hefði verið að taka lán til allra símalagninga í upphafi, þá mundu tekjur og gjöld fjárlaganna hafa jafnað sig betur. En það er ekki ofseint enn; vel mætti laga það í Ed.

Breyt.till. á þingskj. 386 frá fjárlaganefndinni, um að setja athugasemd við 12. gr. 8. b. um styrk til spítalans á Akureyri, er með öllu óþörf. Spítalinn er stofnaður í upphafi fyrir gjöf privatmanns, og því ekki nein landsstofnun, en það er ekki rétt í sjálfu sér að setja slíkar athugasemdir á fjárlögin, því að ekkert þing er við þær bundið. Jafnvel næstu þing, sem þó sömu menn sitja væntanlega á, geta veitt nýjan styrk, svo að slíkar kategoriskar athugasemdir eru bæði óþarfar og enda óviðurkvæmilegar.

Ennfremur er br.till. á sama þgskj. við 14. gr. A. b. 4., um að síra Runólfi Runólfssyni verði veittur 200 kr. styrkur. Þessi fjárveiting á undir engum kringumstæðum þarna heima, því að þessi maður er ekki íslenzkur uppgjafaprestur. Ef þessi styrkur yrði veittur, ætti hann að koma í 18. gr. sem eftirlaun eða fátækrastyrkur.

Þá skal eg minnast nokkuð ítarlega á breyt.till. á þingskj. 367, um uppbót handa Guðmundi Hávarðssyni. Mér þykir vænt nm, að eg skuli einmitt fá tækifæri til þess að tala um þennan bitling, því að mér er þetta mál vel kunnugt, jafnvel kunnugra en h. 1. þm. Eyf. (H. H.), fráfarandi ráðherra, því eg átti mestan þátt í samningum við Guðmund. Það kemur þráfaldlega fyrir, þegar menn koma með slíkar fjárbeiðnir til þingsins, að sagt er, að ekki sé að vísu um lagakröfu að ræða, en sanngirniskrafa sé til uppbótarinnar. Eg skal nú lýsa yfir því, að það er svo langt frá því, að hér sé um réttarkröfu að ræða, að þetta er ekki einu sinni sanngirniskrafa. Eg hefi hér í höndum skýlausa kvittun frá manninum, dags. 25. júlí 1906. Hinn háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) rökstuddi ekki heldur þessa tillögu sína, en lét sér nægja að vísa til einhvers skjals, sem þessi maður hefir útbýtt meðal þm. Það er venja, þegar kært er, að hinir kærðu fái að sjá kæruna, en svo er ekki hér; þessi kæra hefir aldrei verið send stjórninni, og eg hefi sjálfur aldrei séð hana, og virðist því svo, sem maðurinn sé með þessu að reyna að vekja meðaumkvun háttv. þm. með sér, sem honum tekst ef til vill. Eg skal nú skýra þetta mál nánara fyrir hinni háttv. þingd. Þessi maður var svo ákafur í að ná stauraflutningnum, að hann vildi gera samning um hann, þótt hann hefði aldrei á svæðið komið, sem flytja átti staurana til. Það mundi hafa verið hægt að fá hann til að gera samning að óséðu, sem ekkert vit hefði verið í fyrir hann. En við vildum það ekki, heldur réðum honum til að ferðast upp í Borgarfjörð, og kynna sér svæðið. Það gerði hann, og að því búnu gerði hann samninginn, og taldi hann mjög arðvænlegan fyrir sig, og lét þá aldrei á öðru bera við stjórnarráðið. En maðurinn var víst mjög aðþrengdur af skuldum, og mun hafa notað hinar fyrstu ávísanir, sem hann fékk og það jafnvel fyrirfram, áður en farið var að vinna verkið, til þess að grynna nokkuð á þeim. Fyrir þessu hefi eg skilríki, sem eru til sýnis fyrir þá háttv. þm., sem vilja kynna sér þau. En þótt nú maðurinn hafi orðið fyrir halla, munu afleiðingarnar verða þær, ef þingið samþykkti þessa uppbót, að koma mundu til þingsins beiðnir um uppbætur úr Norðurlandi, einkum Þingeyjarsýslu, þar sem menn hafa orðið fyrir nokkrum halla á stauraflutningi, sem með meiri sanni mætti segja um, að dálítið væri landstjórninni að kenna, og gæti þingið þá ekki neitað þeim með nokkurri sanngirni.

Persónulega hefði eg gjarnan viljað tala um fleira í fjárlögunum, en mér þykir það ekki hlýða; að sjálfsögðu mun þeim þingmönnum, sem óska upplýsinga verða þær látnar í té.