01.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í B-deild Alþingistíðinda. (1098)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Stefán Stefánsson:

Eg er svo heppinn að eiga enga breyt.till. við fjárlögin nú við 3. umr. og get því verið fáorður. Það sem eg þó vildi sérstaklega víkja að, er till. fjárlaganefndarinnar um að fella niður fjárveitingu til Eyjafjarðarbrautarinnar. Mig furðar mjög á, að þessi till. skuli koma nú fram, eftir að fjárveitingin hefir verið samþ. við 1. og 2. umr. fjárlaganna. En til athugunar fyrir háttv. þingdm., skal eg geta þess, að fyrsta fjárveiting til þessa vegar var á fjárlögum 1895, þá 1897 og síðast 1899; frá því fjárhagstímabili hefir ekkert fé verið veitt til brautarinnar og er því ekki komin lengra en sem svarar ? af þeirri leið, sem til var ætlast í fyrstu, og sem hverjum þeim hlýtur að vera ljóst, er nokkra minstu vitund þekkir til staðhátta. Nú hafa Eyfirðingar vænst þess, að þetta mundi ekki dragast lengur, þar sem bæði verkfræðingurinn og landsstjórnin leggja það til að nú sé brautarlagningunni lokið á næsta fjárhagstímabili, og í því skyni sett inn á fjárlagafrumv. til brautarinnar 10 þús. kr. hvort árið; en eins og eg nú gat um hefir meirihluta fjárlaganefndarinnar þóknast að leggja til að fella fjárveitinguna niður, þrátt fyrir það þótt hver einstakur þingdm. hafi án allra mótmæla með atkv. sínu, og sömuleiðis hin háttv. fjárlaganefnd á fundum sínum samþ. hana. Það er því undarlegra nú að vilja kippa fótunum undan þessu nauðsynjafyrirtæki, sem þegar er þó komið vel á veg, þar sem mestu líkur eru til, að með þessari fjárveiting yrði brautin fullgerð, svo hana mætti afhenda til allrar umsjár og viðhalds sýslufélaginu samkvæmt hinum nýju vegalögum og landssjóður þannig losna við þá fjáreyðslu, er af viðhaldinu leiðir. Vil eg biðja hina háttv. þd. að athuga vandlega þessa hlið málsins, auk þeirrar nauðsynjar, sem á því er fyrir héraðið að fá verkið framkvæmt, sem allra fyrst. Hvort aðrar akbrautir séu eins nauðsynlegar, skal eg ekkert segja um, til þess brestur mig nægan kunnugleika, en það eitt er víst, að þm. yfirleitt gera oflítið úr nauðsyn á framhaldi brautarinnar. Á það vil eg einnig benda, að í Eyjafirði hafa bændur breytt um flutningatæki sín, þar sem svo tilhagar á hinum einstöku jörðum, og tekið upp kerruflutninga, þar sem þeim verður viðkomið og því full vissa fyrir því að akbrautin yrði notuð tiltölulega því meir, sem framlenging hennar fengist á hina upphaflega fyrirhuguðu endastöð, Saurbæ. Þegar þess er nú gætt að inn að Grund, þar sem brautin nú endar, er venjulega mikinn hluta vetrar ísalög, svo auðvelt er að aka frá og til Akureyrar alla þá leið, en aftur þaðan inneftir héraðinu mjög óvanalegt að akfæri fáist bæði vegna berangurs og svo er á Eyjafjarðará venjulega mjög ótraustur ís, þegar þangað er komið, þá hlýtur mönnum að skiljast, hver nauðsyn er á vegarlagningunni, hvað snertir alla aðdrætti og flutninga sumar og vetur.

Eg ætla þá ekki að fara fleiri orðum um þetta vegamál, en vænti þess að háttv. þingdm. virði svo till. verkfræðings okkar og landsstjórnar, þegar þeim hinsvegar hlýtur að skiljast, hver nauðsyn er á akveginum fyrir allan innri- og víðlendasta hluta Eyjafjarðar, að þeir greiði ekki þessari óheilla till. atkvæði sitt.