01.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Jón Jónsson, (1. þm. S.-Múl.):

Það er fjarska lítið, sem eg ætla að segja, og um mjög lítilsvert efni. Það er viðvíkjandi séra Runólfi Runólfssyni.

Háttv. frsm. (Sk. Th.) hefir mælt með styrkveitingu til þessa manns, en lagt á móti fjárveitingu til Þorvalds Björnssonar.

Séra Runólfi Runólfssyni er ætlað 200 kr. árlega, — og eftir upplýsingum háttv. umbm. ráðherrans, eru ekki líkur til að þessi maður fái veitingu fyrir brauði, en á 5 árum væri hann búinn að fá 1000 kr., eftir því sem farið er fram á.

Nú vil eg spyrja: Hvor hefir nú meira til þessa styrks unnið, Þorvaldur Björnsson eða séra Runólfur Runólfsson? Hins vegar væri eg ekki ófáanlegur til að veita Runólfi Runólfssyni 2—300 kr. til þess að komast aftur til kjötkatlanna í Ameríku; þar verður mönnum líklega ekki bumbult af guðsorði hans.