01.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í B-deild Alþingistíðinda. (1111)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Jón Magnússon:

Eg hefi heyrt sagt, að háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.) hafi verið að mæla með því, að setja loftskeytasamband, en ekki símasamband milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur, því að þá gætu Skaftafellssýslurnar einnig fengið hraðskeytasamband.

Fyrverandi ráðherra gat þess, að rétt væri, að koma á loftskeytasambandi við Skaftafellssýslur af því, að um þær sýslur væri ekki hægt að leggja síma. Þar er því og eflaust rétt að hafa loftskeytasambandið, en þess vegna er engin ástæða til, að hafa loftskeytasamband milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja, og þess vegna þarf ekki að vera loftskeytastöð í Vestmannaeyjum. Væntanlegar loftskeytastöðvar í Skaftafellssýslum ættu auðvitað að vera í sambandi við loftskeytastöð á stað, þar sem ritsíma- eða talsímastöð væri fyrir, hvort sem væri t. d. í Reykjavík, Stokkseyri eða þá í Vestmannaeyjum. En ætti sú stöð að vera í Vestmannaeyjum, þá gerði háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.) sínu kjördæmi mest gagn með því, að flýta fyrir símasambandi milli Vestmannaeyja og lands; ef honum er ant um, að hans kjördæmi komist sem fyrst í hraðskeytasamband, þá ætti hann ekki að leggja til, að beðið væri með Vestmannaeyjasímann. Það þarf annars ekki langrar biðar til, að fá vitneskju um það, hvort sambandið sé ódýrast; ekki þarf annað, en að síma til einhvers loftskeytafélags, og þá fæst svarið um hæl aftur. Og þessa þarf ekki einu sinni, því að það er fyrir fram vitað, að loftskeytasambandið er bæði dýrara og lakara. Það er viðurkenningarvert, að háttv. þm. A.-Sk. (Þ, J.) og háttv. 1. þm. Rvík (J.Þ.) játa þó það með mér, að hraðskeytasamband við Vestmannaeyjar eigi að koma næst á eftir símanum austur í sýslur. Háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) átelur það, að eg skuli yfirleitt hafa á móti fjárveitingum til einstakra manna úr landssjóði, eða andmæla yfirleitt hinuin svonefndu bitlingum. Það má vel vera, að sumir af þessum bitlingum séu ekki með ölla óþarfir, og þeim fjárveitingum ekki gersamlega á glæ kastað, en þær mega þó sannarlega ekki koma í bága við nauðsynlegar fjárveitingar til verklegra framkvæmda. Og þegar vér erum svo staddir, sem nú erum vér, þá er rétt, að fara varlega í bitlingaveitingar.

Mér þykir ástæða til, af því að eg er málinu kunnugur, að mótmæla þeim ummælum, er háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) lét falla í garð síra Runólfs Runólfssonar, því að þessi maður á þau ekki skilið. Hann hefir leyst af hendi guðfræðispróf við einn skóla hins merkasta evangelisk-lúterska- kirkjufélags í Ameríku; hann hefir verið þjónandi prestur þess félags um mörg ár, og kom hingað með ágætan vitnisburð og meðmæli frá merkum prestum í því félagi. Þess vegna hafði yfirstjórn hinnar íslenzku kirkju ekki ástæðu til annars, en að taka honum vel, er hann hvarf hingað heim aftur. Hitt er annað mál, að eg er hinum háttv. þm. samdóma um, að ekki sé ástæða til, að veita síra Runólfi eftirlaun úr landssjóði.